Bloggfærslur mánaðarins, september 2009

Undarlegt viðhorf Samfylkingar- stjórnmálafræðings

Undarlegt er að lesa þetta viðtal við Gunnar Helgi Kristinsson stjórnmálafræðing. Hann segir að hér sé þingræði, en segir í sama viðtali að ríkistjórnin eigi að fá fram sinn vilja hjá þinginu. Hann segir að "Ögmundur virðist draga upp mynd af stjórnarstarfi sem er ekki hér, hér er þingræði,“  

Gunnar Helgi hlýtu að vita að í áratugi hefur ekki verið þingræði í framkvæmd hér á landi. Hér hefur verið viðhaft hið kommoníska fyrirkomulag að framkvæmdavaldið (ríkisstjórnin) segi þinginu fyrir verkum og afhendi þinginu málin fullfrágengin, til samþykktar, með hraði. Minniháttar breytingar eru þinginu heimilar, ef það raskar ekki áformum ráðstjórnarinnar.

Ef Gunnar Helgi sér ekki hve þetta fyrirkomulag er langt frá grundvallar skipulagi stjórnskipunar í lýðveldi okkar, er áreiðanlega eitthvað skrítið við skynjun hans og skilning. Í viðtalinu er eftirfarandi haft eftir honum:

„Ögmundur virðist ætlast til þess að hlutur af fólki geti orðið hluti að ríkisstjórnarsamstarfi eins og hann væri sérstakur flokkur, en það er ekki hægt, þannig gerast hlutirnir ekki. Það er spurning hvort þá þyrfti ekki bara nýjan stjórnarsáttmála, til að taka á slíkum aðstæðum,“  

Þarna er líklega um afgerandi HEIMSKULEGAN útúrsnúning að ræða hjá Gunnar Helga, því ætla má að gáfnafar hans sé á hærra plani en svo að hann hafi ekki skilið hvað Ögmundur var að segja.

Ögmundur lýsti í afar skýru máli eðlilegri framgöngu lýðræðislegra skoðanaskipta á hinum "þingræðislega" vettvangi, sem Alþingi er. Hann lýsti einnig afar skýrlega, að hann hefði alla tíð gert skýran greinarmun á stjórnun þjóðfélagsins annars vegar, en hins vegar hinu svokallaða Icesave máli. Kannski Gunnar Helgi hafi ekki andlega burði til að skilja slík lýðræðisviðhorf, og ber þá að sjálfsögðu að virða það.

Hvað sem allri "gráglettni" líður, er óhætt að segja að með þessu viðtali hafi Gunnar Helgi stimplað sig rækilega út úr samfélagi heiðarlegra fræðimanna og gerst óheiðarlegur pólitíkus, sem vegur í ódrengskap að persónum þeirra sem þeir telja vera á annarri skoðun en þeim sjálfum hentar.

Ég vorkenni svona aumri sál.              


mbl.is „Hér er þingræði“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er gamla fjárhættuspilaveldið að ná yfirhöndinni aftur ?????

Undanfarnar vikur hefur verið athyglisverð þróun í hinum pólitíska hluta þjóðarinnar. Indriði skrifar trúnaðarskal, fyrir allra augum, um höfnun breta og hollendinga á þeirri ríkisábyrgð sem Alþingi samþykkti. Greinilega pressar ESB blokkin Jóhönnu, sem því miður hefur lengi skort forystueðli. Þeir greinilega  ógna henni með því að þjóðinni verði útskúfað frá þröngum hópi ráðandi ríkja í ESB.

Utaríkisráðherrar Bretlands og Hollands, sýndu utanríkisráðherra okkar greinilega ókurteisi á nýlegum fundi þeirra í Bandaríkjunum. Þó utanríkisráðherra okkar fjalli um málið hjá Sameinuðu þjóðunum, minnkar ekkert hrokinn og yfirgangurinn frá kjarnaþjóðum ESB, sem verða að halda  svikamyllu verðmætalausra verðbréfa gangandi, svo spilaborg þeirra hrynji ekki líka.

Allir sem eitthvert skyn bera á þær Evrópureglur sem þjóð okkar er skuldbundin af, vita að þjóðin er ALLS EKKI skuldbundin til að taka á sig greiðslur vegna Icesave. Þeir Seðlabankastjórar í Evrópu, sem eitthvað hafa látið hafa eftir sér, eru allir á sama máli um að enginn tryggingasjóður í einu eistöku landi, myndi ráða við hlutfallslegt fjármálahrun, á við það sem varð á Íslandi. Seðlabankastjóri Hollands sagði að tryggingasjóður þeirra réði ekki við að einungis einn stærsti banki þeirra myndi hrynja jafn snögglega og bankarnir á Íslandi.

Öll rök í þessu máli hafa því legið í eina átt. Að þarna hafi orðið skelfilegt hrun verðmætalausra viðksiptapappíra, sem fyrst og fremst stafaði af fullkomlega ónothæfum reglum um frelsi á fjármagnsflæði milli landa. Einnig ræður þarna miklu fullkomið andvaraleysi ESB og ríkisstjórna einstakra ríkja, um þá breyttu fjármálastarfsemi innan lögsögu hverrar þjóðar, sem varð með tilkomu fjórfrelsisins.

Bretar hrópa hátt og benda á að við hefðum átt að hafa stjórn á fjármálastarfsemi bankastofnunar, sem þeir veittu sjálfir starfsleyfi innan sinnar lögsögu.  Geta menn ímyndað sér viðbrögð Breta ef  Íslenska fjármálaeftirlitið hefði farið að gagnrýna Breska fjármálaeftirlitið, og bent á að Breska eftirlitið hefði ekki nægilegt eftirlit með óhóflegri áhættutöku breskra sparifjáreigenda, þar sem þeir hrúguðu peningum inn á ávöxtunarreikninga sem engar tryggingar væru fyrir.

Ég er ansi hræddur um að Gordon okkar Brown hefði orðið ansi hvefsinn, og lítið kært sig um svona íhlutun í innanríkismál þeirra. Litið á þetta sem fullkomið vantraust á eftirlitsstjórnun ríkisstjórnar sinnar, frá utanað komandi aðila.

Hvernig getur í raun staðið á því að íslenska þjóðin á sér svona afar fáa verjendur innan stjórnmálastéttar landsins?  Er það vegna þekkingarleysis á  réttlæti, ábyrgðarþætti geranda í svona málum, eða er andlegur hæfileiki þeirra til viðamikilla stjórnunarstarfa ekki meiri en raun ber vitni?

Hver sem ástæðan er, finnst mér fullkomlega kominn tími til að þjóðin segi skýrum orðum við Breta og Hollendinga. - Við höfum reynt allt sem okkur er fært, og töluvert meira en það, til að hjálpa ykkur út úr ógætilegri meðferð ykkar á ykkar eigin fjármunum. Þið hafið haft þennan vilja okkar að engu. Þess vegna skuluð þið bara fara hina hefðbundnu innheimtuleið, að stefna innheimtukröfum ykkar fyrir dómstóla og láta þá um að hveða upp úr um réttarstöðu ykkar til þeirra krafna sem þið berið fram. Við munum una endanlegum niðurstöðu slíks úrskurðar.                    


mbl.is Ögmundur segir af sér
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Svona á að spara

Þetta er nýjasta sparnaðarformið. Segja upp einum yfirlækni, en ráð í staðinn einn forstjóra og einn framkvæmdastjóra.

 
Mjög skilvirk heilbrigðisstefna                 


mbl.is Siglfirðingar slegnir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Athyglisvert hve þeim tekst að snúa rassinum í helstu sparnaðarleiðir og leiðir til tekjuauka.

Ég yrði verulega hissa ef sá sparnaður sem út úr þessu kæmi, dygði til að greiða alla vinnu, og annan kostnað við að útfæra þessar "meintu" sparnaðarleiðir.

Greinilega eru þessar leiðir búnar til af "líkana-nördum", sem hafa afar litla raunþekkingu á þjóðfélaginu.

Engar áætlanir eru uppi um að skýra leikreglur eða einfalda framkvæmd. Einungis farin hin hefðbundna leið ráðstjórnar kommonista-viðhorfsins, að auka miðstýringu og draga valdið á hendur færri einstaklinga, svo auðveldara verði að "hafa stjórn á ríkisapparatinu".

Mér finnst dæmigert fyrir ráðaleysi helstu ráðgjafa ríkisstjórnarinnar, að í allri þessari fréttatilkynningu er engin áætlun um tekjuaukandi aðgerðir, einungis hin kommoníksa miðstýringarhugsun.

Það er greinilega verið að hjálpa Sjálfstæðisflokknum að auka fylgi sitt, því það þurfa sko ekki að vera hægri menn sem frekar kjósa D-listann en svona kommonista-samsteypu.              


mbl.is Viðamiklar breytingar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Óttast að stjórnmálamenn skilji ekki viðfangsefnið.

Því miður óttast ég að félagsmálaráðherra og aðrir stjórnmálamenn skilji ekki eðli og umfeng þess verkefnis sem þeir boða breytignar á.

Líklega eru verðtryggð og gengistryggð skuldabréf, sem mánaðarlega eru keyrð í skuldabréfakerfi Reiknistofu bankanna, verulega á þriðju milljón talsins, eða jafnvel fleiri.

Skuldabréfakerfið hefur einungis einn útfærslumöguleika á hverju skuldabréfi. Annað hvort er skuldabréfið verðbætt með einni verðbótavísitölu, eða tilbúinni gengisvog gjaldmiðla, sem kerfið er látið taka sem viðmið, í stað neysluvísitölu.

útilokað er að reiknigrunnur skuldabréfakerfis Reiknistofunnar ráði við þá hugmyndafræði sem ráðherra heyrðist kynna, að annars vegar verði reiknað út frá neysluvísitölu en hins vegar út frá launavísitölu. Greiðslan miðist síðan við launavísitölu en uppsöfnun höfuðstóls við neysluvísitölu.

Af þessari hugmyndafræði sést það best að stjórnmálamenn, og þeirra helstu ráðgjafar, viðast í raun ekki skilja hvað felst í raun í svokallaðri verðtryggingu.

Grundvöllur verðtryggingar hefur alla tíð verið sá, að lánveitandi fái greitt til baka raunvirði þess fjár sem hann lánaði. Glöggt má sjá þetta í títtnefndum "Ólafslögum", þar sem sagt er að "verðbæta skuli greiðsluna" þ. e. greiðslu afborgana hverju sinni, með vísitölu greiðslumánaðar, sem aukningu frá vísitölu lántökumánaðar.

Ef skuldir heimila og fyrirtækja væru leiðréttar og færðar í réttan útreiknifarveg, myndu afborganir lækka verulega og það sem meira er um vert. Höfuðstóll eftirstöðva mundi lækka verulega.

Á greiðsluseðli eins íbúðaláns sem ég hef endurreiknað til samræmis við RÉTTAN ÚTREIKNING, kemur fram að eftirstöðvar lánsins nú um mánaðarmótin ættu að vera kr. 4.969.449.  Á greiðsluseðlinum fyrir september stendur hins vegar að eftirstöðvar, með verðbótum, séu kr. 10.244.230.

Rétt útreiknuð hefði greiðsla (afborgun) þessa mánaðar átt að vera kr. 44.634, en á greiðsluseðlinum er greiðslan sögð kr. 54.954.

Það lán sem hér er vísað til, var tekið vorið 2000, og var þá að upphæð kr. 6.400.000, til endurgreiðslu á 40 árum.

Mismunurinn sem felst í réttum útreikningum og þeim útreikningum sem notaðir hafa verið frá upphafi, eru þeir að sama aðferð er notuð við útreikning á afborganalánum eins og þeim lánum sem endurgreidd eru með einum gjalddaga.  Á þetta hef ég bent síðan 1983, en hingað til enginn viljað hlusta á eða rannsaka. 

ÞARNA HEFUR LÍKLEGA VERIÐ FRAMINN MEIRI ÞJÓFNAÐUR AF HEIMILUM OG FYRIRTÆKJUM LANDSINS, EN ÚTRÁSARVÍKINGUNUM TÓKST AÐ KLÓFESTA.        


mbl.is Greiðslubyrði lána færð aftur til maí 2008
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvers vegna er ekki talað um aulahátt þeirra sem létu blekkjast af Icesave reikningunum ???

Hvers vegna er ævinlega talað um Icesave reikningana sem venjulega innlánsreikninga? Er fólk enn hrætt við að tala um hin raunverulegu markmið með þessum reikningum, sem eru hin sömu og hjá fjölda annarra fjárglæfraaðila sem senda frá sér gilliboð um góða ávöxtun, án þess að baki slíkum gilliboðum séu neinar tryggingar eða von um endurgreiðslu.

Icesave reikningarnir áttu að bera nokkuð hærri innlánsvexti en í boði voru hjá traustum bankastofnunum. Það hefði fyrst og fremst átt að vekja varúð hjá Breksum og Hollenskum fjármagnseigendum.

Eðlilegt hefði verið að þeir könnuðu sjálfir tryggingastöðu þess fyrirtækis sem þeir voru að treysta fyrir miklum fjárhæðum af sparifé sínu. Er ekki eðlilegra að þeir sjálfir gæti varúðar gagnvart sínu fé, en ætlist ekki til þess að blásaklaust fólk á lítilli eyju úti í miðu Atlandshafi, verði vogunarsjóður fyrir það, svo það geti varúðarlaust tefla á djarfasta vað í fégræðgi, til að ná í örlítið hærri vexti á sparifé sínu.

Af hverju er EKKERT talað um ábyrgð þess fólks sem svona varúðarlaust kastaði sparifé sínu í fang bankastofnunar sem nýlega var komin inn á markaðinn hjá þeim, mjög eignalítil og án allra ábyrgða frá tryggingasjóðum þeirra sjálfra.

Hver var það sem var ábyrgur fyrir þeirra eigin ráðstöfun á sínu fé? 

Hvatti íslenska þjóðin þetta fólk til að ávaxta fé sitt á þessum Icesave reikningum?

Hafði íslenska þjóðin vald eða heimildir til að banna fólkinu sjálfstæða ráðstöfun þess á sínu eigin fé?

Gat íslenska þjóðin með einhverju móti verið meðvituð um þá miklu fjármuni sem þessir Bresku og Hollensku fégræðgishópar mokuðu inn á þessa reikninga? 

Það þarf ekki flóknar reikniformúlur til að sýna með óhrekjandi hætti að Icesave reikningarnir voru ALLS EKKI vengjubundnir innlánsreikningar. Ávöxtunarprósentan sýndi það mjög glögglega.

Hvers vegna haga íslenskir stjórnmálamenn sér eins og taugaveiklaðir ofsóknarsjúklingar, hræddir við haldlausa skuggamynd um afleiðingar þess að standa traustan vörð um hagsmuni þjóðfélagsins, af álíka festu og þeir sem að okkur sækja, standa vörð um hagsmuni sinna skjólstæðinga.

Íslenska þjóðin hefur ekkert til saka unnið. Fáið þessum aðilum það fólk til saksóknar gegn, sem stóð fyrir fjárglæfrastarfseminni, en fyrir alla muni hættið að ausa þessum aur og drullu yfir þjóðarheildina. Hún á ekkert í þessum fjárglæfrum og ber ALLS enga ábyrgð á afleiðingum óábyrgrar meðferðar þegna anarra þjóða, á því fé sem það á, eða ber sjálft ábyrgð á.          


mbl.is Icesave-málið þungt í skauti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eru grunnreglur ESB byggðar á traustum undirstöðum ???

Ég er líklega ekki einn um að hafa velt fyrir mér hve traustar undirstöður séu undir leikreglum ESB, eftir að fjármálakerfi heimsins hrundi eins og spilaborg, ekki síst vegna óraunveruleika sem hófst með tilkomu tölvunotkunar.

Það sem ég hef einkum verið að horfa til að undanförnu, er hvaða heildarhugsun búi að baki hugtakinu um "fjórfrelsið" svokallaða.

Að mínu viti halda undirstöður þess hvorki vatni né vindi. Greinilegt er að reglur þessar eru byggðar upp af mönnum með afar skipulagða hugsun og skýra sýn á þau markmið sem ætlað var að ná.

Lítum fyrst á þann þátt sem oftast er talinn mikilvægastur innan hins svokallaða "fjórfrelsis", en það er frelsi fjármagns.

Hverju sjálfstæðu hagkerfi er mikilvægast, til viðhalds stöðugleika, að hafa trausta yfirsýn yfir hreyfanleika fjármagnsins innan hagkerfisins. Að fjármagn innan hverrar greinar fyrir sig, sé í réttu hlutfalli við hlut hennar í þjóðarframleiðslunni og hlutföll megingreina hagkerfisins breytist ekki hraðar en nýmyndun fjármunalegra verðmæta beri.

Ef frelsi til flutnings fjármagns, út úr hagkerfinu, er meira en innstreymið er í það, minnkar lausafé hagkerfisins. Afleiðingar þess eru að einhverjir verða afskiptir og geta ekki staðið í skilum með eðlileg rekstrargjöld sín. Inn kemur þá nýr útgjaldaliður, sem ekki er í "normal" hringrás fjárstreymisins, sem eru dráttarvextir.

Venjuleg lausn óraunveruleikans á þessum vanda, er að taka meiri erlend lán, til að auka fjármagið sem er í umferð. Það hins vegar bætir við öðrum aukaútgjöldum, sem eru vextir af þessu lánsfé, sem greiða þarf, án þess að innstreymi fjármagns komi til greiðslu þeirra erlendu útgjalda. Slíkt kallar því annað hvort á samdrátt í veltu þjóðarbúsins eða skuldasöfnun.

Hvað varðar ríkisstjórnir, sem litla þekkingu og hugsun hafa á heildarhagkerfinu, virkar aukið fjárstreymi með auknu lánsfé, sem aukning á þjóðarframleiðslu, þar sem velta þjóðfélagsins eykst, þó sú aukning sé borin uppi af erlendu lánsfé, sem í raun sé ógreiddur kostnaðar.

Sú hugsun, að koma á kreik viðhorfi "frelsis", á afar greiða leið að hjarta fólks sem búið hefur við höft á frelsisþrá sinni. Hugsanlega einnig við stjórnvöld sem alið hafa á meiri lífsgæðavæntingum en eðlileg efni þjóðfélagsins stóðu undir.

Svo er ævinlega einnig til staðar þessi sígildi veikleiki mannsins, að nota fengin völd og áhrif, sér og sínum í hag, þó það verði á endanum á kostnað heildarinnar.

Þegar ákveðin öfl í þessum heimi urðu ítrekað að gefast upp við að ná yfirráðum yfir Evrópu með stríðsátökum og ófriði, kveiknaði sú hugsun að láta Evrópu koma til sín, undir yfirskini verndar og fjárhagslegrar velgengni.

Á þessum tíma var Þýska markið stöðugasti gjaldmiðill heims, og með samstarfi mið-Evrópusambands (Þýskaland Frakkland), væri þetta leið sem ekki kostaði neinar mannfórnir. Stórútgjöld í formi styrkja yrðu fjármögnuð með skuldabréfaútgáfu, sem framtíðarkynsslóðir þyrftu að klást við.

Megin viðfangsefnið var að gera - helst allar - Evrópuþjóðir háðar miðstýringunni, þannig að sjálfstæðiskvötin væri brotin á bak aftur.

Markmiðinu að rústa sjálfstæðum fjárhag hinna ýmsu hagkerfa, var álitið að best næðist með því að boða frelsi fólks til ferðalaga og dvalar hvar sem væri innan sambandslanda. Þrá fólks eftir því að ferðast og skoða ný lönd og nýja menningu, myndu loka fyrir hugsun fólks um heildaráhrif þessara fyrirmæla.

Enginn myndi leiða hugann að því hvaða áhrif það hefði t. d. á lítil hagkerfi eins og hér á landi, að fá á skömmum tíma inn í hringrás fjárstreymis síns, mikinn fjölda erlendar ríkisborgara, sem hagkerfið yrði að veita allan sama rétt og heimafólki.

Þar sem lögheimilisland þessa innflutta fólks, þurfti ekkert fjármagn að leggja til, þeim til framfærslu, fölgaði einungis, í hagkerfi dvalarlands, þeim sem þurftu fjármagn sér til framfærslu, án þess að raunveruleg verðmætaaukning hefði orðið í hagkerfinu. Afleiðingin varð sú að fjármagn í umferð varð minna en eðlileg þörf krafðist, sem sftur kallað á að ekki gátu allir staðið í skilum með eðlileg rekstrargjöld sín.

Þetta sáu skipuleggjendurnir fyrir. Og með tíð og tíma yrði öll úthéruð Evrópu orðin fjárhagslega háð miðjuvaldinu. Við slíkar aðstæður væri öll þjóðremba og sjálfstæði komin út fyrir sjóndeildarhring meginþorra þjóðanna, sem horfði vonaraugum til miðjuvaldsins, sem loksins réði yfir ALLRI EVRÓPU.

Við stefnum hraðbyr í þessa dúnmjúku himnasæng.                

         


Voru aflaheimildir veðandlag ??????

Hvort framin hafa verið lögbrot, við framsal veðskulda Glitnis á hendur útgerðarfélögum, til Seðlabanka Evrópu, fer algjörlega eftir því hvort aflaheimilda hafi verið getið sem veðandlags í lánveitingunni og þær aflaheimildir metnar til verðgildis.

Hafi svo verið, voru tvímælalaust framin lögbrot.

Hafi eingöngu skip og aðrar eignir, jafnvel ótilgreindar, verið taldar sem veð fyrir útlánum Glitnis, er eingöngu um veð í lögskráðum eignum útgerðarfélaganna að ræða.

Aflaheimildir hafa ALDREI verið færðar sem EIGN útgerðaraðila. Einungis er um að ræða nytjarétt, sem hvorki er varanlegur (einungis úthlutað til eins árs í senn) né að þeim nytjarétti fylgi einhver eignabönd.

Útgerðarmenn hafa ALDREI haft nein eignabönd á aflaheimildum og það verður ALDREI nógu sterklega við því varað að vera ekki að tala um kvótann sem EIGN útgerðarmanna, því öll slík orðnotkun getur orðið þeim til hjálpar, við að eigna sér hefðarrétt til yfirráða yfir aflaheimildunum.

Hættum að tala um kvótan sem EIGN útgerðarmanna. Þeir eiga hann ekki.          


mbl.is Segir um misskilning sé að ræða
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er ekki ráð að leiðrétta útreikning verðtryggingar?

Eftirfarandi bréf var sent mörgum ráðherrum, þingmönnum og fjölmiðlum í lok ágúst. Ég hef allar götur síðan 1982 reynt að vekja athygli ráðamanna á rangri útfærlsu verðtryggingar, en enga áheyrn fengið. Bréfið fylgir hér á eftir:          

"Það er engin hugmynd svo góð að ekki sé hægt að eyðleggja hana með því að framkvæma hana á annan hátt en forsendurnar voru hugsaðar.

Ein þessara hugmynda er um verðbætur fjármagns, sem því miður var aldrei klárað að fullmóta sem löggjöf frá Alþingi, heldur sett í framkvæmd á grundvelli hugmyndauppkasts sem þingfest var sem hluti af fjölbreyttum lagabálki, sem kallaður var "bandormur", og síðar nefnt sem "Ólafslög".

Lög um verðbætur fjármagns voru aldrei fullgerð (og eru ekki enn í dag).  Framkvæmd verðtryggingar var hins vegar strax sett í gang, án lagaheimilda og Seðlabankinn skapaði sér sjálfur fyrstu viðmiðunarvísitölu vertryggingar, sem var kölluð "lánakjaravisitala", og síðar breytt í viðmiðið "neysluvísitala".

Athyglisvert er að líta til þess að svokölluð verðtrygging lánsfjár, hefur alla tíð verið rekin án lögformlegara heimilda til slíks, því Alþingi hefur ekki enn sett heildarlöggjöf um þessa framkvæmd og því aldrei reynt á það hjá löggjafarþinginu hvort meirihluti sé fyrir þeirri aðferðarfræði sem notuð hefur verið.

Hjálagt læt ég fylgja uppkast sem ég kalla (Gjaldmiðill) af upphafskafla um tilurð verðtryggingarinnar. Er það úr ritverki sem ég er að skrifa um ýmis óvönduð vinnubrögð Alþingis; þar á meðal þetta.

Eins og þar kemur fram, voru forsenduþættir verðbóta hugsaðir út frá því að hver greiðsla sem endurgreidd væri af láni, yrði verðbætt, frá lánsdegi til greiðsludags. Enda kemur það beinlínis fram í svokölluðum "Ólafslögum".

Forsendan fyrir þessu var sú, að lánveitandinn lét einungis af hendi ákveðna upphæð á þeim degi sem lánið var veitt. Hann verðbætti ekki höfuðstól lánsins með hækkandi vísitölu, og gat því ekki haft réttarstöðu til hækkunar á höfuðstól lánsins, þar sem hann greiddi ekki lántaka út verðbæturnar. Réttur lánveitandans fólst í því að fá afborganir greiddar, með viðeigandi verðbótum hverju sinna (frá lántökudegi til  gjalddaga), og vöxtum eins og lánasamningar voru um.

Lítum hér á tvö hliðstæðudæmi, sem ég hef notað sem sýnishorn á þá ranglátu framkvæmd sem er á útreikningi verðbóta.  Dæmi þetta er tekið út frá 10 milljóna króna húsnæðisláni, til 25 ára, með mánaðarlegum afborgunum. Vextir eru reiknaðir 5% og árleg verðbólga er sett sem 12%, til að auðvelda skilning á útreikningnum. Dæmið lítur svona út.

Þar sem lánið er 10 milljónir, til 25 ára, með 12 afborgunum á ári, verða gjalddagar alls 300. Regluleg afborgun er því kr. 33.333,33

Þar sem verðbólga er 12% á ári, má gróflega deila henni sem 1% á mánuði.

Þar sem verðbóga er 1% á hvern gjalddaga, verða heildarverðbætur 10 milljóna í 300 mánuði, samtals 300%, eða 30. milljónir.

Nú er lánið greitt niður með jöfnum greiðslum, sem hver um sig er verðbætt, frá lántökudegi til greiðsludags. Slíkt ferli jafngildir því að við reiknum með verðtryggingu heildarlánsins á móti hálfum lánstímanum. Lánstíminn var 300 gjalddagar og verðbætur heildarupphæðarinnar fyrir allan tímann voru 30 milljónr. Með hliðsjón af hinum jöfnu niðurgreinslum má þá sjá að heildar verðbætur þessa 25 ára láns, ættu því að vera u.þ.b. 15 milljónir.

Til frekari glöggunar á þessu, læt ég fylgja hér með excel-útfærslu af svona láni, sem hér hefur verið rakið í orðum. Eins og þar sést hækkar höfuðstólinn aldrei, heldur fer strax að lækka, eins og eðlilegt getur takist.

Eins og sést af samtölum færsludálka, er endurgreiddur höfuðstóll kr. 10.000.000.   Greiddir vextir eru samtals kr. 6.321.063, sem samsvarar vel lánskjörum um að vextir skuli vera 5% á ári.  Verðbætur eru samtals kr. 15.050.150, sem samsvarar ágætlega hlutfallinun um 12% ársverðbólgu, sem gróflega er færð út í meðaltalið 1% á mánuði.  Heildar-endurgreiðsla lánsins verður því samtals kr. 31.371.212.

Lítum nú aðeins á greiðslujafnvægið. Fyrsta afborgunin reiknast kr. 75.666. Afborgun nr. 100 reiknast kr. 94.226.   Afborgun nr. 200 reiknast kr. 114.139, og afborgun nr. 300 (síðasta greiðsla) reiknast kr. 133.872.

Lítum nú aðeins á hvernig þessi sömu lánakjör reiknast út í lánareikni lánastofnana. Notast var við lánareikni Landsbankans. Afrit af þeim útreikning fylgir hér með, til frekari glöggvunar. Lítum nánar á samanburði við þann útreikning sem að framan er getið.

                      Afborganir    Verðbætur       Vextir       Samtals greitt
Reiknivél L.Í.    10.000.000    46.740.234    20.719.073      77.637.807
Excel-útreikn.    10.000.000    15.050.150    6.321.063      31.371.212
Mismunur                        0    31.690.084    14.398.010    46.266.595

Þarna sést að núverandi útreiknikerfi reiknar umtalsvert hærri endurgreiðslu en eðlilegt getur talist. Sýndardæmið er sett upp í þessari skýru mynd, til að fólk, almennt geti áttað sig á mismuni á réttum útreikning og röngum.
Lítum nú nánar á samaburð afborgana, eins og þeirra sem að framan er getið.

                    Afborgun 1.    Afborgun 100    Afborgun 200    Afborgun 300
Reiknivél L.Í.       76.307        158.087            313.724                569.625
Excel-útreikn.      75.666          94.806            114.139                133.872
Mismunur                641          63.281            199.585                435.753

Varla ætti að vera þörf á skýrari samanburði til að sýna með glöggum hætti þau mistök sem gerð voru við útfærslu reikniaðferða við útreikning áfallinna verðbóta á endurgreiðslu lánsfjár.  Mistökin eru skiljanleg og vel útskýranleg, en tilgangslítið að setja þá skýringu hér á blað, því hafa þarf marga þætti tiltæka til samanburðar, svo hið rétta komi sem gleggst fram.

Frá árinu 1983 hef ég nokkuð oft reynt að koma þessu á framfæri, en þar sem ég hef engar prófgráður í hagfræði til að sitja á, einungis raunþekkingu sem ekki verið talin skipta máli; enda hefur annar vængur hagsmunaaðila (lánastofnanir og fjármagnseigendur), með herskara hagfræðinga í fylkingarbrjósti, keppst við að fullyrða að núverandi útreikningar séu þeir einu réttu.

Við slíkan aðstöðumun er næsta eðlilegt að þjóðin pakki skynseminni og láti "fræðimannakórinn " halda sér frá raunskoðun útreiknireglum verðtryggingar, líkt og þrælar til forna létu kúgara sína leiða sig áfram til þrældóms, þó innri réttlætisvitund þeirra segði þeim að það væri verið að fara illa með þá.

Við þær aðstæður sem nú eru uppi, þar sem ríkissjóður er aðaleigandi stærstu lánastofnana, er nú kjöraðstæður til að leiðrétta hina röngu útfærslu á útreikningum svonefndrar verðtryggingar. Síðan er hægt að skoða viðmiðunargrundvöllinn, hvort útgjaldavísitala er rétta viðmiðið til að verðbæta eignaþátt?  Það er í raun annað málefni, sem ekki verður farið út í hér.

Eðlileg uppbygging atvinnulífs, sparnaðar og fjárfestinga, mun ekki líta dagsins ljós fyrr en réttum reiknireglum hefur verið komið á í sambandi við verðbætur fjármagns. Nýtt Ísland, þarfnast nýrra og réttlátra aðferða, svo hagsmunir allra verði sem jafnastir.
Með kveðju,
Reykjavík 31. Ágúst 2009
Guðbjörn Jónsson   


mbl.is Um 80% vilja afnema verðtryggingu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fiskveiðar við Ísalnd

Spánverjar hafa mun lengri veiðireynslu á Íslandsmiðum en Íslendingar sjálfir. Þeir erum ekki vanir að gefa eftir af hefðarrétti sínum í ESB samningum. Þeir munu krefjast veiðiréttar hér. Hér veiddu þeir t. d. mikið af þorski.            
mbl.is Ræddu hagsmuni í sjávarútvegi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Höfundur

Guðbjörn Jónsson
Guðbjörn Jónsson
F.v. ráðgjafi

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.12.): 0
  • Sl. sólarhring: 3
  • Sl. viku: 17
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 15
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Des. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband