Bloggfærslur mánaðarins, október 2008

Nauðsynlegar aðgerðir STRAX

Í ljósi þeirrar reynslu sem fyrir liggur frá síðustu gjaldþrotahrynu hér, á árunum 1985 - 1992, er ljóst að STRAX þarf að setja reglur sem koma í veg fyrir óþarfa erfiðleika þeirra sem lenda í vandræðum með skuldir sínar.

Byrja þarf á því að setja reglur sem banna fjárnám í íbúðum fólks fyrir öðrum lánum en þeim sem beinlínis voru tekin til kaupa á íbúðinni, eða til stórfelldra endurnýjunar eða viðgerða á henni.

Þetta er mikilvægt vegna þess að í hrynunni ´85 - ´92, var gífurlega mikið um það að lögfræðingar færu með fjárnám inn á íbúðir, þó ákvílandi væru skuldir á þeim sem fyrirsjáanlega væru hærri en mögulegt söluverð íbúðanna á nauðungarsölu. Þetta gerðu lögmenn til að setja pressu á um greiðslu krafna sinna, í von um að fá frekar kröfuna greidda svo viðkomandi missti ekki íbúð sína.

Afleiðingar þessa urðu þær að margfallt fleiri misstu heimili sín en brýn nauðsun bar til. Auk þess var fólk iðulega í verri stöðu til greiðslu afborgana af lánum, þegar það hafði verið svipt heimilinu, fyrir einungis brot af því raunvirði sem það var í eðlilegri sölu. Skuldirnar lækkuðu hins vegar ekki nema um hluta af hinu lága söluverði, því lögfræð- og uppboðskostnaður tók verulegan hluta af söluverðinu.

Þessar harkalegu innheimtuaðgerðir urðu því fyrst og fremst mikil tekjulind fyrir lögfræðinga, en juku verulega á erfiðleika þeirra sem í fjárhagserfiðleikum voru.

Þegar af stað fer svona samdráttarferli í tekjuumhverfi, sem nú er fyrirsjáanlegt, er mikilvægast að forða svo sem hægt er að afleiðingar þess lendi á börnunum. Nauðungarsala á íbúðum á því að vera ALGJÖRT neyðarúrræði, sem ekki sé gripið til nema skuldari sýni enga viðleitni til að takast á við lausn vandans. Til þess að auðvelda endurskipulagningu skuldamála og jafna stöðu annara lánadrottna en þeirra sem lánað hafa til íbúðarkaupa, er AFAR nauðsynlegt að setja ALGJÖRT bann við við skráningu fjárnáma á íbúðir, fyrir skuldum sem eru ekki teknar til fjármögnunar þeirra.

Jóhana telur ekki ráðlegt að afnema verðtrygginguna. Ef krónan á að vera á floti, þarf að skapa henni eitthvert grundvalarviðmið. Það getur ekki gengið, vegna jafnræðisreglu stjórnarskrár, að krónan hafi ekki sama stofngildi í eignum hver sem eigandi krónunnar er. Ef ég legg fram 5 milljónir til kaupa á eign, en fæ aðrar 5 milljónir lánaðar hjá banka, eiga allar þessar milljónir að hafa sama verðgildi. Ef stjórnvöld setja reglur um að milljóir bankans  skuli bera einhverja verðtryggingu, verður sú verðtrygging líka að ná til milljónanna sem ég lagði fram. Annað er brot á jafnræðisreglu stjórnarskrár.

Önnur hlið er líka á reglunum um verðtryggingu. Alþingi er ekki heimilt að framselja aðilum úti í þjóðfélaginu vald til þess að ráða verðgildi krónunnar í viðskiptum milli aðila í þjóðfélaginu. Þetta vald er Alþingi einu ætlað og engar framsalsheimildir þar á.  Þess vegna er Alþingi ekki heimilt að framselja viðskiptalífinu vald til verðskráningar krónunnar í viðskiptum milli aðil innan þjóðfélagsins, eins og gert er með því að binda ákveðna notkun hennar við verðgildi neysluverðsvísitölu.

Margir fleiri vankantar eru á þessari svokölluðu verðtryggingu okkar og má lesa um það í pistlum hér á þessari síðu.                      

  

            


mbl.is Erfitt að afnema verðtryggingu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er Gordon Brown hættulegur heimsfriðnum ???????

Augljóslega eru til þjóðarleiðtogar sem gætu sprengt heila þjóð út fyrir siðmenninguna, án þess að athuga hvort sprengunnar væri þörf.

Fjármálakreppa hins svokallaða "þróaða heimshluta" er áþreyfanleg, sýnilegt og rökrænt verkefni, sem fundin verður lausn á með skipulegum hætti. Truflun á heilastarfsemi mikilvægra þjóðarleiðtoga lýtur hins vegar engum sýnilegum eða áþreyfanlegum lögmálum eða rökum, en á það til að birtast við mikið álag, og einmitt á þeim tímum þegar mikilvægast er að þjóðarleiðtogi sýni æðruleysi yfirvegun og kjark.

Forsætisráðherra Breta sýndi einmitt öll þessi einkenni brostinnar dómgreindar í framgöngu sinni gegn Íslenskum hagsmunum. Hann hringdi t. d. ekki í Geir, líkt og forsætisráherra Noregs og fleiri forsætisráðherrar gerðu, til að afla upplýsinga frá fyrstu hendi um það sem væri að gerast.

Nei, á grundvelli sögusagna sprengdi hann virðingu Íslensku þjóðarinnar út fyrir siðmenninguna og skrifaði svo Geir bréf þar sem hann vonaðist til að geta sjálfur lagt grunn að sátt Breta við Íslensku þjóðina. Athyglisvert að honum fannst engin þörf á að endurreysa þá alþjóðlega virðingu fyrir Íslensku þjóðinni, sem hann sjálfur sprengdi í fljótfærni út fyrir siðmenninguna.

Athyglisvert er, hve leyniþjónusta eða upplýsingaveita Breta er lélegt og sjálfhverft fyrirbrigði. Þannig heyrði ég nokkrum sinnum fjallað um á s. l. þriðjudag, og heyrði Geir sjálfan segja, að væntanlega dygðu eignir Landabankans í Bretlandi til að dekka innlánin á Icesave reiknignunum, en ef uppá vantaði mundi ríkisstjórnin bæta úr því.

Engir Breskir spæjarar virðast hafa tekið eftir þessu, og líklega ekki Íslenskir blaðamenn heldur, því ekkert hefur verið um þetta fjallað. Hins vegar voru Breskir spæjarar fljótir að grípa orð Davíðs Oddssonar, og snúa út úr þeim; þegar Davíð talaði um í Kastljósi að erlendir lánadrottnar bankanna yrðu að sætta sig við að tapa.

Það vill svo til, að flestir sem hafa ótruflaða heilastarfsemi, af völdum streitu, vita að sparifjáreigandi er ekki lánadrottinn. Orðið lánadrottinn, er haft um þá sem lána fé til tiltekins tíma, með ákveðnu skipulagi endurgreiðslu og afmörkuðum gjalddögum. 

Gæfuleysi Gordon's Brown í að halda lýðhylli í sínu heimalandi, virðast hafa rekið hann út á örvæntingarbraut í vinsældakapphlaupinu. Þannig virðast hann og spunameistarar hans, ekki hafa haft dómgreind til að sjá áhrif hinna heimskulegu aðgerða sinna.

Vonandi fara hluthafar Kaupþings í mál við Gordon og ríkisstjórn Breta. Óyggjandi er réttur þeirra til skaðabóta, og yrði ég ekki hissa þó þeim yrði dæmdar bætur sem næmu u. þ. b. 1.200 milljörðum króna. Það hefur einhvertíman verið farið í mál af minna tilefni.      


mbl.is Brown sendi Geir Haarde bréf
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þetta er það sem kallað hefur verið "hagfræði heimskunnar"

Í þessari frétt kemur fram sú grundvallar villukenning nútíma hagfræði, að veltuaukning þjóðfélags, sem búin er til með erlendum lántökum, skapi sjálfkrafa hagvöxt og eigi að mælast sem aukning landsframleiðslu.

Það, að slíta hugtakið "hagvöxt" frá hinni aldagömlu skilgreiningu sinni um aukningu á verðmætasköpun, hefur nú reynst heimsbyggðinni afar dýrt. Sama á við um þá skilgreiningu á aukningu á veltu, að kalla það "landsframleiðslu". Slíkt hefur líka vilt um fyrir almenningi að skilja hver hin raunverulega staða er.

Það væri til mikils sóma fyrir hagspekinga okkar og fræðimenn að tala á næstunni eðlilegt mannamál um helstu stærðir í þjóðfélagi okkar.

Eðlilegt er, þar sem umsvif og velta í þjóðfélagi okkar var að verulegu leiti drifin áfram af erlendu lánsfé, að umtalsverður samdráttur verði í þessari veltu, í framhaldi af því að erlent lánsfé er ekki lengur í boði.

Hins vegar eru ekki miklar líkur á mikilli niðursveiflu framleiðslugreina okkar, svo framarlega sem ekki verði mikil lækkun á verði áls.

Bankastarfsemin skapaði nokkurn gjaldeyri, en hún var líka afar frek á notkun gjaldeyris; líklega mun meiri en framleiðslan var.

Leggjum til hliðar hundakúnstir frá "hagfræði heimskunnar" og horfum djörf fram á veginn.             


mbl.is „Eins og að tapa landsvæði"
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Rangar upphæðir á erlendum skuldum

Í fréttinni er sagt að heildarskuldir okkar í erlendri mynt séu 2.800 milljarðar.  Eitthvað er bogið við þessa talnafræði því samkvæmt gögnum Seðlabankans voru heildarskuldir okkar í erlendri mynt, í lok júní s. l. samtals 9.553  milljarðar, og höfðu þá aukist um 577 milljarða á síðustu þremur mánuðum. Líklega hafa þessar skuldir verið komnar nálægt 11.000 milljörðum núna í loka september, sem svarar til þess að hvert mannsbarn í landinu skuli u. þ. b. 34 milljónir.

Einhverjar eignir munu vera skráðar á móti þessum skuldum. Margar þeirra eigna hafa verið í verðmæti hlutabréfa, sem þegar hafa fallið verulega í verði. Aðrar eignir eru mikið í fyrirtækjum og starfsemi sem erfitt er að selja við núverandi aðstæður. Eignastaða til jöfnunar þessara skulda getur því verið afar óljós. Við getum einungis vonað innilega að vel takist til með eignasölur, svo barnabörnin okkar þurfi ekki að líða fyrir græðgi okkar og andavarleysi.                 


mbl.is Skuldum vafin þjóð með „sterkar stoðir“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Frjálshyggjan og hagfræði heimskunnar í faðmlögum stranda.

Þá er komið að þeim kaflaskilum sem ég byrjaði að vara við árið 1998. Þá þegar var orðið ljóst að hópurinn sem kallaður var "stuttbuxnalið Sjálfstæðisflokksins" hafði sett svo rækilega samames merki = milli hugtaksins "frelsi" og hugtaksins "afskiptaleysi" að endaloka skilnings þeirra á frelsinu, var sjáanlegt í 10 - 15 ára fjarlægð.

Mikilvægt er núna, þegar endalokin eru í samtímanum, að átta sig á að þjóðhagslega er það smámál að finna einstaklinga sem notfært hafa sér aðstæður þess eftirlitsleysis sem afskipataleysiðviðhorfið bauð uppá.

Mikilvægast er fyrir þjóðina, að átta sig á að ástæða allra þessara hörmunga sem nú ganga yfir, má rekja til alvarlegs misskilnings á hugtakinu frelsi. Mikilvægt er að átta sig á, að eftir því sem frelsið er meira, þurfa allar  reglur að vera skýrari og einfaldari og mjög ströng viðurlög við því að fara út fyrir mörk leikreglna.

Mikilvægt er, að þjóðin átti sig á að við erum ekki einungis að kveðja hér ákveðna óraunhæfa draumsýn, heldur erum við að kveðja hér grundvallarstefnu stærsta stjórnmálaflokks landsins, eins og hún hefur verið túlkuð undanfarna tvo áratugi.

Eins og sagt var á Alþingi í kvöld, munum við síðar ræða ábyrgð einstakra aðila á því skipbroti sem nú er staðreynd. Við höfum nú horft á frálshyggjuna og hagfræði heimskunnar, í faðmlögum stranda á skeri raunveruleikans. Ég vona að þjóðin læri af þessu að varanleg verðmæti verða ekki til úr engu.              


Fjölmiðlar þurfa að slaka á taugaspennunni

Ég held að fjölmiðlar þurfi að fara að átta sig á að með svona taugaspennu auka þeir frekar erfiðleikana en leysa þá. Viðfangsefnið er afar eldfimt. Þess vegna er mikilvægt, eins í öllum öðrum tilvikum, þegar fengist er við ofurviðkvæm úrlausnarefni, að stíga hvert skref með gáta og yfirvegun. Slíkt er afar erfitt með tugi taugaveiklaðra fjölmiðlamanna hangandi yfir sér, spyrjandi eins og óráðssjúklingar.

Setjum upp líkingadæmi af því sem við er að fást. Í júní árið 2004, skuldaði fjölskylda 10 milljónir. Framundan var nokkuð traust vinna og tekjur sem væntanlega hækkuðu lítillega, en ekki mikið. Þess vegna var ljóst að ekki væri framundan mikil raunaukning eigna.

Enginn fjölskyldumeðlima er neitt sérstaklega að fylgjast með því sem fjármálamaður fjölskyldunnar er að gera. Þess vegna verður öll fjölskyldan klumsa og hrædd, þegar í ljós kemur í júní 2008, (4um árum síðar) að fjármálamaður fjölskyldunnar hefur með blekkingum aukið skuldir fjölskyldunnar í 100 milljónir; eða tífaldað skuldir fjölskyldunnar.

Peningunum hafði, að verulegu leiti, verið varið til kaupa á hlutabréfum í fyrirtækjum sem ýmist eru farin í gjaldþrot eða verðmæti hlutabréfanna lækkað allt að 80%, þannig að þó ætlaðar eignir verði seldar, duga þær einungis að litlu leiti til að borga þessar 100 milljónir sem fjölskyldan skuldar.

Á þessu sama tímabili höfðu tekjur fjölskyldunnar lítið aukist, en fjölskyldan aukið útgjöld sín til neyslu um töluverðar fjárhæðir. Nú er komið að fyrstu afborgunum af þessum skuldum og fjölskyldan fer í panik.

Lítum  nú á stóra dæmið.  Í júní 2004 voru erlendar skuldir þjóðarinnar rúmir 1.000 milljarðar. Í júlí 2008, (4um árum síðar) eru erlendar skuldir þjóðarinnar orðnar sem næst 10.000 milljarðar. Þessar skuldir hafa sem sagt tífaldast á fjórum árum, án þess að nokkur umtalsverð tekjuaukning hafi orðið.

Þessi erlendu lán voru svo, að nokkru magni, lánuð út frá bönkunum, án haldbærra trygginga, til kaupa á hlutabréfum, sem nú eru næsta verðlaus. Litlir peningar koma því til baka til bankanna, til að greiða hin erlendu skammtímalán, því flest erlend lán bankanna eru skammtímalán en útlán þeirra til töluvert lengri tíma; allt að 40 árum.

Svo er spurningin. Hverjir eiga að fá skammirnar og pressuna vegna þessa háttalags bankamannanna?

Er það ríkisstjórnin? Já, að þeim hluta að hún hafði ekki gát á því hvernig þjóðin var skuldsett.

Á að láta bankamennina sleppa við pressu frá þjóðinni og fjölmiðlum, vegna þess að það eru jú þeir sem eru hugmyndasmiðirnir og framkvæmdaaðilar að öllum þessum lántökum. Eiga þeir rétt á að vera í skjóli, að tjaldabaki þegar þjóðin og fjölmiðlar kerfjast svara um lausnir þess vandamáls sem bankarnir bjuggu til? 

Mér finnst að það séu fyrst og fremst bankamenn sem fjölmiðlar eiga að krefja svara.                   


mbl.is Alvarlegri en talið var
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gott þegar menn sjá að sér

Vandamálið númer 1 - 100 var ofþennsla bankanna. Fyrst bankarnir fengust til að draga saman seglin, selja eignir og þar með greiða niður erlendar skuldir, skapast svigrúm fyrir eðlilegt fjárstreymi.

Ég held að varla hafi verið hægt að fá betri lausn fyrir efnahag íslensku þjóðarinnar.              


mbl.is Ekki þörf á aðgerðapakka
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eitthvað misskilur Steingrímur ástandið

Úrlausnir þeirra vandamála sem þjóðfélagið setndur frammi fyrir snýst ekki um pólitískan meirihluta fyrir einhverri lausn.  Ríkissjórnin hefur afgerandi meirihluta á Alþingi og afgreiðir, með eða án samþykkis stjórnarandstöðunnar, þau atriði sem hún og aðilar atvinnu- og viðskiptalífsins, geta barið saman og fengið traust gagnvart hjá erlendum Seðlabönkum, eða Alþjóða gjaldeyrissjóðnum. 

Stjórnarandstaðan, rétt eins og fjöldi hagfræðinga og margra umtalsvert meiri reynslubolta en finnast í röðum stjórnarandstöðunnar, verða að sætta sig við að standa við hliðarlínuna. Það skynsamlegasta, og besta fyrir þjóðina, er að þessir aðilar gefi vinnufrið til leitar að lausn vandans, því þeir búa augljóslega ekki yfir lausn hans, því þeir lýstu engu hættuferli áður en Glitnir var þjóðnýttur.             


mbl.is Sáttahöndin að þreytast
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ekki láta fjölmiðlaæsinginn ná tökum á ykkur

Þegar erfiðleikar steðja að, er mikilvægast af öllu að halda hugarró og geta ígrundað framhaldið af yfirvegun og raunsæi. Í raun höfum við vitað, um nokkurra ára skeið, að fjármunaleg velta þjóðfélagsins hefur verið drifin áfram með erlendu lánsfé. Með þessu lánsfé hefur velta þjóðfélagsins, í viðskiptum og framkvæmdum, orðið töluvert meiri en raunverulegar tekjur þjóðfélagsins gátu borið. Nokkurum sinnum á ári hverju, hefur okkur verið gerð grein fyrir þessu ástandi, og á það bent að við gætum ekki endalaust bætt á okkur erlendum skuldum.

Svo virðist sem nokkuð stór hluti þjóðarinnar hafi í vitund sinni afneitað þessum grundvallarstaðreyndum lífisins, og talið sér trú um að við ættum alla þessa peninga, sem um þjóðfélag okkar flæddu. Athyglisverð afneitun í ljósi þess hve tíðar fréttir bárust af vaxandi skuldsetningu heimila og fyrirtækja, sem og hratt vaxandi erlendar skuldir lánastofnana.

Nú, þegar uppspretta erlends lánsfjár hefur þornað upp, reynir á hve vel fólk þekkir sjálfbærni þjóðar okkar á hinu fjármálalega sviði. Teljum við að við getum ekki staðið fjárhagslega á eigin fótum?  Er trú okkar á getu íslensks atvinnulífs til öflunar nauðsynlegs gjaldeyris, til greiðslu nauðsynlegs innflutning, ekki til staðar?  Sé það svo, hélt þá þjóðin að einhver væri að "gefa" henni alla þá munaðarþætti sem hér hafa flætt um þjóðfélagið undanfarin ár? Hafi einhverjir talið svo vera. Hver var þá gefandinn, og um leið þá sá sem hafði þjóðina á framfæri sínu?

Auðvitað veit ég að enginn hugsaði þetta svona. Eftir að hafa aðstoðað rúmlega 6.000 aðila, á árunum 1989 - 1993 við að losna úr skuldafjötrum sem voru tekjum þeirra óviðráðanlegir, þekki ég aflið sem felst í peningafíkninni. Slíkt afl slekkur auðveldlega á eðlilegri dómgreind. En með sjálfsaga og sterkri afneitun fíknihugsunarinnar, um vöntun eða þörf, fyrir að kaupa, geta allir endurheimt heilbrigða hugsun um innri hamingju og innihaldsríkt líf, þó peningavelta sé ekki mikil.

Mikilvægt er að fólk átti sig á að sú ógn sem fjölmiðlar hafa dregið fram í dagsljósið, er ekki ógn gegn eðlilegu lífi Íslendinga. Ógnin sem lýst er, snýr einvörðungu að þeim sýndarveruleika sem lánastofnanir okkar bjuggu til, með sívaxandi lántökum erlendis. Þessar lánastofnanir eru allar hlutafélög, sem bera fulla ábyrgð á gjörðum sínum og eiga í raun ekkert tilkall til að þjóðin bjargi þeim frá þeim óraunveruleika sem þeir bjuggu til sjáfir.

Hins vegar er rökrétt að stjórnvöld þurfa að bregðast við því álagi sem yrði ef lánastofnanir yrðu gjaldþrota. Tryggja þarf innistæður almennings, sem nú þegar hefur verið gert. Einnig þarf að huga að áframhaldandi bankastarfsemi í landinu, sem líka hefur verið gert með kaupum ríkisins á Glitni.

Næstu skref teldi ég eiga að vera að krefja bankana um tiltekt í eigin umhverfi, með því að fella út alla krossvirkni ábyrgða og eignatengsla og gera alla erlenda starfsemi sjálfstæða og óháða skuldastöðu íslenska hluta bankanna. Þannig yrði hægt að ná utanum þann skuldapakka sem eingöngu tilheyrir íslensku þjóðlífi og endursemja um þær skuldir við viðkomandi lánadrottna.

Panik og óðagot, eins og fjölmiðlar hafa þyrlað upp undanfarna daga, gerir ekkert annað en magna neikvæða þætti þeirra efrfiðleika sem við er að fást; auk þess að ræna þá menn orku og hugarjafnvægi, sem þurfa að glíma við lausnir vandans.

Með yfirvegun og festu mun þjóðin yfirvinna þessa erfiðleika. Það mun hins vegar óhjákvæmilega taka tíma. Fyrir u. þ. b. ári síðan áskotnaðist mér sýn þar sem þjóðarskútan lenti í ólgusjó og kastaðist upp á þurt land, án þess að nokkur væri við stýrið. Enginn mannskaði varð, en nokkrir hlutu skrámur og smávægileg meiðsl. Ég fékk sýn á að það tæki 20 ár að koma henni aftur í svipað ástand og hún var, við upphaf frjálhyggjunar, en í íslensku veruleika reyndist sú hugmyndafræði krabbamein.              

       


mbl.is 101 í röðinni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Guðbjörn Jónsson
Guðbjörn Jónsson
F.v. ráðgjafi

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (18.5.): 2
  • Sl. sólarhring: 4
  • Sl. viku: 448
  • Frá upphafi: 165295

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 447
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband