Stjórnarskráin I - Eru völd Alþingis æðri völdum forsetans ?

Stjórnmálamenn og einstakir áhugamenn um einstakar stefnur í pólitík, hafa lengi deilt um hver hin raunverulegu völd forsetans okkar séu.  Nú nýlega, í umræðum um stjórnarskipti eða hugsanlegt þingrof, kom enn ein umræðan um þessi mál fram í dagsljósið. Eins og fyrr sýndist þar sitt hverjum og enn sem fyrr varð engin niðurstaða úr slíkum umræðum.

Þegar ég var ungur maður, hafði ég hlustað á samræður fósturföður míns við nokkra þeirra þingamanna sem sátu á þingi (1944) þegar fyrsta stjórnarskrá lýðveldisins var samþykkt. Þessar umræður vöktu það mikinn áhuga hjá mér að síðar varð ég mér úti um fyrstu stjórnarskrá konungsríkisins Íslands, sem samþykkt var árið 1920 og allar breytingar sem gerðar höfðu verið á henni fram til lýðveldistímans.

Fósturfaðir minn, sem verið hafði í forystu verkalýðsmála og var, í upphafi lýðveldistímans umsagnaraðili fyrir Alþýðuflokkinn um þingmál og þjóðmál, átti öll Alþingis- og stjórnartíðindi frá lýðveldisstofnun. Það voru því hæg heimatökin að geta lesið allt sem sagt var á Alþingi í sambandi við setningu fyrstu stjórnarskrár lýðveldisins.

Og nú, þegar umræða um framangreinda valdatogstreitu fór af stað, ásamt umræðu um að breyta þyrfti stjórnarskránni, fannst mér upplagt tækifæri til að leggjast aftur yfir þessa sögu og rifja upp hvernig þessi valdatogstreita var til komin og hverjir stóðu fyrir henni. Ég mun því á næstunni birta þessa sögu, byggða á staðreyndum Alþingis- og stjórnartíðinda, sem ég mun svo leiða fram hugrenningar um til frekari glöggvunar á því sem ritað er.

Ég mun ekki birta þetta allt í einum pistli, því það yrði of langur lestur í einu lagi fyrir svona miðil. Ég mun hins vegar leitast við að hafa þetta þannig að ákveðið samhengi verði milli pistla, þannig að þeir sem vilja skoða söguna í heild, geti safnað pistlunum saman.

STJÓRNARSKRÁIN 1920

Þann 18. maí 1920, er samþykkt fyrsta stjórnarskrá konungsríkisins Íslands, eftir að landið hafði verið lýst fullvalda þann 1. desember 1918.  Stjórnarskrá þessi tók gildi 1. janúar 1921 og féll þá úr gildi stjórnarskrá um hin sérstöku málefni Íslands, frá 5. janúar 1874, ásamt stjórnskipunarlögum frá 3. október 1903 og 19. júní 1915, um breytingar á stjórnarskránni.

Þau atriði sem helst er deilt um nú, lúta að valdssviði forsetans. Í stjórnarskrá frá árinu 1920 er það reyndar kóngurinn sem er æðsta vald og miðast stjórnarskráin við það. Þess vegna segir í 1. gr. þeirrar stjórnarskrár:

"Stjórnskipulagið er þingbundin konungsstjórn."

 Af þessum orðum má glögglega sjá að stjórn Íslands er konungsstjórn, en að hún er þingbundin. Það segir manni að konungurinn hefur sér til stuðning þing sem gerir til hans tillögur um lög og stjórnarhætti, sem hann samþykkir, falli þau að hugmyndum hans um stjórnun landsins.

Í 2. gr. stjórnarskrár 1920, er en frekari stuðningur við þessa skipan, en þar segir eftirfarandi:

"Löggjafarvaldið er hjá konungi og Alþingi, báðum saman, framkvæmdavaldið er hjá konungi og dómsvaldið hjá dómendum."

Tvennt er athyglisvert við þessa grein. Annars vegar að samkvæmt eðlilegri röðun ofan frá, er konungurinn talinn fyrstur þar sem æðsta valdið er hjá honum, samanber 9. gr. hér á eftir. Alþingi er því greinilega tröppu neðar en æðsta valdið, þó æðsta valdið geti ekki eitt og sér sett löggjöf, frekar en að Alþingi geti eitt og sér sett löggjöf.

Hins vegar er á að líta, að í þessari stjórnarskrá er framkvæmdavaldið einvörðungu hjá konungi, eða æðsta valdinu, þó sagt sé í 9. gr. að hann láti ráðherra framkvæma vald sitt.

Til áréttingar er hér 9. greinin í heild sinni, en hún hljóðar svo:

"Konungur hefur æðsta vald í öllum málefnum ríkisins, með þeim takmörkunum, sem settar eru í stjórnarskrá þessari, og lætur hann ráðherra framkvæma það. Ráðuneytið hefur aðsetur í Reykjavík."

Í 10. grein er enn fjallað um ábyrgð. Þar segir svo:

"Konungur er ábyrgðarlaus og friðhelgur. Ráðherrar bera ábyrgð á stjórnarframkvæmdum öllum. Ráðherraábyrgð er ákveðin með lögum. Alþingi getur kært þá fyrir embættisrekstur þeirra. Landsdómur dæmir þau mál."

Hér hefur verið vakin athygli á nokkrum þeirra þátta sem fjalla um tröppun valdssviða í íslensku samfélagi fyrstu áratugi fullveldis þjóðarinnar. 

Tvennt finnst mér áberandi þarna. Annars vegar hve skýrt er kveðið á um að konungur sé æðsta vald í öllum málefnum ríkisins, en sé jafnframt ábyrgðarlaus og friðhelgur.

Hins vegar er sú staðreynd að framkvæmdavaldið er einvörðungu hjá konungi, þannig að greinilegt er að ráðherrar hafa ekkert sjálfstætt vald, heldur lúta í öllu æðsta valdinu og þeim ber að framkvæma valdsþætti æðsta valdsins, en jafnframt bera fulla ábyrgð á öllum sínum gerðum.

Látum hér staðar numið í dag, enda kominn svolítill grunnur undir það sem síðar kemur í ljós.  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Júlíus Björnsson

Guðbjörn,  hér til gamans og  samanburðar eru nokkur grunnlög dönsku forfeðra minna, einn þeirra Hans Kr. Degen Krigsraad. 

Danmarks Riges Grundlov

 § 1
Denne grundlov gælder for alle dele af Danmarks Rige.

§ 2
Regeringsformen er indskrænket-monarkisk. Kongemagten nedarves til mænd og kvinder efter de i tronfølgeloven af 27. marts 1953 fastsatte regler.

§ 3
Den lovgivende magt er hos kongen og folketinget i forening. Den udøvende magt er hos kongen. Den dømmende magt er hos domstolene.

§ 12
Kongen har med de i denne grundlov fastsatte indskrænkninger den højeste myndighed over alle rigets anliggender og udøver denne gennem ministrene.

§ 13
Kongen er ansvarsfri; hans person er fredhellig. Ministrene er ansvarlige for regeringens førelse; deres ansvarlighed bestemmes nærmere ved lov.

§ 14
Kongen udnævner og afskediger statsministeren og de øvrige ministre. Han bestemmer deres antal og forretningernes fordeling imellem dem. Kongens underskrift under de lovgivningen og regeringen vedkommende beslutninger giver disse gyldighed, når den er ledsaget af en eller flere ministres underskrift. Enhver minister, som har underskrevet, er ansvarlig for beslutningen.

Júlíus Björnsson, 8.2.2009 kl. 03:16

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Guðbjörn Jónsson
Guðbjörn Jónsson
F.v. ráðgjafi

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (29.4.): 2
  • Sl. sólarhring: 4
  • Sl. viku: 16
  • Frá upphafi: 164811

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 13
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband