Óráðshjal framkvæmdastjóra LÍÚ í Fréttablaðinu 22. maí 2009.

Ég hef ekki tölu á því hve oft ég er búinn að leiðrétta Friðrik J. Arngrímsson með það óráðsrugl sem hann heldur fram í Fréttablaðinu í dag. Það er afar sorglegt að ekki skuli vera vilji hjá þessum manni til að hafa sannleikann að leiðarljósi, í stað þess að vaða svona sífellt uppi með hreint þvaður, sem einungis upplýsir um slæma dómgreind, eða ásetning um að segja þjóðinni ósatt.

Ég hef margítrekað beðið Friðrik um að senda mér ljósrit af þeim lögum sem hann byggir málflutning sinn á, en fram til þessa hefur hann ekki geta orðið við því, enda varla von, því engin lög eru til sem styðja málflutning hans.

Ekki er samt öll ósannindavellan úr honum beinlínis lögleysa, því margt segir hann sem er bara hreint óráðsbull. Þannig segir hann t. d. í greininni í dag um stýringu fiskveiðanna:  (áhersluletur er mitt)

Þannig er ekki einungis horft til þess að takmarka aflann úr hverjum stofni við það sem stjórnvöld ákveða á hverjum tíma heldur einnig horft til þess að veiðar og vinnsla skili hámarks arðsemi.  

Athyglisvert er að Friðrik nefnir ekki hverjum þetta fyrirkomulag skili hámarks arðsemi. Það er náttúrlega öllum ljóst, sem skoða þessi mál af vandvirkni, að sjávarútvegurinn hefur stöðugt verið að auka skuldir sínar, allan þann tíma sem kvótakerfið hefur verið við lýði. Meginhluti þessa lánsfjár er erlend lántaka og vexti og kostnað vegna þeirrar lántöku hefur þurft að greiða af verðmætum sjávaráfurða.

Þessi skuldaaukning hefur valdið því að sífellt hærra hlutfall af heildarverðmætum sjávarafurða fer til greiðslu fjármagnskostnaðar, sem aftur leiðir af sér, þar sem þetta er erlent lánsfé, að minna verður eftir til ráðstöfunar í samfélagi okkar.

Þegar kvótakerfið var sett á, var skipting heildarverðmæta sjávarafla með þeim hætti að rúm 52% komu í hlut útgerða fiskiskipa en 48% komu í hlut fiskvinnslu og sjávarbyggða. Nú eru útgerðirnar að mestu búnar að ná öllum tekjum af sjávarafla undir sinn efnahagsreikning og meginhluti sjávarbyggða búin að tapa tekjugrundvelli sínum til örfárra útgerðarfélaga.

Hvernig hægt er að halda því fram að kvótakerfið hafi skilað þjóðinni hámarks arðsemi, er líklega hámark heimskunnar, sé það sagt í óvitaskap, en líklega hámark illviilja gagnvart samlöndum sínum, sé svona lagað gert af yfirlögðu ráði.

Í grein sinni segir Friðrik:

Verðmætasta fjárfesting útgerðanna er í aflaheimildunum og til að ná fram langtímahugsun í nýtingu þarf sú fjárfesting að vera trygg. Það tryggir jafnframt rekstrargrundvöll útgerðanna sem hafa fjárfest í aflaheimildum með langtímahagsmuni að leiðarljósi.

Stjórnvöld úthluta öllum aflaheimildum án endurgjalds og hafa aldrei gefið heimild fyrir að þær væru seldar. Alþingi gaf heimild til að FRAMSELJA mætti aflaheimildir milli skipa, en eins og allir vita sem kunna ÍSLENSKU, þýðir orðið "framsal" - að afhenda eða að láta af hendi. Alþingi heimilaði sem  sagt þeim sem fengu úthlutað aflaheimild, sem þeir gætu ekki hagnýtt sér, að afhenda hana til annars skips sem gæti hagnýtt sér hana, en í lögunum er hvergi minnst á heimildir til að taka gjald fyrir slíka afahendingu.

Hið rétta í þessu sambandi er, að aflaheimildir eru mikilvægasta rekstrartrygging skips eða útgerðar, en FJÁRFESTING í aflaheimildum er NÚLL KRÓNUR, samkvæmt íslenskum lögum um framkvæmd fiskveiðistjórnunar. 

Og enn heldur áfram bullið hjá Friðrik:

Með þessu fléttast saman hagsmunir útgerðarinnar og þjóðarinnar, sem nýtur fyrir vikið hámarks arðsemi af nýtingu auðlindarinnar.

Hér að framan er vikið að því hvernig stöðugt vaxandi skuldasöfnun sjávarútvegsins (nú líklega 15 - 20 ára tekjur að frádregnum kostnaði við veiðar),  hefur minnkað þann hluta af heildarverðmæti sjávarafurða sem dreifist til samfélagsins. Þessu til viðbótar má benda á að heildarafli botnfisktegunda er líklega sóttur með langt til helmingi meiri tilkostnaði en þörf er á. Bæði er þar átt við gífurlega offjárfestingu í togskipum, sem og þess að útgerðarkostnaður þeirra, reiknaður á hvert veitt aflakíló, er mun hærri en þörf er á til að ná leyfðum heildarafla..

Það eru margir fleiri fletir á þessu málefni, svo sem sviksamleg fölsun útgerðarfélaga á efnahagsreikningum sínum, með óheimilum skráningum aflaheimilda - sem eru ótvíræð eign þjóðarinnar - í efnahagsreiknigna sína; reiknaðar á glórulausu verðlagi, sem virðist eingöngu haldið til streytu til að falsa eiginfjárstöðu og skapa sér hærri tryggingastöðu, til stöðugt aukinnar lántök hjá lánastofnunum.

Margt fleira mætti tína til, en hér verður látið staðar numið í bili, að minnsta kosti.        


Þekkir stjórn lífeyrisjóðs Vestfjarða ekki eðlilegar samskiptareglur?

Í fréttinni er sagt að sautján sjóðsfélagar LV sent stjórn sjóðsins skriflegt erindi, með nokkrum spurningum. Með réttu á sjóðnum ekki að vera heimilt að víkja sér undan skriflegu svari, því skriflegt fyrirspurn KREFST skriflegs svars.

Það er ekki nóg að vísa til hugsanlegra upplýsinga á aðalfundi, sem svarað verður með munnlegri framsetningu. Slíkt svar GETUR ALDREI verið svar við skriflegu erindi. Það ætti alla vega lögfræðingur sjóðsins að vita, þó stjórnin reyni að skjóta sér undan skyldum sínum.

Ég er sjálfur sjóðfélagi í þessum sjóði og skora á sautjánmenningana að KREFJAST SKRIFLEGS SVARS. Ef stjórnin hafnar slíku, senda þá viðkomandi ráðuneyti afrit af erindinu og höfnun stjórnar, og krefjast þess að ráðuneytið skipi stjórninni að svara svo sem lög og siðareglur bjóða.  Dugi það ekki, sendið þá allt málið til Umboðsmanns Alþingis, með ósk um aðstoð hans.

Svona mál varðar ekki bara þennan lífeyrissjóð, því álíka vitleysisgangur og reyfaður er í erindi sautjánmenninganna hjá LV, er líklega til staðar í flestum lífeyrissjóðum. Þess vegna þarf að hreinsa til í stjórnum og rekstri þessara sjóða.                  


mbl.is Krefja lífeyrissjóð svara vegna taps
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tónlistarhúsið mistök frá upphafi ?

Það er afar merkilegt að skoða fyrirætlanir og markmið þess að byggja þetta tónlistarhús sem nú er að rísa. Í fyrsta lagi var gert þarna skipulag af stóru hóleli og höfuðstöðvum Landsbankans. Í skipulagsáætlun er talað um að, í tengslum við hótelið, skuli byggja tónlista og ráðstefnuhús.

Þegar eitthvað hús er byggt í tenglsum við eitthvað annað hús, er venjan að húsið sem á að tengjast - eins og í þessu tilfelli - að hótelið komi á undan, þar sem byggja á tónlistarhúsið í tengslum við hótelið.

Ein af meginforsendum nýtingar á ráðstefnusölum tónlistarhússins, var að erlendir ráðstefnugestir gætu gist á hótelinu og nýtt ráðstefnusalina. Ekki eru miklar líkur á að arsemismat verði jákvætt fyrir byggingu hótels á þessum stað, eftir að alþjóðlegt veisluborð ábyrgðarleysis í fjármálum hrundi á síðasta ári.

Nú þegar, er til staðar í mörgum núverandi hótelum borgarinnar, nægt salarrými fyrir þær ráðstefnur sem hingað gætu komið. Þeir sem skipuleggja slíkar ráðstefnur, munu varla fara að bóka ráðstefnusali fjarri aðsetursstað ráðstefnugesta; allra síst að hausti eða vetri. Tekjuforsendur tónlistarhússins - næstu áratugina - eru því verulega skertar og ekki fyrirsjáanlegur rekstrargrundvöllur fyrir því á komandi áratugum.

En það sem vekur mér enn alvarlegri spurninga en að rekstrargrundvöll vanti, er það hvernig var staðið að ákvarðanatöku um byggingu tónlistarhúsins. Hvergi er finnanlegt í gögnum Alþingis, að Alþingi hafi heimilað stofnun hlutafélagsins Austurhafnar ehf. sem sagt er vera í eigu ríkis og borgar, og sér um byggingu tónlistarhússins. Í skráningu Austurhafnar ehf. hjá fyrirtækjaskrá, er engin staðfesting þess að Alþingi hafi heimilað skráningu þess félags sem að hluta eign ríkisins á móti hlut borgarinnar.

Sagt er að gerður hafi verið samningur af hálfu ríkisins um greiðslu hárrar fjárhæðar á hverju ári, í nokkra áratugi, til stuðnings tónlistarhúsinu. Ekki verður séð í gögnum Alþingis að þessi samningur hafi verið lagður fyrir þingið. Þar af leiðir að ríkið er ekki enn orðið skuldbundið til neinnar greiðslu til tónlistarhússins, því Alþingi er eini aðilinn sem hefur heimild til að skuldbinda ríkissjóð.

Það er svo spursmál út af fyrir sig, hvor Alþingi, sem einungis er kjörið til fjögurra ára í senn, eigi að hafa heimild til að skuldbinda ríkissjóð út fyrir það kjörtímabil sem sitjandi þingmenn hafa umboð þjóðarinnar til ákvarðanatöku. Er það eðlilegt að sitjandi Alþingi, geti bundið komandi ríkisstjórnum næstu kjörtímabila, skyldur til að greiða háar fjárhæðir, vegna ákvarðana sem kannski hefur aldrei verið formlega afgreitt eða samþykkt á Alþingi.

Ég held að fólk ætti nú þegar að stöðva þá óábyrgu vitleysu sem felst í byggingu þessa húss, því sú ákvörðun var ekki tekin af yfirvegun, heldur í vímu hins ímyndaða góðæris.            


mbl.is Vill að áform um tónlistarhús verði endurskoðuð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Meira um erlendu lánin

Nokkuð hefur verið leitað eftir frekari rökstuðningi mínum fyrir því að nýju ríkisbankarnir hafi ekki heimild til yfirtöku erlendra fasteignalána, umfram þá fjárhæð sem nemur ætluðu söluverði veðandlagsins (íbúðarinnar), á þeim tíma sem lánið er yfirtekið.

Í því sambandi er mikilvægt að hafa í huga, hvað þetta varðar.

Sú staðreynd óhrekjanleg, að stjórnendur nýju bankanna hafa ekki heimild til að skuldsetja ríkisbankana, gagnvart gömlu bönkunum, með fjárhæðum sem eru hærri en fullgilt veð er fyrir. Til heimildar fyrir slíku dugar ekki ríkisstjórnar eða ráðherraákvörðun, því ríkisstjórn og ráðherrar hafa ekki heimildir til að skuldsetja ríkissjóð. Slík heimild er einungis hjá Alþingi og þarf til slíks sérstök lög, samaber fjárlög og önnur lög um fjármögnun framkvæmda.

Nokkuð skýr mörk um sjálfstæða valdheimild ráðherra, voru dregin fram þegar - með dómi - var hafnað heimild þáverandi menntamálaráðherra til að flytja lögheimili og aðsetur Landmælinga Íslands frá Reykjavík til Akraness, án samþykkis til slíks frá Alþingi. Slíkt var sagt utan valdheimilda ráðherra, nema með samþykki Alþingis.

Ef nýju ríkisbankarnir yfirtaka hærri fjárhæðir á hverju skuldabréfi, frá gömlu hlutafélagabönkunum, en nemur raunvirði þeirra veða sem eru til tryggingar lánum, eru þeir farnir að ráðstafa ríkisfjármálum, því engin trygging er frá hendi skuldara fyrir þeirri upphæð sem er umfram raunverðmæti veðtryggingarinnar.

Hver á að bera tjónið af gengisfallinu?

Almenna regla skaðabótaréttar er sú að  sá sem veldur tjóni á að bera skaðan eða bæta tjónið sem hann veldur.

Í því tilfelli að erlend húsnæðislán hækkuðu verulega í íslenskum krónum, í framhaldi af hruni gömlu bankanna, ber að líta á hvað það var sem olli hruninu. Það voru ekki íslenskir lántakendurnir húsnæðislánanna sem ollu hruninu. Hrunið varð vegna þess að bankarnir sjálfir, gátu ekki fjármagnað rekstur sinn og voru settir í skilaferli og skilanefnd sett til að stjórna því uppgjöri.

Það voru því gömlu bankarnir sjálfir, sem voru valdir að því mikla hruni sem varð á verðgildi íslenskrar krónu. Lántakendurnir áttu engan þátt í því hruni, því vanskil þeirra á þessum lánum voru svo lítil að slíkt gat ekki valdið hruni.

Í ljósi grundvallarreglu skaðabótaréttar eru það því gömlu bankarnir sem eiga að bera tjónið af eigin gjörðum (eða misgjörðum). Þeir verða að taka á sig tjónið sem þeir voru valir að.

Það er ævinlega svo, við yfirtöku á verðmætum hjá aðilum í nauðungarstöðu, að yfirtaka skulda er aldrei jafnhá verðgildi veðtrygginga. Yfirtaka skuldar er ævinlega einhverjum hlutföllum lægri en verðgildi tryggingar eða eignar, þannig að hinn nýi eignaraðili skuldarinnar sitji ekki uppi með hærri skuld til innheimtu en nemur raunvirði tryggingar eða eigna.

Af öllu þessu er ljóst að yfirfærsla erlendra húsnæðislána, frá gömlu hlutafélagabönkunum yfir til nýju ríkisbankana virðist utan lögformlegra réttarheimilda. Enn er ekki farið að leggja hreina yfirtökuskýrlsu fyrir Alþingi, til ákvörðunar um hvort ríkissjóður vilji greiða allar þær fjárhæðir fyrir gömlu bankana, sem þar virðast vera um að ræða.

Ef rétt er að núverandi staða flestra þessara lána sé tvöfalt verðmæti þeirra fasteigna sem til tryggingar eru fyrir lánunum, virðist sjálfgefið, miðað við reynslu síðastliðinna áratuga, að u.þ.b. 65 - 70% af heildarskuldum erlendra húsnæðislána lendi á skattgreiðsndum, því nauðungarsölur hafa yfirleitt ekki skilað nema 30 - 35% af höfuðstól skuldar.

Af öllu þessu er ljóst að brýna nauðsyn ber til að taka þessi mál föstum tökum, með raunverulega verðmætamyndun í forgrunni; en ekki reyna að innheimta hjá lántakendum það tjón sem gömlu bankarnir voru valdir að.

Er fólkið í forystu stjórnmálanna virkilega búið að tapa dómgreind og skynjun fyrir réttlæti?  Spyr sá sem ekki veit, en er óneitanlega orðinn frekar vonlítill um vitrænt ferli í þessum málum.        


Yfirtaka erlendra húsnæðislána

Ég hef í nokkuri undran fylgst með umræðunni um erlendu húsnæðislánin sem fólk tók hjá gömlu bönkunum. Sagt er að nú, eftir yfirtöku þessara lána til nýju bankanna, séu þessi lán allt að tvöföldu verðmæti þeirra fasteigna sem þau eru tryggð í.

Öll vitum við að gömlu bankarnir voru hlutafélög og öll vitum við væntanlega að nýju bankarnir eru í eigu ríkisins. Ég spyr mig því þeirrar spurningar. Hvaða tryggingar höfu hinir nýju ríkisbankar, fyrir yfirtöku mikið hærri skuldafjárhæðar frá hlutafélagabönkunum, en nemur raunverulegu söluverðmæti hinnar veðsettu eignar?

Gera menn sér ekki ljóst að óheimilt er að yfirtaka skuld til ríkisbanka, sem er hærri en söluandvirði veðtryggingar, nema slíkt sé sérstaklega samþykkt af meirihluta Alþingis, samanber fjárreiðulög og fleiri lög?

Eru þeir aðilar sem þessi verk vinna, svo vankunnandi um hvaða heimildir þeira hafa til skuldbindingar gagnvart ríkissjóði og ríkisfyrirtæki, að þeir yfirtaki frá hlutafélagabanka, lán sem er hátt í tvöfallt hærra en sú veðtrygging sem fyrir láninu er?  Hafa þeir leitað heimilda til slíkrar áhættu gagnvart ríkissjóði?

Ég hef verið að bíða eftir að ábyrgir aðilar veki athygli á þessari vitleysu, en er farinn að halda að slíkt muni ekki gerast.

Öll sú framvinda sem verið hefur í þessum erlendu húsnæðislánum er rugl, sem brýna nausðyn ber til að leiðrétta sem allra fyrst.                     


mbl.is FME veitir aukinn frest
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Smáralind vonlaust dæmi frá upphafi

Hugmyndafræðin um Smáralind var vonlaus frá upphafi, því engin leið var að slík fjárfesting gæti borið sig hér á okkar litla landi. Fleiri verslunarhallir munu verða gjaldþrota áður en jafnvægi næst, því þjóðin getur ekki borið alla þessa fjárfestingu og það byrgðahald sem svona mörgum stórverslunum fylgir.

Þjóðin verður að fara að átta sig á, að gjaldeyrir kemur ekki til landsins á annan veg en gegnum sölu okkar á vörum eða þjónustu, til anarra landa. Endalaust innstreymi lánsfjár er liðin tíð og komið að því að lifa af þeim tekjum sem við búum til sjálf, með hugviti okkar og atorku.

Margir lifa í þeim falsdraumi að lífið verði eins og fyrir bankahrun ef við göngum í ESB eða töku upp evru. Þetta er sama villan og hjá vímuefnaneytandanum sem telur sér trú um að heimurinn sé svo mikið betri þegar hann er undir áhrifum vímu, en þegar hann þarf að upplifa veruleikann.

Í samlíkingunni við vímuefnaneytandann, má segja að þjóðin sé enn í afeytrun og sé að verða tilbúin til að fara í meðferð til endurhæfingar að venjulegu og eðlilegu lífi, í venjulegu og eðlilegu samfélagi. Þegar því endurbatastigi er náð, fer þjóðin að undrast hve illa við höfum farið með gjaldeyristekjur okkar og hvernig í ósköpunum við höfum látið okkur detta í hug að borga alla þá peninga (álagningu) sem þarf til að halda öllum þessum verslunum gangandi.              


mbl.is Fall Saxbygg fleytir Smáralind í fang ríkisins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Guðbjörn Jónsson
Guðbjörn Jónsson
F.v. ráðgjafi

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (18.9.): 0
  • Sl. sólarhring: 3
  • Sl. viku: 18
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 16
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Sept. 2025
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband