Færsluflokkur: Bloggar

Eiga Bretar að borga Icesave ?????

Ég fór á fund í gær, þar sem Stefán Már Stefánsson, hér eftir (SMS), prófessor í lögum, við Háskóla Íslands, var með framsögu um Icesave. Hann hélt þarna góða tölu um hvað gæti gerst ef við borguðum ekki.

Allt frá upphafi Icesave hef ég spurt hvers vegna verið sé að rukka ríkisstjórn Íslands um þessa skuld, þar sem hvorki Landsbankinn né neinn annar banki hafi á þessum tíma verið í ríkiseign. Auk þess hafi engin ríkisábyrgð verið á Tryggingasjóði innistæðueigenda. Við þessu hafa aldrei fengist skýr svör.

Ég hugsaði mér því gott til glóðarinnar að spyrja þennan virkta lagaprófessor um þetta atriði. Ég lagði því eftirfarandi spurningu fyrir SMS.

 - Þegar hrunið varð, var Landsbankinn í einkaeign, eins og aðrir bankar landsins. Tryggingasjóður innistæðueigenda er eign bankanna og engin ríkisábyrgð á þeim sjóði. Engin innheimtukrafa hefur farið fram á hendur Tryggingasjóðnum, sem er hinn raunverulegi skuldari, ef þannig er litið á málin. Hvaðan er þá komin heimild ríkisstjórnar okkar, til að stíga fram fyrir stjórn Tryggingasjóðs og semja um ætlaðar skuldir sjóðsins, sem hvorki hafa verið til innheimtu hjá sjóðnum eða úrskurðað hafi verið að sjóðurinn ætti að greiða?-

Við þessu spursmáli átti SMS ekkert svar. Taldi samt líklegt að mönnum hafi þótt vænlegra að stíga fram og leita sátta. Ekki eitt orð um þær lagalegu forsendur sem ég spurði um. Af þessu mátti skilja að Bretar hefðu í raun engar lagalegar forsendur fyrir innheimtukröfum sínum á hendur ríkissjóði. Staðan virðist því sú að stjórnvöld hér hafi orðið hrædd, eða að það sé verið að slá skjaldborg um stjórnendur Landsbankans, svo ekki yrði höfðað mál gegn þeim í Bretlandi. Og af hverju skildi ég nú segja það.

Flestum er ljóst að grundvöllur EES samningsins er jafnréttishugtakið, um jafna stöðu allra á markaði. Um það segir svo í 1. hluta samningsins um EES eins og hann birtist í lögum nr. 2/1993, en þar segir svo í e. lið 2. töluliðar 1. gr.

"að komið verði á kerfi sem tryggi að samkeppni raskist ekki og að reglur þar að lútandi verði virtar af öllum;..."

Þar sem áhersluletri er bætt við, er það gert af höfundi þessara skrifa. Þarna er beinlínis sagt að ein af grundvallarreglum EES samstarfsins sé að raska ekki samkeppni.

Fram hefur komið að Bresk stjórnvöld hafi heimilað Landsbankanum að taka við innlánum í útibúi sínu í London. Ljóst er að Breskir bankar eru þátttakendur í breska Tryggingasjóði innistæðueigenda. Í ljósi þess var breskum stjórnvöldum skylt að gæta þess að samkeppni raskist ekki. Þeim bar að gæta þess að, áður en þau veittu Landsbankanum leyfi til móttöku innlána, yrði hann að fullvissa bresk stjórnvöld um að útibú hans í London væri með fullgilda innistæðuvernd í Tryggingasjóði Breta, á sama hátt og aðrir bankar á sama markaðssvæði. Með engum öðrum hætti gátu bresk stjórnvöld gefið út heimild til útibús Landsbankans í London, til móttöku og ávöxtunar innlána. Nema því aðeins að bresk stjórnvöld tækju sjálf áhættu af bakábyrg, fyrir jafnri stöðu innlánseigenda í útibúi Landsbankans í London, við innlánatryggingar í öðrum breskum starfandi bönkum. Annað hefði verið mismunun á markaðsstöðu og röskun á samkeppni um innlán.

 Af reglum EES samningsins, um jafna stöðu á markaði, er ábyrgð breskra stjórnvalda á að fullkomlega rekstrarlegt jafnvægi ríki milli banka sem bjóðast til ávöxtunar innlána. Er það mögulegt að bresk stjórnvöld hafi heimilað Landsbankanum að safna innlánum, á sama markaði og aðrir breskir bankar, án þess að gera til Landsbankans sömu kröfur um innlánatryggingar og þau gerðu til breskra banka? Með því hefðu bresk stjórnvöld í raun verið að mismuna breskum bönkum, á þann veg að sleppa Landsbankanum við útgjöldum sem fylgdu greiðslu í sama Tryggingasjóði og aðrir bankar á sama markaðssvæði þurfa að greiða í. Þetta gat t. d. þýtt að Landsbankinn treysti sér til að bjóða hærri innlánsvexti, þar sem bresk stjórnvöld slepptu þeim við kostnað sem aðrir bankar þurftu að inna af hendi.

En gat þá mismunur á aðstöðu falist í því að Landsbankinn var íslenskt fyrirtæki, með útibú í London? Nei, út frá markaðslegum jafnræðisreglum EES svæðisins skiptir það ekki máli, hvað rekstrarlega þætti varðar. Hið íslenska útibú verður að vinna algjörlega eftir breskum starfsreglum. Fara í einu og öllu eftir breskum lögum með starfsemi sína á Bretlandi. Útibú þarf öll sömu starfsleyfi og sjálfstætt hlutafélag. Útibúið þarf að gera upp alla rekstrarlega þætti starfseminnar, á sama hátt og sjálfstætt hlutafélag. Eini raunverulegi munurinn er sá að rekstrarhagnaður útibúsins flyst sjálfkrafa úr landi til aðalstöðvanna, en rekstrarhagnaður sjálfstætt starfandi hlutafélags verður kyrr í landinu og skapar skattstofn þar.

Í ljósi alls þessa, vakti það strax sérstaka athygli mína hve harkalegar aðgerðir Breta voru. Aðgerðir þeirra náðu langt út fyrir þá hagsmuni sem þeir voru að verja. Þegar ég fór að skoða málin nánar, varð mér ljóst að bresk stjórnvöld virtust nákvæmlega vita á hvern hátt þau höfðu gerst brotleg við EES reglur, með því að veita Landsbankanum leyfi til innlánasöfnunar, án staðfestingar um aðild hans að hinum breska Tryggingasjóði.

Ef skilakrafa vegna innlána hefði beinst að þeirra eigin Tryggingasjóði, hefði komist upp um hina alvarlegu aðstöðulegu mismunun, sem stjórnvöld höfðu gert sig sek um, auk þess sem þau hefðu orðið uppvís að alvarlegu skeytingarleysi um varnir á innistæðum fjármagnseigenda. Sé mið tekið af hinni veiku stöðu breskra stjórnvalda á þessum tíma, er augljóst að þau máttu engan möguleika gefa á því að athyglin beindist að þeim.

Þarna er augljóslega komin fram skýringin á því hvers vegna Bretar tóku svo snögga ákvörðun um að leysa inn til stjórnvalda sinna allar innistæðukröfur á hendur Landsbankanum, en ekki öðrum bönkum. Einnig það að þau skyldu, eins snögglega og raun bar vitni, taka þá ákvörðun að greiða innistæðueigendum mun hærri fjárhæðir en lágmark reglna um innistæðutryggingar segir til um. Í þriðja lagi fellur vel að þessu skýringin á hinni harkalegu kröfu á hendur íslenska ríkinu, þó þeim væri áreiðanlega ljóst að ríkissjóður væri ekki í ábyrgð fyrir innlánum í bresku útibúi Landsbankans, því það útibú starfaði ALDREI eftir íslenskum lögum.

Bretar vissu strax að, vegna þeirra eigin mistaka við stjórnun og eftirlit bankamála, myndu þeir þurfa að greiða allt innlánatap hjá Landsbankanum. Ef þeir hefðu gefið breskum rannsóknaraðilum færi á að rannsaka leyfisveitingar, eftirlit og starfshætti stjórnvalda, í tengslum við fjármálamarkaðinn, hefði líklega allt bankakerfi Evrópu hrunið, jafnvel heimshrun.

Hver gæti svo ástæðan verið fyrir hinni miklu þögn sem er um þátt Breta í hinu mikla innlánatapi sem varð hjá Landsbankanum? Gæti hún verið sú að stjórnendur heimsmála fjármagnsþátta hafi vitað hve tæpt heimsfjármálin stæðu, og ef upp kæmist um sviksamlega framgöngu breskra stjórnvalda, væri hætta á heimshruni. Betra var því að leyfa Bretum að ráðast gegn íslenska ríkinu, litlu afskekktu eyríki úti í miðju Atlandshafi. Eyríki sem sjálft hafði trassað alvarlega eftirlit með lánastofnunum sínum, sem höfðu á fáum árum þrefaldar erlendar skuldir sínar, án þess að raunveruleg eignaaukning hefði átt sér stað.

 Út frá stöðu heimsfjármálanna, var því hagkvæmasta lausnin að halda pressunni og heimsathyglinni á þessu litla eyríki. Segja að það væri að ógna greiðsluflæði í heiminum með því að borga ekki skuldir sínar. Sú fullyrðing Breta að hin raunveruleg skuld þeirra sjálfra, eða Tryggingasjóðs þeirra (Icesave), væri skuld íslensku þjóðarinnar, var kyrfilega keyrð áfram í öllum fjölmiðlum heimsins, þar til forseti eyríkisins neitaði að staðfesta Icesave II. Í framhaldi af því náði hann athygli og eyrum margra stærstu fjölmiðla heimsins. Þá fóru efasemdaraddir um að eyríkið skuldaði Icesave, að ná eyrum fleiri fjölmiðla.

En eins og skuldasöfnun breskra banka og breskra stjórnvalda er enn háttað, er lítil von til að stjórnendur heimsfjármálanna treysti sér til að taka málsstað litla eyríkisins. Athyglisvert er líka, að þetta litla eyríki býr yfir svo miklum nauðsynlegum auðlindum fyrir Evrópuþjóðir og fleiri ríki, að það er bókstaflega rekstrarlegt hagræði að því fyrir ESB, annað hvort að koma þessu ríki undir stjórn Evrópusambandsins, eða setja það efnahagslega í þrot, svo sterkir fjármagnseigendur kaupi hinar arðgefandi auðlindir.

Evrópu er mikilvægt að ná taki á auðlindum sjávar, vegna vaxandi skorts á fiski á markaði þeirra. En lang mikilvægast er fyrir ESB, að þeir nái stjórnun á siglingum og vörulosun um hina væntanlegu "Norðurleið" því mestar líkur eru á að um þá leið fari megnið af framleiðslu markaðssvæða utan Evrópu. Hafi ESB sterk stjórnunarítök á Íslandi, þegar að þessu kemur, gæti slík stjórnun nánast komið í veg fyrir gjaldþrot margra ríkja innan ESB. Ástæða þess er að í sjónmáli er ekkert sem gæti aukið tekjur margra ESB ríkja, að því marki að þau væru sjálfbær með þau lífskjör og félagslega stöðu fólks, sem nú er gerð krafa um, til jöfnunar við stöðu Norður ESB ríkja.

Það er tæplega að vænta þess að úti í heimi sé einhver umhyggjusöm fósturmóðir sem taki þjóð okkar í fang sér, til að kenna okkur að lifa sem samfélag á þeim alsnægtum sem auðlindir lands okkar bjóða upp á. Svo mikið framboð er í heiminum af þjóðum sem EIGA RAUNVERULEGA BÁGT, að við komust þar hvergi á verkefnalista.

Þegar vandlega er skoðað, má sjá að hér hefur ekki verið nein raunverulega kreppa. Allir tekjuþættir þjóðfélagsins hafa haldið áfram að afla þjóðinni tekna, ekki minni en fyrir hrun fjármálakerfisins. Já, það varð hrun. Við höfðum hlaðið upp óraunhæfum sýndarveruleika með innstreymi ótrúlega mikils magns af erlendu lánsfé, til neyslu og lífsstíls sem tekjuöflun þjóðarinnar réði ekkert við. Þegar innstreymi erlends lánsfjár, til neyslu og lífsstíls hætti haustið 2008, mátti öllum vera ljóst að umtalsverður samdráttur yrði í þjóðfélaginu.

Þjóðin er því miður ekki enn búin að sætta sig við breytinguna. Þess vegna er mikil reiði, því enn er verið að horfa til sömu viðmiða og erlenda fjármagnið gerði mögulegt. Því fyrr sem þjóðin sættir sig við að sú tálsýn sem þá var, kemur aldrei aftur. Því fyrr nær þjóðin að horfa með skýrri hugsun til möguleika sinna í framtíðinni.                                


Hver er ábyrgð þingmanna ???

Í ljósi þess að tæp 70% alþingismanna greiddi því atkvæði, að skuldbinda þjóðina til að greiða skuld einkafyrirtækis, skuld sem tvímælalaust var stofnað til með afar óheiðarlegum hætti, fór ég að velta fyrir mér hvaða ábyrgð þingmenn bæru gagnvart þjóðinni, vegna alvarlegs og óafturkræfs tjóns sem þeir valdi með kjánaskap, annarlegum viðhorfum eða öðrum ástæðum.

Starf þingmannsins er að stjórna þjóðfélaginu, efnahagsmálum þess, innra skipulagi og samskiptum við aðrar þjóðir. Hvaða hæfniskröfur skildu vera gerðar til manns í slíku starfi? Og hvaða menntun og raunþekkingu þarf maður að hafa sem vill gerast einn af 63 stjórnendum þjóðfélagsins?

Ef mig langar til að vigta fisk við löndun úr veiðiskipi, stjórna vinnuvél, aka stórum vörubíl, olíubíl eða rútu, þarf ég að sækja sérstakt námskeið og standast hæfnispróf. Sama á við ef ég vil fá réttindi til að færa bókhald, verða verkstjóri, leikari, listamaður, sjúkraþjálfari. hjúkrunarkona, læknir, lögfræðingur, verkfræðingur, flugmaður, eða hvaða starf sem tiltekið er, sem kallar á þekkingu eða ábyrgð. Áður en maður fær réttindi til að stunda slíkt starf, þarf maður að hafa aflað sér, með viðurkenndu námi og hæfnisprófi, sérstakrar þekkingar sem talin er nauðsynleg hverju starfi fyrir sig.

Allt eru þetta langt um veigaminni störf en starf þingmannsins. Þar kemst kannski næst, starf flugstjóra á stórri risaþotu. Hann getur verið ábyrgur fyrir lífi og limum nokkur hundruð manna í senn. Þingmaður í þjóðfélagi okkar, er hins vegar í störfum sínum ábyrgur fyrir lífi, limum og lífsgæðum 320 þúsund einstaklinga. Flugstjórinn þarf að ganga í gegnum langt og krefjandi nám, síðan þjálfun í hermilíkani til að kanna dómgreind og sjálfstæði í réttum ákvarðanatökum. En, til þess að sinna starfi þingmanns, er ekki einu sinni gerð krafa um grunnskólapróf, hvað þá heldur frekari þekkingu á rekstrarþáttum heils þjóðfélags.

Hvað veldur þessu? Ljóst er að það eru þingmenn sem setja lög og reglur um nám og hæfnispróf allra starfsþátta í landinu, annarra en verkafólks og húsmæðra. Hvort skildi það vera af völdum valdhroka eða kjánaskapar, sem þingmenn gera ríkar menntunar og hæfniskröfur til allra starfsréttinda, sem geta einungis valdið örlitlu broti af því tjóni sem þingmaður getur auðveldlega valdið?

Er það mögulega af mikillæti yfir eigin ágæti, sem þingmenn gera engar kröfur til eigin starfs, um þekkingu eða hæfni til starfs og ábyrgðar þingmannsins? Vegna flestra starfa þurfa menn að kaupa sér tryggingar til greiðslu bóta fyrir það tjón sem þeir valda öðrum af gáleysi eða þekkingarskorti. Um starf þingmannsins eru hins vegar ekki til nein lög um ábyrgð, skyldur eða hver bæti fyrir, gangi þingmaður augljóslega gegn hagsmunum heildarinnar, sjálfum sér og/eða öðrum til hagsbóta, á kostnað heildarinnar.

Starf þingmanns er einungis FULLTRÚASTARF, sem veitt er að hámarki til fjögurra ára í senn. Þar skipar hann 1/63 part stjórnar og löggjafarþings landsins og kemur þar fram fyrir hönd þeirra sem kusu hann. Því til viðbótar, gæti honum verið fengið hlutverk í framkvæmdastjórn (ríkisstjórn), þar sem honum væri falið að bera framkvæmdalega ábyrgð á ákvörðunum Alþingis í tilteknum málaflokkum.

Fyrst þingmönum fannst nauðsynlegt að binda starfsréttindi allra stétta og starfsgreina við tilskilið nám og hæfnispróf af ýmsum toga, verður það enn meira sláandi að þeir skuli ekki hafa lög og reglur um sitt eigið starf, hvað þá að þeir hafi hugsað fyrir því líkt og með flestar aðrar greinar, að þeir sem hugsanlega geta valdið öðrum tjóni, skuli kaupa tryggingu er bæti það tjón sem þeir kunni að valda.

Oft má heyra þingmenn vísa til þess ákvæðis stjórnarskrár, að þingmaður sé einungis bundinn af eigin sannfæringu. Það er rétt að þetta stendur í stjórnarskrá sem samin var fyrir meira en 100 árum. En líta ber á þetta ákvæði út frá tíðaranda þess tíma er það var sett í lögin. Þá voru menn fyrst og fremst trúir þeim málstað sem þeir voru kosnir til að berjast fyrir. Sá óheiðarleiki og sviksemi við grundvallavilja kjósenda, sem nú er nánast daglegt brauð, var þá nánast óþekkt og í fölskvalausri einlægni var barist, með skýrum hætti, fyrir málsstað heildarinnar, í samhljómi málsstaðar þeirra sem kusu þingmanninn hverju sinni. 

Segja má að sá óheiðarleiki, sem nú er nánast að yfirtaka alla stjórnarhætti stjórnmála og viðskiptalífs, hafi byrjað við undirbúning að stofnun lýðveldis okkar. Við upphaf þess undirbúnings urðu þingmenn sammála um að, til að byrja með, yrði yfirtekin hin Danska stjórnarskrá sem við höfðum haft, og einungis breytt í henni kaflanum um konunginn. Í stað konungs kæmi nafnið FORSETI. Engar efnislegar breytingar yrðu gerðar fyrst um sinn. 

Þegar stjórnarskrármálið var svo komið til meðferðar í þinginu, gerðu Sjálfstæðismenn efnislegar athugasemdir við það ákvæði að forseti gæti (eins og var með kónginn) hafnað staðfestingu á lögum sem þingið hefði samþykkt. Var þá lögð fram tillaga, frá utanþingsstjórn sem þá starfaði, um að í stað synjunarvalds, hefði forsetinn heimild til að vísa lögum til þjóðarinnar, til staðfestingar, ef honum sýndust lögin vera andstæð vilja mikils hluta þjóðarinnar. Og lögin tækju þá ekki gildi fyrr en eftir samþykki slíkrar þjóðaratkvæðagreiðslu. 

Þessu vildu Sjálfstæðismenn ekki una. Þeir lögðu fram þá breytingatilögu að lögin tækju gildi strax, þó forseti neitaði að staðfesta þau, en féllu svo úr gildi ef þjóðin hafnaði þeim í kosningu. Kjánalegt en samt rétt farið með.

Á þessum tíma starfaði þingið í tveimur deildum. Efri- og neðri deild og þurftu öll mál að fara í gegnum þrjár umræður og atkvæðagreiðslu í hvorri deild, svo þau yrðu að lögum. Í meðferð þessara breytinga á stjórnarskránni, var tillaga Sjálfstæðismanna samþykkt í neðri deild, en féll með eins atkvæðis mun í efri deildinni. Málið þurfti því aftur að fara fyrir neðri deild. Þar var tillaga Sjálfstæðismanna samþykkt á ný og fór það síðan aftur til efri deildar. Þegar þangað kom, hafði Sjálfstæðismönnum tekist að snúa einum þeirra sem áður voru á móti þeim, þannig að tillaga þeirra var samþykkt, með eins atkvæðis mun, og 26. gr. stjórnarskrár orðin þannig að þó forseti hafnaði áritun laga og vísaði þeim þannig til þjóðarakvæðagreiðslu, þá tóku lögin gildi strax, en féllu svo úr gildi aftur, ef þjóðin hafnaði þeim. Þannig er 26 gr. stjórnarskrár enn í dag.

Þarna gerðu Sjálfstæðismenn sína fyrstu atlögu að lýðræðinu, áður en lýðveldið var formlega stofnað. Þeir hafa alla tíð síðan barist af hörku gegn því að þjóðin fái að hafa skoðun á lagasetningum og aldrei ljáð máls á því að þjóðin fengi að koma að endurskoðun stjórnarskrár. Þeir eru enn sama sinnis, því þeir lýsa mikilli andstöðu við að þjóðin geti átt síðasta orðið um eigin málefni.

  Er þetta hugsanlega í hnotskurn, ástæða þess að aldrei hafi verið sett nein lög eða reglur um starfsskyldur eða ábyrgð þingmanna? Í því útbreidda umhverfi óheiðarleika, sem nú er orðið augljós staðreynd, verður að setja skýr lög um starfsskyldur og ábyrgð þingmanna. Í óheiðarleikanum tróna hátt svik margra þingmanna við eigin orð og fyrirheit, vilja og ákvarðanir baklands þeirra í þjóðfélaginu, sem og mörkuð viðhorf og ákvarðanir innan flokka þeirra. 

Ekki dugir að ætla þeim sjálfum að semja slík lög. Því dettur mér helst í hug að slíkt verði eitt af verkefnum stjórnlagaþings, ef það kemur saman, og þeir njóti við starf sitt aðstoðar óflokkstengdra sérfræðinga háskólasviðsins, á sviðum siðfræði, félagsfræði og lögfræði.


Opið bréf til forseta lagadeildar Háskóla Íslands.

Í Fréttablaðinu 2. febrúar 2011, er haft eftir þér að Ákvörðun Hæstaréttar um kosningarnar til stjórnlagaþings, verði ekki bornar undir dómstóla, því "Lögfræðilega þá er niðurstaða Hæstaréttar í þessu máli endanleg niðurstaða í íslensku réttarkerfi."

Ég er nokkuð undrandi á þessari yfirlýsingu, í ljósi hinna einföldu staðreynda í þessu máli. Allar kærurnar lúta að framkvæmd kosninganna og í þeim tiltekin nokkur atriði sem kærð eru. Allar kærurnar eru byggðar á heimild í 15. gr. laga nr. 90/2010, um stjórnlagaþing. Sú lagagrein er eftirfarandi:

"15. gr. Kærur og fleira.

Ef kjósandi telur fulltrúa á stjórnlagaþingi skorta kjörgengisskilyrði, framboð hans hafi ekki uppfyllt skilyrði laga eða kjör hans sé af öðrum ástæðum ólögmætt, getur hann kært kosningu hans til Hæstaréttar sem sker úr um gildi hennar. Kæra skal afhent Hæstarétti innan tveggja vikna frá því að nöfn hinna kjörnu fulltrúa voru birt í Stjórnartíðindum. Hæstiréttur aflar greinargerðar og gagna frá landskjörstjórn og gefur viðkomandi fulltrúa færi á að tjá sig um kæruna áður en skorið er úr um gildi kosningarinnar.

Ákvæði 114. gr., XIX., XX., XXIV. og XXV. kafla laga um kosningar til Alþingis gilda um kosningar samkvæmt þessum lögum að svo miklu leyti sem við getur átt."

Eins og þarna kemur afar skýrt fram, er einungis heimilt að kæra til Hæstaréttar Ef kjósandi telur fulltrúa á stjórnlagaþingi skorta kjörgengisskilyrði, framboð hans hafi ekki uppfyllt skilyrði laga eða kjör hans sé af öðrum ástæðum ólögmætt, getur hann kært kosningu hans til Hæstaréttar sem sker úr um gildi hennar. Aðra beina réttarfarslega aðkomu að kosningum til stjórnlagaþings hefur Hæstiréttur ekki.

Allar kærurnar lúta að framkvæmd kosninganna. Þá er spurningin hvort Hæstarétti sé ákvörðuð einhver bein aðkoma til úrskurðar um framkvæmd kosninganna. Til að fá niðurstöðu um slíkt, þurfum við að líta á 2. mgr. 15. gr. laga nr. 90/2010, og er hún rituð hér að framan, en þar segir að:

Ákvæði 114. gr., XIX., XX., XXIV. og XXV. kafla laga um kosningar til Alþingis gilda um kosningar samkvæmt þessum lögum að svo miklu leyti sem við getur átt.

Í bréfi mínu til Hæstaréttar dags. 27. janúar 2010, rek ég hvaða atriði það eru úr lögum um kosningar til Alþingis, sem þarna er vísað til, að gildi um kosningar til stjórnlagaþings að svo miklu leyti sem við getur átt. Þessi 114. gr. og lagakaflarnir eru eftirfarandi:

 114 gr. í kaflanum - Kosningum frestað og uppkosningar.

XIX. kafli, sem ber heitið - Skýrslur Hagstofu.

XX. kafli, sem ber heitið - Óleyfilegur kosningaáróður og kosningaspjöll.

XXIV. kafli, sem ber heitið - Kostnaður.

XXV. kafli, sem ber heitið - Refsiákvæði.

Rétt er að geta þess að í lögum nr. 90/2010 um stjórnlagaþing, í lagakaflanum Kærur og fleira, eru einungis 15. gr. og 15.gr. a. Í hvorugri þessara greina eru nefnd frekari ákvæði, en að framan greinir, sem kæra megi beint til Hæstaréttar.

Í lögum nr. 24/2000, um kosningar til Alþingis, er XXI kaflinn Kosningakærur, með lagagreinunum 118. og 119. Þessi kafli eða þessar greinar, eru ekki nefndar á nafn í kaflanum um Kærur og fleira í lögum um stjórnlagaþing.

Vakin er sérstök athygli á því að ALLAR kærurnar fjalla um framkvæmd kosninganna. Engin þeirra fjallar um kjörgengi. Því á engin kæranna stoð í 15. gr. laga nr. 90/2010. Þar af leiðandi BAR Hæstarétti að vísa málinu frá. Kærurnar eiga sér hins vegar stoð í 119. gr. lagan nr. 24/2000, um kosningar til Alþingis. Þar er sagt að slíkar kærur skuli fara til hlutaðeigandi lögreglustjóra, sem fari með þau að hætti sakamála. Kærurnar eru því greinilega á röngum stað, og það hefðu dómarar Hæstaréttar átt að sjá glögglega, ef þeir hefðu lesið 15. gr. laga nr. 90/2010 af þeirri athygli sem krefjast verður af dómurum efsta stigs réttarfars í landinu.

Eins og mál þetta lítur út frá sjónarhóli heiðarleika, sannleika og réttlætis, verður vart hjá því komist að viðurkenna að Hæstarétti urðu á MJÖG alvarleg mistök. Hvort mistök þessi eigi sér rót í afar miklu álagi á réttinn, verður ekki ljóst nema með vandaðri rannsókn þar á.

Það vakti hins vegar all verulegan ugg í brjósti mínu, er ég heyrði einn af dómurum réttarins segja, brosandi, að hann hefði dæmt í 337 málum á árinu 2010. Vinnudagar dómara á ári er líklega 249, þannig að þessi dómari hefur þurft að lesa sig í gegnum 1,35 mál á hverjum vinnudegi. Ég ætla engar vangaveltur að hafa um þetta núna, en velti þó fyrir mér hve djúp ígrundun um réttlæti var í hverju máli, þegar jafnaðar vinnslutími máls er komin niður í u. þ. b. 5 vinnustundir.

Vegna stöðu þinnar, sem forseti lagadeildar Háskóla Íslands, vil ég með þessu bréfi skora á þig að hugsa niðurstöðu þína í því máli sem hér um ræðir, og skýra hana opinberlega í fjölmiðlum, með beinum og skýrum lagatílvísunum. Ég er ekki að óska eftir langloku lagaflækjum, því þær eru ævinlega einungis til að fela óheiðarleika. Nú þarf þjóð okkar á hreinum heiðarleika, réttsýni og réttlæti að halda, því tilfinning fólks er orðin sú að ALLIR, opinberir aðilar, segi að mestu leyti ósatt um þau atriði sem þeir eru spurðir um. Við slíkt ástand getur þjóðin ekki búið.

Ég leyfi mér því að vænta þess heiðarleika af þér, að þú dragir til baka ummæli þín. Þó þú treystir þér ekki til, vegna þöggunarkenndra siðareglna, að segja sannleikann um heimildarleysi Hæstaréttar til úrskurðar í umræddum kærumálum, vænti ég þess að í framtíðinni íhugir þú betur niðurstöður þínar um störf dómstóla, svo þær verði meira en 5 vinnustunda virði.

  Með kveðju, Reykjavík 2. febrúar 2011 Guðbjörn Jónsson.  


Er hræðslu að verða vart hjá LÍÚ ???

Af þeirri frétt sem hér er til grundvallar verður vart annað séð en ótta sé farið að gæta hjá forystu LÍÚ.  Allt í einu virðast þeir eins og auðsveipir þjónar, sem nánast engar kröfur geri aðrar en fá að veiða. Þykjast nú aldrei hafa efast um  forræði íslenska ríkisins á fiskveiðiauðlindinni og rétt ríkisins til að setja reglur um stjórn fiskveiða. Hins vegar sé það náttúrlega ljóst frá þeirra hendi að: Á sama hátt eiga íslenskar útgerðir stjórnarskrárvarinn rétt til afnota að aflahlutdeild sinni.  Hvernig réttur sem hvergi er tilgreindur í lögum, getur verið stjórnarskrárvarinn, hafa þeir aldrei geta skýrt.

Enn fremur segja þeir að: "Ú bendir á að stjórn fiskveiða skipti þá sem byggi afkomu sína á sjávarútvegi með beinum og óbeinum hætti og íslenskt samfélag allt miklu."  Ekki tók LÍÚ það nærri sér, þegar þeir sjálfir voru að ná veiðiheimildunum undir sig, þó þeir rústuðu afkomu fleiri þúsund heimila. Þá voru útvegsmanna ekki að hugsa um afkomu þeirra sem eingöngu, eða að miklu leiti, höfðu byggt afkomu sína af veiðum og vinnslu sjávarafurða.

Augljósasta dæmið um undirgefni og sáttavilja LÍÚ má greina á eftirfarandi: "LÍÚ hefur nú beðið í rúma 4 mánuði eftir fundi með forsætis-, fjármála- og sjávarútvegs-ráðherra til að vinna að útfærslu samningaleiðarinnar." Ölum er ljóst að svonefnd "samningaleið" er runnin undar rifjum LÍÚ. Afar mikil amndstaða er meðal þjóðarinnar með þá leið, líkt og með núverandi fyrirkomulag. Þrátt fyrir að stjórnvöld hafi enga ákvörðun tekið um að fara þá leið við fiskveiðistjórnun, segjast þeir nú hafa "beðið í rúma 4 mánuði eftir fundi með forsætis-, fjármála- og sjávarútvegs-ráðherra til að vinna að útfærslu samningaleiðarinnar.

Þegar grant er skoðað, má glögglega sjá að enginn sáttatónn er í forystu LÍÚ varðandi fiskveiðistjórnun. Þeir virðast hins vegar nokkuð hissa á að fyrirmælum þeirra sé ekki hlýtt án óþarfa tafa, að þeirra mati. Augljóst er að jábræðraher þeirra er kominn af stað, því úr mörgum áttum er nú vegið að sjávarútvegsráðherranum, sem gegnir ekki fyrirmælum þeirra. Og það sem verra er, það virðist eins og einhver óþekktarlýður sé að reyna að koma í veg fyrir sameiginlegt atvinnuvegaráðneyti verði að verileika, og losi þá þannig við óhlýðinn ráðherra.

En hvernig væri að LÍÚ stæði nú fyrir því að þeir útvegsmenn sem selt hafa aflaheimildir á undanförnum árum, skili nú virðisaukaskattinum af þeirri sölu til ríkisins, svo létta megi á niðurskurði í heilbrigðis-, mennta-, og velferðarmálum. Þarna á ríkissjóður umtalsverðar útistandandi skattgreiðslur, sem full þörf er á að innheimta. Ekki liggur lengur neinn vafi á að virðisaukaskatt á að greiða af seldum aflaheimildum. Fyrir því er nú til staðfest uppgjör þar sem virðisaukaskattur af keyptum aflaheimildum var endurgreiddur.           

                       


mbl.is Forsætisráðherra og ASÍ fara með rangt mál
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Opið bréf til Hæstaréttar vegna stjórnlagaþings

Opið bréf til Hæstaréttar.

Ég er afskaplega undrandi yfir ákvörðun Hæstaréttar varðandi kosningar til stjórnlagaþings. Í ákvörðun réttarins er sagt að niðurstaðan komi vegna kæru þriggja manna til Hæstaréttar,  vegna framangreindra kosninga. Sagt er að kærur þessar byggist á 15. gr. laga nr. 90/2010, um stjórnlagaþing.

Í  þriðju málsgrein á 1. bls. Ákvörðunar Hæstaréttar, er eftirfarandi niðurstaða réttarins:  (Leturbreyting G.J.)

"Mál kærenda voru sameinuð með ákvörðun Hæstaréttar 6. janúar 2011 þar sem þau lúta öll að almennri framkvæmd kosninganna og varða ekki sérstaka hagsmuni þeirra að lögum."

Í 15. gr. laga um stjórnlagaþing, er hvergi nefnd heimild til beinnar kæru til Hæstaréttar, út af öðru en því er varði kjörgengisskilyrði tiltekins frambjóðanda. Orðrétt segir um þetta í 15. gr. laga um stjórnlagaþing:

"Ef kjósandi telur fulltrúa á stjórnlagaþingi skorta kjörgengisskilyrði, framboð hans hafi ekki uppfyllt skilyrði laga eða kjör hans sé af öðrum ástæðum ólögmætt, getur hann kært kosningu hans til Hæstaréttar sem sker úr um gildi hennar. "

 Eins og þarna kemur fram, er Hæstarétti einungis falið að fjalla um kjörgengi tiltekinna fulltrúa á stjórnlagaþingi. Engar heimildir eru til þess í lögunum, að Hæstiréttur fjalli beint, án undangengis dóms eða úrskurðar héraðsdóms, um sjálf lögin um stjórnlagaþing, eða framkvæmdina að öðru leiti en varðar framangreint kjörgengi.

Á nokkrum stöðum í lögunum um stjórnlagaþing, er vísað til laga um kosningar til Alþingis, eftir því sem við geti átt. Í 2. málsgrein 15. gr. laga um stjórnlagaþing, er vísað til tiltekinna greina og lagakafla, í lögum um kosningar til Alþingis, sem gildi hafi í lögum um stjórnlagaþing. Þar er vísað til eftirfarandi lagagreina og lagakafla í lögum um Kosningar til Alþingis.
114 gr. í kaflanum - Kosningum frestað og uppkosningar.
XIX. kafli, sem ber heitið - Skýrslur Hagstofu.
XX. kafli, sem ber heitið - Óleyfilegur kosningaáróður og kosningaspjöll.
XXIV. kafli, sem ber heitið - Kostnaður.
XXV. kafli, sem ber heitið - Refsiákvæði.

Rétt er að geta þess að í lögum nr. 90/2010 um stjórnlagaþing, í lagakaflanum Kærur og fleira, eru einungis 15. gr.  og 15.gr. a. Í hvorugri þessara greina eru nefnd frekari ákvæði, en að framan greinir, sem kæra megi beint til Hæstaréttar.

Í lögum nr. 24/2000, um kosningar til Alþingis, er kaflinn Kosningakærur, nr. XXI, með lagagreinunum 118. og 119. Þessi kafli eða þessar greinar, eru ekki nefndar á nafn í kaflanum um Kærur og fleira í lögum um stjórnlagaþing.

Í 118. grein er fjallað um kjörgengi. Sá sem kæra vill vegna kjörgengis, beini kæru sinni til Dómsmálaráðherra (nú Innanríkisráðherra), sem láti hinum kærða aðila í té afrit af kæru, auk þess sem ráðherrann leggi kæruna fyrir Alþingi, þegar í þingbyrjun.  Þessi grein kemur ekki til álita í lögum um stjórnlagaþing, þar sem kjörgengi er það eina sem heimilt er að kæra beint til Hæstaréttar, samkvæmt þeim lögum.

Í 119. grein laga um kosningar til Alþingis, er fjallað um brot á lögunum. Þar er sagt að slíkar kærur skuli fara til hlutaðeigandi lögreglustjóra, sem fari með þau að hætti sakamála.

Eins og hér hefur verið rakið, er hvergi að finna lagaheimild fyrir Hæstarétt til að taka Ákvörðun um að kosningar til stjórnlagaþings hafi verið ógildar.

Sem kjósandi í þessum kosningum, beini ég þeim tilmælum til Hæstaréttar, að hann sýni lögum landsins þá sjálfsögðu virðingu, að draga þegar í stað til baka Ákvörðun réttarins frá 25. janúar 2011, um að kosningar til stjórnlagaþings séu ógildar.
Virðingarfyllst
Reykjavík 27. janúar 2011
Guðbjörn Jónsson


mbl.is Útsend kjörbréf teljast ógild
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Auðlindir í eigu þjóðarinnar.

Fundur Reykjavíkurfélaga Samfylkingar og VG, á Grand hóteli var einkar vel heppnaður og kraftmikill fundur. Þar voru afbragðs góðir frummælendur sem opnuðu mörg sjóanrhorn vegna þeirrar framkvæmdar sem nú viðgengst við fiskveiðistjórnun.

Það sem mér finnst þó vanta sárlega, er að farið sé skipulega yfir núverandi framkvæmd og dregið fram í dagsljósið á hvern hátt hefur alla tíð verið farið á skjön við gildandi lög. Reglugerðir eru til þess að útfæra nánar það sem í lögunum er sagt. En, það er ekki nóg að setja einhver ákvæði í reglugerð, ákvæði sem ekki eru tiltekin í lögunum. Slíkt er ekki bindandi.

Í lögum um fiskveiðistjórnun er hvergi ákvæði um að skip eða útgerðir EIGI  ár eftir ár ákveðna hlutdeild í úthlutuðum heiladrafla. Í daglegu tali er þetta kallað "Varanlegur kvóti", sem viðkomandi útgerðir EIGI, og verði ekki af þeim tekinn. Á vissan hátt hafa stjórnvöld ítt undir þessa vitleysu, með því að skipta úthlutuðum aflaheimildum eftir reglu sem á sér enga stoð í lögum.

Útgerðarmenn eru ánægðir með þetta, því þessi ólögmæta framkvæmt stjórnvalda fellur alveg að fullyrðingum útvegsmanna; fullyrðingum sem hvergi er lagabókstafur fyrir. Útgerðarmönnum hefur einnig liðist að selja frá sér "varanlega aflahlutdeild", sem ekki er til sem úthlutunarregla. Einnig hefur þeim verið liðið að selja veiðiheimildir innan ársins, þó ALDREI hafi verið samþykkt á Alþingi heimild til að selja veiðiheimildir eða aflamark.

Þá má geta þess að frá 1. janúar 1994, hefur fiskur verið í 14% flokki virðisaukaskatts (VSK). Því hefur ætíð átt að greiðast VSK af öllum seldum aflahlutdeildum og veiðiheimildum.  Skákað er í skjóli þess að þáverandi Ríkisskattstjóri hafi gefið heimild til að virðisaukaskattur af kvótasölu væri ekki greiddur. Því er til að svara að VSK heyrir undir skattheimtu, og lögum eða reglum um slíka innheimtu verður hvergi breytt nema á Alþingi. Að undanskilja kvótasölu frá greiðslu VSK hefur því alla tíð verið ólöglegt, þar sem slík ákvörðun hefur ekki verið staðfest af Alþingi. Það sannaðist á árinu 2008, er skatturinn endurgreiddi útgerð reiknaðan VSK af kvótakaupum hennar.

Sama ólögmæta aðgerðin er það þegar Ríkisskattstjóri heimilaði útgerðum að færa kvótakaup sín sem eign í efnahagsreikning sinn. Með þeirri heimild margbraut Ríkisskattstjóri lög og starfsskyldur sínar. Aflaheimildirnar voru (og eru) SANNANLEGA eign þjóðarinnar. Þær gátu því ALDREI orðið eignastofn í efnahagsreikning útgerðar. Þó útgerðarmaður hafi greitt annarri útgerð peninga til að fá til sín aflaheimild, var engin lagaforsenda til sem skyldaði Fiskistofu til að færa, þeim sem keypti kvótann, auknar aflaheimildir á komandi árum.

Á árum áður, starfrækti sjávarútvegsráðuneytið Kvótaþing, sem umsjónaaðila með úthlutuðum aflaheimildum. Fljótlega fór Kvótaþing að SELJA kvóta, bæði svokallaðan "varanlegan kvóta" og veiðiheimildir innan ársins. Ég átti þá í miklum bréfaskiptum við Kvótaþing, ríksiskattstjóra og ráðuneyti sjávarútvegsmála.

Endaði það ferli með því að ég lagði fram kæru, vegna ólögmætrar starfsemi Kvótaþings, þar sem það væri að SELJA eign þjóðarinnar án þess að hafa fengið hemildir Alþingis til slíks.  Vegna þessarar kæru var hratt brugðist við. Verið var að afgreiða svokallaðan "bandorm" frá Alþingi, og var í flíti bætt aftan við þann lagabálk, ákvæði um að fella Kvótaþing niður og allri starfsemi þess hætt. Var gengið svo rösklega til verka að skömmu síðar var hvergi hægt að finna vísbendingu um að Kvótaþing hefði verið til, því búið var að fella lögin um Kvótaþing út úr lagasafni Alþingis.

Þegar Kvótaþing var fellt niður og starfsemi þess hætt, voru verkefnin færð yfir til Fiskistofu.  Fljótlega fór þar af stað sambærileg starfsemi, þar sem Fiskistofa hefur haldið skrá yfir allar kvótasölur. Þó Fiskistofa selji ekki sjálf, eins og Kvótaþing gerði, eru þeir þó ábyrgir fyrir því að salan fari fram, þar sem tilfærsla aflaheimilda milli skipa, tekur ekki gildi fyrr en Fiskistofa hefur  staðfest tilfærsluna.

Það er því fyrst og fremst Fiskistofa, undirstofnun sjávarútvegsráðuneytis, sem er ábyrg fyrir því að SALA þjóðareignar á sér stað. Ef Fiskistofa færi að lögum og leyfði ekki sölu þjóðareignarinnar, væri stærsti hluti peningasukksins í kringum kvótakerfið, liðið undir lok.

Eins og hér hefur verið rakið, eru það fyrst og fremst opinberir aðilar, Ríkisskattstjóri og sjávarútvegsráðuneyti, sem bera ábyrgð á  þeirri ólöglegu  framkvæmd fiskveiðistjórnunar, sem hefur í för með sér mesta ranglæti kvótakerfisins. Fjármálaráðuneytið bætist síðan við, ásamt Ríksiskattstjóra, að innheimta ekki VSK af seldum kvóta. Þó telja megi víst að útgerðaraðall LÍÚ séu hönnuðir að þeirri framkvæmd sem viðhöfð er, eru það fyrst og fremst framangreindir opinberu aðilar sem bera meginábyrgð á hinni ólöglegum starfsemi, við framkvæmd fiskveiðistjórnuanr.                 


mbl.is Afnemi kvótakerfið strax í ár
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Var það ferð til fjár ????

Ég varð fyrir óskaplegum vonbrigðum með sjónvarpsþættina "Ferð til fjár", sem sýndir voru á RÚV s.l. tvö mánudagskvöld, í samstarfi við Arion banka.

Fjármálalæsi er afar þýðingarmikið fyrir afkomu fólks í nútíma samfélagi, en ekki síður fyrir heilbrigða og gagnrýna umræðu í þjóðfélaginu um efnahagsmál. Ég vonaði því innilega að þessir þættir væru vel ígrundaðir og skipulega fylgt sterkustu lykilatriðum, til skilnings á fjárhagslegu sjálfstæði hvers einstaklings.

Því miður varð ég fyrir hroðalegum vonbrigðum með báða þættina. Ekki var hægt að sjá að höfundur þáttanna hefði skilning á mikilvægustu undirstöðum í hringrás peninga í lífi fólks. Mætti þar nefna skilning á heiðarlegum og heilbrigðum grundvelli tekjuöflunar til lífsafkomu einstaklinga eða fjölskyldna. Þar fyrir utan var efnið britjað niður í sundurlausa búta, þannig að vonlítið var að nokkur manneskja, sem ólæs væri á fjármál, gæti náð heilstæðu samhengi í því óvandaða efni sem flutt var.

 Seinni þátturinn fannst mér þó keyra um þverbak, þegar ljóst var að handritshöfundur og aðalstjórnandi á uppbyggingu þáttanna gat hvorki útskýrt hvað verðbólga væri, né hafði neinn skilning á því sem í daglegu tali er kallað "verðtrygging". Þar er raunar ekki um eiginlga "verðtryggingu" að ræða, heldur kaupmáttartryggingu lánsfjár. Einskonar viðbótarvexti á lánsfé, til viðbótar við tilgreinda vexti samkvæmt lánasamningi eða skudlabréfi. Verðtrygging er því algjört rangnefni á þessu fyrirbrigði, auk þess sem framkvæmd þess er afar langt frá gildandi löum, og margfallt óhagstæðari lántakanum en lög segja fyrir um.

Ef þetta er það besta í fjármálaviti sem í boði er hjá stærsta banka landsins, er vart von á að fjármálalæsi minnki hér á landi fyrir atbeina frá honum.  Ekki er þó vanþörf á að bæta úr almennum skilningi á sköpun, vörslu, og notkun fjármuna, eftir því sem fram kom í viðtölum við hina almennu borgara í þessum þáttum.

 Spurningin er hvort öll svörin sem leitað var eftir hafi verið á sömu lund, eða hvort vanþekking var af ásetningi gerð svo áberandi sem raunin var. Ég treysti mér ekki til að meta slíkt, því efnistök þáttanna voru frekar sem leikaraskapur, en fræðsluefni um eitt mikilvægasta þekkingarmál nútíma samfélags.        


Þetta hef ég sagt lengi

Ég hef í mörg ár vakið athygli á að loforð og yfirlýsingar ráðherra hafa ekkert skuldbindandi gildi fyrir ríkissjóð, fyrr en Alþingi hefur staðfest yfirlýsinguna. Sé  um að ræða loforð eða skuldbindingu ráðherra um fjárútlát, er slíkt loforð, yfirlýsing eða fyrirheit, eingöngu á persónuábyrgð viðkomandi ráðherra, þar til Alþingi hefur, með meirihlutasamþykki, staðfest viðkomandi yfirlýsingu ráðherrans.

Á þetta t. d. við um Tónlistarhúsið, þar sem ekki er einu sinni búið að afla staðfestingar Alþingis á því að ríkissjóður sé helmings eigandi að Austurhöfn ehf. á móti Reykjavíkurborg, hlutafélaginu sem er að byggja Tónlistarhúsið.  Gögn frá Fyrirtækjaskrá staðfesta að engar samþykktir Alþingis liggja að baki stofnun þess hlutafélags.  Ekki hefur heldur verið tekin formleg ákvörðun á Alþingi um byggingu Tónlistarhússins, eða fjármögnun þess, það sem af er, eða á komandi árum.

Mörg önnur loforð og yfirlýsingar ráðherra er enn algjörlega á persónuábyrgðum ráðherranna sjálfra, því þau hafa aldrei verið staðfest af Alþingi.

Þarna eru dómstólar að opna á mikið af lögbrotum ýmissa núverandi og fyrrverandi ráðherra.                  


mbl.is Yfirlýsingarnar ekki skuldbindandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Opið bréf til Ólínu Þorvarardóttur

Kæra Ólína!

Vandi fylgir vegsemd hverri, segir gamalt máltæki. Mikill sannleikur er fólginn í þessum orðum. Og þar sem þú ert fyrrverandi Skólameistari Menntaskóla, átti ég von á yfirvegaðri dómgreind og vænum skammti af þroskaðri visku frá þér, er þú tækir sæti þingmanns á Alþingi okkar.

 Mér hefur stundum fundist vanta á, í framgöngu þinni sem þingmaður, að þú bærir virðuleika fyrra embætti þíns sem Skólameistari Menntaskóla, inn í þingliðið. Finnst mér bréf þitt, með ókurteisum og órökstuddum aðdróttunum að Lilju Mósesdóttur, með þvílíkum ólíkindum að ætla megi að þú sért gengin af vegi visku og dómgreindar. Rökvillur, rugl, sleggjudóma og persónuárásir, taldi ég fyrirmunað að birtast mundu í bréfi fyrrverandi Skólameistara Menntaskóla. En, líklega eru engin takmörk fyrir því hvað fólk getur látið teyma sig langt niður, til að þóknast ímynduðum hagsmunum. 

Í bréfi þínu segir þú, og talar um Lilju:

"En þingmaður sem ekki er sammála meginmarkmiðum og stefnu þess stjórnarmeirihluta sem hann starfar fyrir hlýtur að þurfa að gera það uppvið sig með hverjum hann ætlar að starfa. Þetta er ekki í fyrsta skipti sem Lilja lýsir sig ósammála stefnu og aðgerðum ríkisstjórnarinnar og síns eigin flokks." 

Lilja hefur bæði sýnt það með framgöngu sinni á Alþingi, í ræðum á þinginu, í viðtölum og greinum í fjölmiðlum, að hún er ekki ósammála meginmarkmiðum og stefnu þess stjórnarmeirihluta sem hún starfar fyrir. Hún fylgir einna best eftir markmiðum stjórnarsáttmálans. Er það aðfinnsluvert frá hendi fv. Skólameistarans, að fylgja fram skráðum markmiðum, eftir sinni bestu sannfæringu, eins og eiðstafur þingmannsins hljóðar?

Þú segir: "Lilja lýsir sig ósammála stefnu og aðgerðum ríkisstjórnarinnar og síns eigin flokks." Þarna fer fv. Skólameistarinn með fleipur. Lilja hefur aldrei lýst sig ósammála stefnu VG. Hún hefur lýst sig ósammála ýmsum aðgerðum, sem að hennar mati eru í andstöðu við eðlilega og lýðræðislega ákvarðanatöku. Sem betur fer hefur hún gert það, því þið hin, með fv. Skólameistara, hagfræðinga og lögfræðinga til ráðgjafar, hafið ítrekað gert ykkar ítrasta til að steypa þjóðarbúinu í glötun og áratuga eða ævarandi skuldafjötra. Er það dómgreindin ykkar, sem við kjósendur þessa lands eigum að hneigja okkur auðmjúk fyrir?

Og áfram heldur þú og talar um Lilju: "Sú staðreynd kallar að sjálfsögðu fram spurningar um það hvers vegna hún sé enn um borð í þessu skipi, fyrst hún er ósátt við stefnuna og aðferðirnar um borð."

Ljóst er, eins og alltaf er að koma fram, að Lilja er EKKI ósátt við þá STEFNU sem kortlögð var, er ríkisstjórnin var mynduð. Hún er hins vegar ósátt við AÐGERÐIR sem leiða til allt annarar stefnu en kortlögð var, er siglt var af stað. Það hefur ítrekað sýnt sig, að hún sér hætturnar á þeirri leið sem forsætis- og fjármálaráðherrar vilja sigla, fjarri fyrirhugaðri stefnu. Það að hún skuli enn vera um borð, og þegar búin að bjarga fjárhag þjóðarinnar að hluta (að vísu með hjálp fleiri), sýnir kannski best sérstaka ábyrgðartilfinningu hennar fyrir þjóðarbúinu, sem því miður virðist vanta hjá ykkur hinum.

Og enn ræðst þú að Lilju: "Það er ekki verið að banna henni að hafa skoðanir eða fylgja þeim eftir - það er einfaldlega verið að spyrja manneskjuna samviskuspurningar varðandi heilindi hennar við þann flokk sem hún bauð sig fram fyrir í síðustu kosningum og því samstarfi sem flokkur hennar gekk inn í við myndun ríkisstjórnarinnar, en hún virðist svo gjörsamlega ósátt við í hverju málinu af öðru."

Með þeirri virðingu sem mér er unnt, get ég ekki séð annað en þú misskiljir alvarlega hugtakið heilindi. Ég fæ ekki betur séð en þú teljir að leggja eigi eiðstaf gagnvart stjórnarskránni til hliðar, til að fylgja málum eða aðgerðum "sem hennar eigin formaður leggur til og/eða stendur fyrir." Þarna er greinilega orðið mikilvægara að elta hugdettur formannsins, en að fylgja hinni mörkuðu stefnu. Ekki verður betur séð en þú teljir að Íslandi sé stjórnað eftir Ráðstjórnar fyrirkomulagi, en ekki lýðræði.

Í næst síðustu málsgrein bréfs þíns ítrekar þú enn að Lilja megi hafa "hverja þá skoðun sem samviskan býður henni - þetta mál snýst ekkert um það. Hún greiðir að sjálfsögðu atkvæði eftir samvisku sinni í þingsal. Þó það nú væri. En hún á ekki að sigla undir fölsku flaggi ef hún er í hjarta sínu ósátt við að vera hluti af stjórnarliðinu."

Fyrrverandi Skólameistarinn á að vita það, að saka fólk um að sigla undir fölsku flaggi, er lágkúrulegur sleggjudómur, ef enginn rökstuðningur fylgir. Svo er ekki í þessu tilfelli, svo þessi framsetning er fyrst og fremst þér til minnkunar.

Síðasta málsgreinin í bréfi þínu slær þó af allan vafa um að þú skilur ekki mismuninn á lýðræðisstjórnun eða Ráðstjórnun flokks og foringjahollustu. Málsgreinin er svohljóðandi:

"Sé hún í hjarta sínu hins vegar sammála markmiðum og stefnu, þá á hún að sitja sem fastast, og aðstoða félaga sína sem vinna nú hörðum höndum, styðja þá og leggja gott til verksins. Þannig vinna góðir liðsmenn, og þannig verða liðsheildir til."

Ég verð að segja að ég er nánast orðlaus og finn til óhugnaðar, að manneskja með þína menntun og þinn bakgrunn, skulir sýna svona litla þekkingu á skyldum og ábyrgð þingmanns í okkar lýðræðissamfélagi. Af síðustu málsgrein bréfs þíns má skilja að þér finnist FYRSTA SKYLDA vera að aðstoða félaga sína, væntanlega flokksfélaga (Ráðstjórnarhugsun), því Þannig vinna góðir liðsmenn, og þannig verða liðsheildir til. (Og enn er það Ráðstjórnarahugsun).

Í ráðstjórnarhugsun, leitast einstaklingurinn við að þóknast Flokksvaldinu, í von um að hljóta umbun fyrir fylgispektina. Hann upplifir sig ekki frjálsan hugsana sinna eða orða, og þarf stöðugt að láta opinberlega í ljós að hann sé sammála formanni eða forystusveit Flokksins.

Í lýðræðishugsun er það hlutverk forystunnar að finna samhljóm allra þeirra sem þörf er á að styðji mál (meirihluta atkvæða) svo málið verði lýðræðislega samþykkt. Slík sátt verður til með viðræðum, rökræðum, tilslökunum og breytingum, þar til öllum finnist þeir eiga hlut í málinu. Þannig verður liðsheildin heilbrigð og orkan samstillt.

Oft hefur komið fram í fjölmiðlum að stjórnunarmál þjóðfélagsins séu lítið sem ekkert rædd í þingflokkum. Frumvörp þar að lútandi komi frágengin frá ráðherra og nánast til málamynda lögð fram í þingflokki sem samþykki að styðja málið. Eins og þú segir sjálf, þá leggja menn sig fram við að aðstoða félaga sína, því þannig verða liðsheildir til. Liðsheild stjórnmálaflokksins, virðist því vera mikilvægasta markmið þingmansins. Sú hugsun er Ráðstjórnarhugsun.

Það virðist greinilegt að dökk skýrsla Rannsóknarnefndar Alþingis, enn dekkri skýrsla siðferðisnefndar Samfylkingarinnar og heitstrengingar á flokksráðfundi um stórátak í að siðvæða stjórnmálin, eigi langt í land, fyrst kona með þinn bakgrunn og þína menntun, er svo langt frá eðlilegri virðingu og kurteisi gagnvart þeim er hafa aðra skoðun en þú.

Þetta bréf er þér því fyrst og fremst til minnkunnar, en ég vil leyfa mér að vona að þú lærir af mistökunum og biðjir Lilju opinberlega afsökunar á þeim órökstuddu ávirðingum og dylgjum sem fram koma í bréfi þínu.

Með kveðju, Guðbjörn Jónsson   


Björn Valur og hinn - holi málflutningur

Fimmtudaginn 17. desember 2010, skrifar Björn Valur Gíslason, þingmaður VG, athyglisverðan pistil á bloggsíðu sína "bvg.is/blogg", sem hann kallar "Holur málflutningur þremenningana".  Ég veit svo sem að ég þarf ekki, og er ekki heldur, að svara fyrir Lilju. Hún hefur næg rök til að svara fyrir sig sjálf. En stundum skortir svo sárlega málefnaleg rök í suma pistla. Efnislega verða þeir nánast eingöngu persónuleg árás á aðila sem talinn er vera andstæðingur ríkjandi "jábræðralags". Þetta er vel þekkt úr - flokksræðis- og flokkshollustu- pólitík, - sem harðlega hefur verið gagnrýnd. Eftir útkomu skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis, hétu flestir flokkar að leggja af slík vinnubrögð, og virða á rökrænan hátt ÖLL sjónarmið sem réttilega blönduðust inn í umræðuna.
 
Svo er að sjá sem þessi lýðræðislega endursköpun vinnubragða hafi ekki náð inn í vitund sjálfsvirðingar hjá stórum hluta þingflokks VG. Fyrr á þessu ári eltu þeir foringja sinn út í ófært foræði, í tilraun til að fjötra á þjóðina til áratuga, skuldaklafa sem hefði tvímælalaust rænt þjóðina helstu auðlindum hennar. Og þar með skapað henni sess fátæktar og örbyrgðar um ókomin ár.  Ekki er að sjá að þetta "jábræðralag" hafi enn öðlast snefil af sjálfsvirðingu, því enn er forystan elt út í hreina vitleysu, þar sem samþykkt eru fjárlög sem byggja á forsendum sem reikningsfræðilega geta ekki gengið upp, því enginn ábyrgur aðili fæst til að spá þeim þjóðhagsforsendum sem fjárlögin byggja á. 
 
Lilja gekk, samstíga öðrum, í fararbroddi þeirra sem lögðu mikið á sig til að forða þjóðinni frá langvarandi örbyrgð og fátækt. Flestir virtustu lög- og hagfræði meistarar vestræns heims, voru hennar málsstað samstíga á þeim tíma og síðar. Nýr IceSave samningur hefur og fært sönnur á að hennar málsstaður var réttur á þeim tíma. Það hlýtur að þýða að málsstaður meirihluta þingflokks VG. þ. e. "jábræðra" forystunnar, var rangur.
 
Lilja hefur ekki breytt málefnaþáttum í stefnu sinni og málflutningi. Það virðast "jábræður" forystunnar ekki heldur hafa gert. Flestum sæmilega skýrt hugsandi fólki ætti því að vera ljóst hvoru megin raunverulegir hagsmunir samfélagsins liggja.
 
Að sinni ætla ég ekki að elta einstök ummæli (bvg) um þremenningana, svokölluðu. Svo margar rökvillur eru í þessum fjórum liðum sem upp eru taldir, að flestir ættu á sjá ásetninginn um að skaða persónur þeirra sem þar er vitnað til, án þess að nefna einu orði þann málefnaágreining sem veldur vantrausti þeirra sem ekki fylgja fjöldanum. Pistilshöfundur opinberar sig þar með að því að leggja meiri áherslu á að vega að persónum, en rökræða málefnin. Það er hans mál, með hvaða hætti hann kynnir sinn ynnri mann fyrir lesendum og þeim sem á orð hans hlýða.        

« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Guðbjörn Jónsson
Guðbjörn Jónsson
F.v. ráðgjafi

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.11.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 2
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 2
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband