Bloggfærslur mánaðarins, ágúst 2008

Ábyrgðarlaus bjánagangur

Svona ábyrgðarlausan bjánagang er líklega ekki hægt að uppræta með öðrum hætti en láta þessa menn þurfa að beita eigin hyggjuviti til að bjarga sjálfum sér frá voða.

Ég mæli því með að hver sem gerir sig sekan um álíka vitleysu og þarna var sýnd, verði látinn fara í erfiða óbyggðargöngu með vönum og þjálfuðum fjallamönnum, sem einungis forða þeim frá að drepa sig, en hjálpa þeim ekkert að elda, tjalda, eða að rata leiðina.

Slík átök eru virkileg manndómsvígsla og þurkar út ótrúlega mikið af heimskupörum.  Hér á árum áður sá maður margan hugsunarlausan vesalinginn verða að manni til sjós, þar sem þeir þurftu sjálfir að gæta þess að halda lífi. Slíkt er ótrúlega fljótt að þurka út vitleysu og grafa heimskupör.

Sektir eru fljótar að gleymast og líklegt að þeir eigi lítið í bílunum, svo eignatjón verður ekki mikið þó billinn verði tekinn.

Líklega orðin full þörf á að taka ALMENNT á vaxandi ábyrgðar- og virðingarleysi yngri kynslóðarinnar, þó þar innan um sé margt gott fólk sem geldur vaxandi vitleysu minnihlutans.         


mbl.is Ofsaakstur á skólalóð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Til hamingju strákar og til hamingju með STRÁKANA OKKAR.

Það er búið að vera ynislegt að fylgjast með strákunum okkar á þessum Ólimpíuleikum. Einstaklega vel samstilltur hópur, með afar litla sálræna pressu frá þjóðinni á bakinu, vann hvert afrekið á fætur öðru, svo stærstu fjölmiðlar heims horfðu á með undrun.

Þetta var meira en íslenska þjóðin þoldi. Í miklum flýti var hrúgað upp mikilli andlegri pressu og sett á bak strákanna að þeir yrðu að vinna gullið. Eins og þjóðinni er lagið, var ekki seinna vænna að fagna sigrinum, en byrja daginn áður en leikurinn átti að fara fram. Og þjóðin hafði mikinn viðbúnað til að verða vitni að sigrinum sem hún var þegar farin að fagna.

Þessa aðferðarfræði hefur þjóðin margreynt áður og ævinlega orðið fyrir vonbrigðum. Mér skilst að Óli Stef. hafi reynt að koma því til skila, að þeir stilltu væntingar og spennu í hóf en byggðu upp innra með sér, hver og einn, hljóða sýn af því markmiði sem þeir sameiginlega stefndu að.     

Enginn veit hverju það hefði skilað ef þjóðin hefði fagnað velgengni strákanna okkar hljóð og bljú, og í hljóðri bæn beðið þess að þeim entist einbeiting og kraftur til að sigra erfiðasta andstæðing allrar keppninnar.

EN, við stóðumst ekki þessa spennu. Við sáum okkur tækifæri til að stökkva út í spennufíknilaugina í miðri lokakeppninni og búa til heljarmikinn bakpoka með andlegri spennu, fyrir strákana okkar að bera á bakinu í viðureigninni við erfiðasta andstæðing allrar keppninnar.

En þrátt fyrir að þjóðin hafi gert þeim ómögulegt að sigra þennan síðasta leik, þá hafa þeir unnið alveg einstakt afrek á þessum ólimpíuleikum og eiga svo sannarlega skilið höfðinglega móttöku þegar þeir koma heim.

Vonandi lærir þjóðin fljótt að fagna ekki sigri í miðjum leik.    


mbl.is Ísland í 2. sæti á ÓL
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Heimskupör geta líka vakið athygli

Mér finnst nú þurfa að teygja hugtakið "list" ótrúlega langt til að flokka þetta sem listaverk.
mbl.is Vatn áberandi á Menningarnótt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vá! Nýtt eyðsluæði í uppsiglingu ? Eigum við að byrja strax ???

Það er einkennandi fyrir okkur að við horfum ekki á tækifærin sem leið til að auka tekjur þjóðarinnar og bæta aðbúnað fólksins. Við sjáum einungis tækifæri til viltara innihaldslauss lífs og meiri eyðslu peninga.

Það virðist greinilegt að peninga- og eyðslufíknin er ekkert á undanhaldi og heilbrigð hugsun enn utan sjóndeildarhrings. Fyrst svo er, munum við áreiðanlega verða sett í mun dýpri samdrátt og kreppu en þá sem þjóðin er í nú.

Þegar hugarfar heildarinnar tekur áberandi breytingum, erum við búin að ná botninum og örlítið farin að máta okkur við endurreisn lífsgæða.

Hvað verður langt að bíða eftir því?

Við ráðum því sjálf. Engin ríkisstjórn getur framkvæmt þá breytingu.         


mbl.is Olíurisar sýna áhuga á borun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Umræðan um efnahagsmálin er dálítið samhengislaus

Ég velti fyrir mér hvers vegna umræðan um efnahagmálin er svo samhengislaus sem raun ber vitni. Er hugsanlegt að þeir hagfræðingar sem rætt hefur verið við hafi ekki heilstæða sýn á hvað veldur þeim efnahagsvanda sem við erum að fást við? Ég veit það ekki, en ég verð að viðukenna að ég er afar hissa á öllum þessum sundurlausu bútum sem fjölmiðlar eru að bera á borð fyrir lesendur/hlustendur sína.

Svo vitnað sé í nýjustu ummæli hagfræðingsins Jóns Steinssonar, dósents í hagfræði við Columbia-háskólann í New York, í blaðinu 24 stundir í dag, 19. ágúst, en þar segir hann:

Peningamálastefnan virkar ekki og því er ákjósanlegra að taka upp evru hér á landi til að tryggja verðstöðugleika.

Betra hefði verið að hann segði bara sannleikann, sem er að; peningamálastefna er engin hér á landi. Krónan okkar hrekst eins og haustlaufblað undan veðri og vindum vegna þess að stjórnvöld hafa enga, og hafa ekki haft í mörg ár, skýra stefnu um stjórnun peningamála þjóðarinnar. Þau hafa hagað sér eins og verðmæti þjóðfélagsins væri sjálfrennandi streymi, líkt og vatnið úr krananum. Krónan væri þeim einstöku hæfileikum gædd, umfram allar aðrar myntir jarðarinnar, að geta lagað sig að öllum þeim breytingum sem að henni steðja, jafnt innan frá úr þjóðfélagi okkar, sem og frá yrti aðstæðum.

Jón telur heppilegast að þjóðin taki upp evru til að tryggja verðstöðugleika. Þarna skjátlast honum hrapalega, því það er ekki myntin sem veldur óreglulegu verðlagi, heldur fólkið sem skapar verðgildi hennar og notar það.

Ef við snerum hugsun okkar og orku frá því að eyða eins miklu af peningum og við komumst yfir, og beindum álíka orku að því að skapa stöðugt vaxandi verðmæti þjóðfélagsins, yrði krónan okkar ein traustasta mynt sem völ væri á. Af þessu má sjá að í raun skiptir engu máli hvað myntin heitir. Það sem skiptir máli er það hvernig þjóðin lítur á og byggir upp verðmæti hennar.

Einn mesti friðarþjófur í hverri fjölskyldu er það ef fjölskyldumeðlimir hafa ekki rétt mynd af því hve miklum peningum þeir megi eyða á hverjum tíma, viku/mánuði/ eða ári. Hjá mörgum skapar það fíkniþátt að eyða peningum og allir vita að afar sterkan viljakraft og skynsemi þarf til að yfirvinna og hafa stjórn á fíkniþætti. Þjóðin er í raun ein stór fjölskylda, sem öll þarf að lifa af tekjum sínum; ekki bara einhverjir útvaldir gróðahyggjumenn eða aðrir sem láta stýrast af fíkniþætti peningaeyðslu. Með slíku verður ekki til friðsöm fjölskylda eða friðsöm samtaka þjóð.

Í 24 stundum var Jón var spurður að því hvað þyrfti helst að gera:

 Sagði hann vandamál sem íslensk stjórnvöld horfðu fram á vera tvenns konar; annars vegar að ná niður verðbólguvæntingum og hins vegar að auka trúverðugleika íslensks fjármálalífs.

Það er afar öfugsnúið þegar hagfræðingur talar um verðbólguvæntingar,   því í raun VÆNTIR engin verðbólgu. Hins vegar geta ranghugmyndir sem haldið er að þjóðinni, líkt og þegar henni var talin trú um að hér ríkti góðæri og við værum rík, skapað alvarleg vandamál. Og við stöndum einmitt frammi fyrir einu slíku núna.

Við þurfum því fyrst og fremst að hafa kjark til að segja þjóðinni satt um að þær blekkingar sem beitt var með "góðæristalinu", voru fyrst og fremst pólitískar blekkingar, til vinsælda fyrir ákveðna aðila. Þessar blekkingar voru notaðar til að trilla hinn veisluglaða hluta þjóðarinnar og skapa viðhorf og trylling hinna nýríku.

Veðsetttar voru framtíðartekjur núverandi barna og ungmenna þjóðarinnar, ásamt ímyndaðri ríkisábyrgð á skuldasukkinu. Ef við viljum sem mest auka möguleika afkomenda okkar til að taka þátt í því sem þá verður merkast og nýjast, ættum við að skilja innkaupakörfuna eftir heima og einbeita okkur að verðmætasköpun í stað eyðslu peninga. Það slekkur snarlega verðbólgubálið.

Jón virðist telja að það sé fyrst og fremst stjórnvalda að tryggja trúverðugleika íslensks fjármálalífs. Þetta er gömul hugsun ríkisforsjár sem lögnu er aflögð hér á landi. Bankar og aðrar lánastofnanir bera alla ábyrgð á trúverðugleika fjármálalífsins.

En þar sem þeir hafa sýnt af sér slíkt ábyrgðarleysi gagnvart fjárhagslegu sjálfstæði þjóðarinnar, tel ég einsýnt að stjórnvöld verði á komandi þingi, að skerpa verulega á ábyrgðar- og hæfniskröfum stjórnenda fjármálastofnana og jafnvel að skilyrða að ákveðið hlutfall útlánafjár þeirra fari til gjaldeyrisskapandi atvinnustarfsemi, svo ófarir undanfarinna áratuga endurtaki sig ekki.

Með slíku átaki sem hér hefur verið lýst, munu afkomendur okkar geta lifað með reisn í fjárhagslega sjálfstæðu þjóðfélagi      


Er þetta sú virkni markaðarins sem frjálshyggumenn voru að boða ?????

Greinilega eru þeir sem reka olíufyrirtækin ekki tilbúnir til að viðrkenna virkni markaðsaflanna nema á annan veginn. Þeir eru fljótir að hækka verðin en slökkva svo á virkni markaðarins þegar verðin lækka.

Af þessu tilefni væri fróðlegt að fá viðskiptaráðherra til að upplýsa um hve mikið magn olíufélögin keyptu til landsins, af olíu og bensíni, á því tímabili sem verðin fóru hæst og hvert verðmæti þeirra innkaupa var. Og á hina hliðina, hvað mikið magn þeir seldu af olíu og bensíni á þessu tímabili og hvert verðmæti þeirrar sölu var.

Búum til gróft dæmi:

Ef keypt hefði verið 5.000 tonn af bensíni til landsins á heimsmarkaðsverðinu 100 dollarar fyrir tunnuna, hefðu þessi innkaup líklega kostað 2,5 milljónir dollara, eða sem svarar 0,5 dollurum hver lítri.

Ef heimsmarkaðsverð á bensíni hefði hækkað skömmu síðar í 150 dollara tunnan og í ljósi þess verið ákveðið að selja lítrann á 160 krónur, hefði helmingur Þeirrar upphæðar, 80 kr. pr. lítra, runnið til ríkisins en hitt til olífélagsins. Þrátt fyrir lækkun gengis hefði samt komið út úr sölu hvers lítra af hinum keyptu birgðum u. þ. b.  1 dollar, eða 100% verðmætisaukning til að vega upp á móti 50% markaðsverðshækkun.

Nú vill svo til að þegar aftur þarf að kaupa birgðir til landsins, hafði heimsmarkaðsverð á bensíni lækkað í 112 dollara fyrir tunnuna, eða 560 dollara fyrir tonnið, sem svarar til 0,56 dollarar hver lítri.

Þegar olíufélögin kaupa því aftur ný 5.000 tonn af bensíni, þurfa þau ekki að borga fyrir það nema 2,8 milljónir dollara, eða einungis 300 þúsund dollurum meira en þeir keyptu gömlu birgðirnar á, sem var 2.5 milljónir dollara.  Þessar birgðir höfðu þeir hins vegar selt þannig að þeirra hlutur úr söluverði var 5.000 dollarar, eða 100% meira en innkaupsverðið var.

Í ljósi þessarar einföldu línu finnst mér fróðlegt að opinberað væri hvernig verðþróun birgðahalds olíufélaganna hefur verið; segjum svona 5 síðastliðin ár.

Ég vil skora á viðskiptaráðherra að skoða nánar þennan þátt verðmyndunar á bensíni og olíu.                 


mbl.is Olíuverð niður fyrir 112 dali tunnan
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er það sjálfsagt að fyrirtæki og opinberir aðilar brjóti lög og vanvirði viðskiptamann sinn ???

Hér áður fyrr voru þeir sem blóðmjólkuðu kýrnar sínar kallaðir dýranýðingar. Þeir þóttu bera svo litla virðingu fyrir dýrinu að þeim ætti ekki að vera heimil nein samskipti við dýr.

Í dag hef ég að nokkru upplifað hlutskipti dýrsins þegar ég lenti í þeirri stöðu að mæta tvívegis því nýðingsviðmóti sem blóðmjólkun er; reyna að fá skilning eða eðlilega virðingu viðskiptamanns, en vera hafnað með þótta valds og aðstöðumunar.

Ég tók að mér að borga stöðumælasekt til Reykjavíkurborgar, fyrir aðila sem fór úr landi í morgun. Stöðubrotið hafði átt sér stað 1. ágúst s. l. en af vangá láðst að greiða sektina, sem var, án afsláttar kr. 1.500.

Ég ætlaði að bregðast skjótt við og borga þetta í heimabanka, en þá koma upp vandamál. Innheimtan var í formi greiðsluseðils innheimtukerfis bankanna. Á honum eru fjórir valmöguleikar um innslátt. Það er: Kennitala kröfueiganda, númer kröfunnar, bankanúmer og höfuðbók, og gjalddagi kröfunnar.  Við þetta bætir svo heimabankaformið fimmta þættinum, sem er - kennitala greiðanda.

Þegar ég ætlaði að slá inn þessum forsendum komu í ljós atriði sem ekki standast lög. Brotið hafði átt sér stað föstudaginn 1. ágúst kl. 15:29. Vegna verslunarmannafrídags gat gjalddagi kröfunnar því ekki verið fyrr en þriðjudaginn 6. ágúst. Samkvæmt skilmálum innheimtuformsins átti eindagi að vera 14 dögum eftir gjalddaga, eða samkvæmt eðlilegri framkvæmd þann 20. ágúst n.k. Gjalddaginn sem færður var á greiðsluseðilinn var hins vegar 9. júlí 2008, eða 28 dögum áður en krafan var gefin út.

Fyrsti mögulegi gjalddagi og greiðsludagur kröfu, er daginn eftir að greiðandi fær kröfuna / reikninginn / greiðsluseðilinn í hendur, miðað út frá eðlilegum póstsamgöngum. Það er því léleg afsökun fyrir höfuðborg landsins og stjórnendur hennar, að segja að það skipti engu þó þeir brjóti bókhaldslög um útgáfu reikninga, með því að dagsetja innheimtureikning eða greiðsluseðil, löngu áður en krafan stofnast. Slíkt er MJÖG alvarlegt brot gagnvart greiðanda.

Þegar kom svo að því að skrá inn kennitölu greiðanda, kom í ljós annar alvarlegur yfirgangur bílastæðasjóðs, því þeir gera kröfu til þess að VERA SJÁLFIR skráðir greiðendur kröfunnar. Að kennitala þeirra sjálfra verði skráð sem kennitala greiðanda, en ekki kennitala hins raunverulega greiðanda. Þetta er misnotkun á greiðslukerfi heimabankanna, sem er borginni til verulegrar skammar.

Ekki var samt allt búið enn, þó allar þessar ólögmætu hindranir væru yfirstignar. Þegar greiða átti gjaldið, 1.500 krónur, kom í ljós að við höfðu bæst 750 krónur, eða 50% vanskilagjald, þó einungis væru liðnir 12 dagar frá fyrsta mögulega greiðsludegi, af þeim 14 sem fresturinn átti að vera.

Vanskilagjald hefur alla tíð verið ÓLÖGMÆTT og til verulegrar smánar fyrir höfuðborg landsins að stilla sér upp í hóp þeirra lögbrjóta gagnvart fólki, sem innheimta hið ólögmæta gjald. Það er sorglegt að stjórnendur samfélags okkar, borgarstjórn Reykjavíkur, skuli með þessum hætti stilla sér upp með nýðingum gegn þegnum sínum, því það er nýðingsháttur að innheimta, í krafti aflsmunar, ólögmætar fébætur af þegnum sínum eða viðskiptamönnum.

 

Hinn þátturinn sem ég varð fyrir í dag bar einnig vott um fégræðgi og yfirgang. Við hjónin höfum verið með svonefndan "jeppling" sem við höfum tryggt hjá Verði, tryggingafélagi. Í júlímánuði s. l. greiddum við tryggingar af þessum bíl, sem gilda áttu til júlí 2009.

Fimmtudaginn 14. ágúst s. l. bauðst okkur tækifæri til að skipta á þessum jeppling okkar fyrir annan yngri jeppling, af sömu stærð og í sama tryggingaflokki. Þegar kom að því að breyta um bílnúmer á tryggingunni okkar, var það ekki hægt. Tryggingafélagið sagði að við hefðum með sölunni sagt tryggingunum upp og yrðum að kaupa nýja tryggingu á þann bíl sem við fengum.

Þetta fyrirkomulag færði þeim eitthvað um 20 þúsund krónur í viðbótargreiðslur frá okkur, vegna þess að tryggingar hækkuðu hjá þeim nú í byrjun ágúst.

Það skipti engu máli þó við hefðum verið búin að borga tryggingu af samskonar bíl til júlí 2009. Við gátum ekki fengið að nota þá tryggingu á þann bíl sem við fengum í staðinn, þó hann væri að öllu leiti í sama gjaldflokki.

Eru einhverjir aðilar eftir sem bera virðingu fyrir viðskiptamönnum sínum?


Er Óskar með súst eða sætt epli til að bíta í ?????

Það er óneitanlega skrítið að fylgjast með þessu endalausa klúðri sem meirihlutasamstarfið í Reykjavík hefur verið þetta kjörtímabilið. Finnst mér umræðan einkennast af litlu raunsæi hjá borgarbúum, varðandi möguleika um myndun meirihluta í ljósi úrslita síðustu kosninga.

Úrslit kosninganna urðu með þeim hætti að einungis voru þrír möguleikar á að mynda meirihluta sem hefði meira en eins manns meirihluta. Það var með samstarfi Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar, Sjálfstæðiflokks og Vinstri grænnar, eða Sjálfstæðisflokks, Framsóknar og  F-lista. Sjálfstæðisflokkurinn veðjaði á eins manns meirihluta. Slíkt krefst mikillar stjórkænsku og lipurrar aðlögunarhæfni, sem ekki hefur verið merkjanleg í borgarstjórnarflokki Sjálfstæðismanna, því miður.

Eftir að seinni meirihluti Sjálfstæðismanna sprakk, og útilokað þótti að þeir næðu saman með Samfylkingu eða Vinstri grænum, var einungis einn möguleiki eftir í stöðunni til að mynda starfshæfan meirihluta í Reykjavík; sem er jú frumskylda kjörinna fulltrúa. Það var með því að Framsóknarmaðurinn Óskar Bergsson axlaði ábyrgðina á framhaldinu og gengi til samstarfs við Sjálfstæðismenn.

Hefði Óskar hafnað því, hefðu Reykvíkingar áfram verið í þeirri stöðu að Ólafur F. Magnússon hefði verið í oddastöðu, sem 8. maður Tjarnarkvartets, eða Sjálfstæðismanna. Sjálfstæðismenn voru búnir að gefast upp og afar ólíklegt verður að teljast að fyrst einn aðili gat ekki myndað samstöðu með Ólafi, að slíkt gengi betur hjá þremur.

Það má því segja að Óskari hafi verið fengið súrt epli að bíta í. Hann sýndi þann drengskap og kjark að bíta í það og brosa. Vitandi um skyldur kjörinna fulltrúa og vandræðagang fulltrúa hinna flokkanna, sem ekki gátu myndað nauðsynlegan meirihluta. Að sjálfsögðu segir hann nú að hann ætli að klára kjörtímabilið, annað væri óeðlilegt.

Menn verða bara að hafa kjark til að horfast í augu við það að þetta var eini möguleikinn sem fyrir hendi var. Hvort hann gengur upp veit enginn.

Það voru nú við sem kusum svona, var það ekki? 

 

                


mbl.is Samfylkingin hafnaði nýjum Reykjavíkurlista
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Munu skuldir fólks á Bretlandi hækka nú þegar pundið fellur ?????????

Örlítið til umhugsunar fyrir þá sem hafa haldið því fram að aðferð okkar við svokallaða verðtryggingu sé svipuð því sem gerist annars staðar.

Lítum aðeins á hið klassíska dæmi um kaffipakkann.  Fylgjendur verðtryggingarinnar halda því fram að ef þeir láni aðila hér á landi fyrir einum pakka af kaffi til fimm ára, þá eigi þeir að fá til baka einn pakka af kaffi + vexti.  Ef kaffið hækkar frá framleiðendum, vegna uppskerubrests eða t. d. hækkunar dollarans, þá skuli skuldir Íslendinga við íslenska banka eða íslenska lánadrottna, einnig hækka að sama skap og verða fleiri ísl. krónur.

Ef þetta væri rökrétt, þá ættu nú allar skuldir Breta að hækka, vegna þess að dollarinn var að styrkjast gagnvart pundinu (ef þannig er á það litið), eða að pundið var að falla gagnvart dollar, eins og segir í fréttinni.

Gengisfall pundsins mun að sjálfsögðu ekki breyta neinum um upphæð skulda fólks í Bretlandi. Hver sá sem skuldaði 1.000 pund áður en pundið féll gagnvart dollar, skuldar enn hin sömu 1.000 pund þó dollarinn sé nú orðinn dýrari en hann var áður.

Þeir sem einhverja skýmu hafa um rekstur fjárhagslega sjálfstæðs þjóðfélags, vita að það er ekki gjaldmiðlar eða vöruverð annarra hagkerfa sem eiga ráða gengi gjaldmiðils þjóðarinnar, heldur verðmætasköpun (gjaldeyrissköpun) sem hlutfall af útgjaldaveltu.

Þetta vissu menn meðan hagfræðin hét, hagnýt skynsemi, en þegar reynslan var skilin eftir úti í kuldanum, varð líka eftir úti í kuldanum þekkingin á forsendum þess að reka fjárhagslega sjálfstætt þjóðfélag.

Er ekki kominn tími til að dusta rykið af gömlu þekkingunni, meðan einhver er eftir sem getur fært hana milli kynslóða?       


mbl.is Sterlingspundið ekki verið jafnt veikt í nær tvö ár
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stundum er lán að vera án lána

Það kemur nú ekki oft fyrir að ég sé ánægður með Árna Math. fjármálaráðherra, en ég var nokkuð ánægður með tilsvör hans í fréttaviðtali í sjónvarpinu í gær (þriðjudag). Tilsvör hans varðandi kröfu greiningadeilda  bankanna, en þó einkanlega Eddu Rósar Karlsdóttur, hjá Landsbanka, um að ríkið taki stórt lán til að auka gjaldeyrisforða Seðlabankans, báru með sér að hann hefði hlustað á alvöru hagfræðinga. 

Hann var vel meðvitaður um að bankarnir voru að krefjast baktryggingar ríkisins fyrir glæfralegri skuldsetningu sinni; skuldsetningu sem engin raunhæf trygging var fyrir og sýnilega mjög óörugg greiðslugeta þeirra lántaka sem bankarnir endurlánuðu peningana til.

Það opinberar alvarlegan skilningsskort yfirstjórnenda banka í litlu hagkerfi að telja sig geta baktryggt erlendar lántökur, umfram þarfir til reksturs þjóðfélaginu, í gjaldeyrisforða Seðlabanka þjóðarinnar. Þeir bankar sem endurlána það fé sem þeir hafa í vörslu sinni, lánsfé eða innlán, leggja þekkingu sína og rekstrargrundvöll að veði við þau útlán. Að þau séu einungis til aðila sem þeir hafa sannreynt að geti endurgreitt lánin. Til slíks safna þeir að sér meintum "sérfræðingum" og stjórnendur fá greidd himinhá laun, bónusa og önnur fríðindi, vegna yfirgripsmikillar þekkingar á þessum sviðum. Ábyrgð eiga þeir að bera, meðal annar á því að öll útlán séu byggð á traustum möguleikum til endurgreiðslu.

Þessum grundvallarþáttum fyrir launum sínum, hafa stjórnendur bankanna greiðilega brugðist. Opinberlegar og óstaðfestar fréttir bera með sér að margir tugir milljarða hafi verið lánaðir út, án þess að bankarnir hefðu staðfasta vissu fyrir möguleikum til endurgreiðslum. Eða að fyrir þessum útlánum væru traust veð sem dekkuðu verðmæti hins lánaða fjármagns.

Það er í raun ámæliverð ósvífni og lítilsvirðing við dómgreind þjóðarinnar, að þessi hópur ofurlaunaðra bankamanna, skuli við fyrsta andbyr þar sem reyni á sérfræðiþekkingu þá sem þeir hafa þegið laun fyrir undanfarin ár, skuli þeir væla eins og óþekkir óvitar og heimta að þjóðin og skattborgarar hennar bjargi þeim frá eigin heimsku og vitleysu.

Það væri enginn skaði fyrir þjóðarheildina þó þessir bankar færu úr landi. Það er ekki langrar stundar verk að stofna nýja ríkisbanka og svona litlu hagkerfi dugar einn ríkisbanki, við hlið sparisjóðanna, til að bankastarfsemi hér haldist eðlileg. Bankarnir eru að vinna fyrir sig; það hafa þeir sýnt. Þeir eru ekki að vinna fyrir þjóðina.        


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Guðbjörn Jónsson
Guðbjörn Jónsson
F.v. ráðgjafi

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.12.): 1
  • Sl. sólarhring: 4
  • Sl. viku: 17
  • Frá upphafi: 165580

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 15
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Des. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband