Færsluflokkur: Fjármál

Eiga Bretar að borga Icesave ?????

Ég fór á fund í gær, þar sem Stefán Már Stefánsson, hér eftir (SMS), prófessor í lögum, við Háskóla Íslands, var með framsögu um Icesave. Hann hélt þarna góða tölu um hvað gæti gerst ef við borguðum ekki.

Allt frá upphafi Icesave hef ég spurt hvers vegna verið sé að rukka ríkisstjórn Íslands um þessa skuld, þar sem hvorki Landsbankinn né neinn annar banki hafi á þessum tíma verið í ríkiseign. Auk þess hafi engin ríkisábyrgð verið á Tryggingasjóði innistæðueigenda. Við þessu hafa aldrei fengist skýr svör.

Ég hugsaði mér því gott til glóðarinnar að spyrja þennan virkta lagaprófessor um þetta atriði. Ég lagði því eftirfarandi spurningu fyrir SMS.

 - Þegar hrunið varð, var Landsbankinn í einkaeign, eins og aðrir bankar landsins. Tryggingasjóður innistæðueigenda er eign bankanna og engin ríkisábyrgð á þeim sjóði. Engin innheimtukrafa hefur farið fram á hendur Tryggingasjóðnum, sem er hinn raunverulegi skuldari, ef þannig er litið á málin. Hvaðan er þá komin heimild ríkisstjórnar okkar, til að stíga fram fyrir stjórn Tryggingasjóðs og semja um ætlaðar skuldir sjóðsins, sem hvorki hafa verið til innheimtu hjá sjóðnum eða úrskurðað hafi verið að sjóðurinn ætti að greiða?-

Við þessu spursmáli átti SMS ekkert svar. Taldi samt líklegt að mönnum hafi þótt vænlegra að stíga fram og leita sátta. Ekki eitt orð um þær lagalegu forsendur sem ég spurði um. Af þessu mátti skilja að Bretar hefðu í raun engar lagalegar forsendur fyrir innheimtukröfum sínum á hendur ríkissjóði. Staðan virðist því sú að stjórnvöld hér hafi orðið hrædd, eða að það sé verið að slá skjaldborg um stjórnendur Landsbankans, svo ekki yrði höfðað mál gegn þeim í Bretlandi. Og af hverju skildi ég nú segja það.

Flestum er ljóst að grundvöllur EES samningsins er jafnréttishugtakið, um jafna stöðu allra á markaði. Um það segir svo í 1. hluta samningsins um EES eins og hann birtist í lögum nr. 2/1993, en þar segir svo í e. lið 2. töluliðar 1. gr.

"að komið verði á kerfi sem tryggi að samkeppni raskist ekki og að reglur þar að lútandi verði virtar af öllum;..."

Þar sem áhersluletri er bætt við, er það gert af höfundi þessara skrifa. Þarna er beinlínis sagt að ein af grundvallarreglum EES samstarfsins sé að raska ekki samkeppni.

Fram hefur komið að Bresk stjórnvöld hafi heimilað Landsbankanum að taka við innlánum í útibúi sínu í London. Ljóst er að Breskir bankar eru þátttakendur í breska Tryggingasjóði innistæðueigenda. Í ljósi þess var breskum stjórnvöldum skylt að gæta þess að samkeppni raskist ekki. Þeim bar að gæta þess að, áður en þau veittu Landsbankanum leyfi til móttöku innlána, yrði hann að fullvissa bresk stjórnvöld um að útibú hans í London væri með fullgilda innistæðuvernd í Tryggingasjóði Breta, á sama hátt og aðrir bankar á sama markaðssvæði. Með engum öðrum hætti gátu bresk stjórnvöld gefið út heimild til útibús Landsbankans í London, til móttöku og ávöxtunar innlána. Nema því aðeins að bresk stjórnvöld tækju sjálf áhættu af bakábyrg, fyrir jafnri stöðu innlánseigenda í útibúi Landsbankans í London, við innlánatryggingar í öðrum breskum starfandi bönkum. Annað hefði verið mismunun á markaðsstöðu og röskun á samkeppni um innlán.

 Af reglum EES samningsins, um jafna stöðu á markaði, er ábyrgð breskra stjórnvalda á að fullkomlega rekstrarlegt jafnvægi ríki milli banka sem bjóðast til ávöxtunar innlána. Er það mögulegt að bresk stjórnvöld hafi heimilað Landsbankanum að safna innlánum, á sama markaði og aðrir breskir bankar, án þess að gera til Landsbankans sömu kröfur um innlánatryggingar og þau gerðu til breskra banka? Með því hefðu bresk stjórnvöld í raun verið að mismuna breskum bönkum, á þann veg að sleppa Landsbankanum við útgjöldum sem fylgdu greiðslu í sama Tryggingasjóði og aðrir bankar á sama markaðssvæði þurfa að greiða í. Þetta gat t. d. þýtt að Landsbankinn treysti sér til að bjóða hærri innlánsvexti, þar sem bresk stjórnvöld slepptu þeim við kostnað sem aðrir bankar þurftu að inna af hendi.

En gat þá mismunur á aðstöðu falist í því að Landsbankinn var íslenskt fyrirtæki, með útibú í London? Nei, út frá markaðslegum jafnræðisreglum EES svæðisins skiptir það ekki máli, hvað rekstrarlega þætti varðar. Hið íslenska útibú verður að vinna algjörlega eftir breskum starfsreglum. Fara í einu og öllu eftir breskum lögum með starfsemi sína á Bretlandi. Útibú þarf öll sömu starfsleyfi og sjálfstætt hlutafélag. Útibúið þarf að gera upp alla rekstrarlega þætti starfseminnar, á sama hátt og sjálfstætt hlutafélag. Eini raunverulegi munurinn er sá að rekstrarhagnaður útibúsins flyst sjálfkrafa úr landi til aðalstöðvanna, en rekstrarhagnaður sjálfstætt starfandi hlutafélags verður kyrr í landinu og skapar skattstofn þar.

Í ljósi alls þessa, vakti það strax sérstaka athygli mína hve harkalegar aðgerðir Breta voru. Aðgerðir þeirra náðu langt út fyrir þá hagsmuni sem þeir voru að verja. Þegar ég fór að skoða málin nánar, varð mér ljóst að bresk stjórnvöld virtust nákvæmlega vita á hvern hátt þau höfðu gerst brotleg við EES reglur, með því að veita Landsbankanum leyfi til innlánasöfnunar, án staðfestingar um aðild hans að hinum breska Tryggingasjóði.

Ef skilakrafa vegna innlána hefði beinst að þeirra eigin Tryggingasjóði, hefði komist upp um hina alvarlegu aðstöðulegu mismunun, sem stjórnvöld höfðu gert sig sek um, auk þess sem þau hefðu orðið uppvís að alvarlegu skeytingarleysi um varnir á innistæðum fjármagnseigenda. Sé mið tekið af hinni veiku stöðu breskra stjórnvalda á þessum tíma, er augljóst að þau máttu engan möguleika gefa á því að athyglin beindist að þeim.

Þarna er augljóslega komin fram skýringin á því hvers vegna Bretar tóku svo snögga ákvörðun um að leysa inn til stjórnvalda sinna allar innistæðukröfur á hendur Landsbankanum, en ekki öðrum bönkum. Einnig það að þau skyldu, eins snögglega og raun bar vitni, taka þá ákvörðun að greiða innistæðueigendum mun hærri fjárhæðir en lágmark reglna um innistæðutryggingar segir til um. Í þriðja lagi fellur vel að þessu skýringin á hinni harkalegu kröfu á hendur íslenska ríkinu, þó þeim væri áreiðanlega ljóst að ríkissjóður væri ekki í ábyrgð fyrir innlánum í bresku útibúi Landsbankans, því það útibú starfaði ALDREI eftir íslenskum lögum.

Bretar vissu strax að, vegna þeirra eigin mistaka við stjórnun og eftirlit bankamála, myndu þeir þurfa að greiða allt innlánatap hjá Landsbankanum. Ef þeir hefðu gefið breskum rannsóknaraðilum færi á að rannsaka leyfisveitingar, eftirlit og starfshætti stjórnvalda, í tengslum við fjármálamarkaðinn, hefði líklega allt bankakerfi Evrópu hrunið, jafnvel heimshrun.

Hver gæti svo ástæðan verið fyrir hinni miklu þögn sem er um þátt Breta í hinu mikla innlánatapi sem varð hjá Landsbankanum? Gæti hún verið sú að stjórnendur heimsmála fjármagnsþátta hafi vitað hve tæpt heimsfjármálin stæðu, og ef upp kæmist um sviksamlega framgöngu breskra stjórnvalda, væri hætta á heimshruni. Betra var því að leyfa Bretum að ráðast gegn íslenska ríkinu, litlu afskekktu eyríki úti í miðju Atlandshafi. Eyríki sem sjálft hafði trassað alvarlega eftirlit með lánastofnunum sínum, sem höfðu á fáum árum þrefaldar erlendar skuldir sínar, án þess að raunveruleg eignaaukning hefði átt sér stað.

 Út frá stöðu heimsfjármálanna, var því hagkvæmasta lausnin að halda pressunni og heimsathyglinni á þessu litla eyríki. Segja að það væri að ógna greiðsluflæði í heiminum með því að borga ekki skuldir sínar. Sú fullyrðing Breta að hin raunveruleg skuld þeirra sjálfra, eða Tryggingasjóðs þeirra (Icesave), væri skuld íslensku þjóðarinnar, var kyrfilega keyrð áfram í öllum fjölmiðlum heimsins, þar til forseti eyríkisins neitaði að staðfesta Icesave II. Í framhaldi af því náði hann athygli og eyrum margra stærstu fjölmiðla heimsins. Þá fóru efasemdaraddir um að eyríkið skuldaði Icesave, að ná eyrum fleiri fjölmiðla.

En eins og skuldasöfnun breskra banka og breskra stjórnvalda er enn háttað, er lítil von til að stjórnendur heimsfjármálanna treysti sér til að taka málsstað litla eyríkisins. Athyglisvert er líka, að þetta litla eyríki býr yfir svo miklum nauðsynlegum auðlindum fyrir Evrópuþjóðir og fleiri ríki, að það er bókstaflega rekstrarlegt hagræði að því fyrir ESB, annað hvort að koma þessu ríki undir stjórn Evrópusambandsins, eða setja það efnahagslega í þrot, svo sterkir fjármagnseigendur kaupi hinar arðgefandi auðlindir.

Evrópu er mikilvægt að ná taki á auðlindum sjávar, vegna vaxandi skorts á fiski á markaði þeirra. En lang mikilvægast er fyrir ESB, að þeir nái stjórnun á siglingum og vörulosun um hina væntanlegu "Norðurleið" því mestar líkur eru á að um þá leið fari megnið af framleiðslu markaðssvæða utan Evrópu. Hafi ESB sterk stjórnunarítök á Íslandi, þegar að þessu kemur, gæti slík stjórnun nánast komið í veg fyrir gjaldþrot margra ríkja innan ESB. Ástæða þess er að í sjónmáli er ekkert sem gæti aukið tekjur margra ESB ríkja, að því marki að þau væru sjálfbær með þau lífskjör og félagslega stöðu fólks, sem nú er gerð krafa um, til jöfnunar við stöðu Norður ESB ríkja.

Það er tæplega að vænta þess að úti í heimi sé einhver umhyggjusöm fósturmóðir sem taki þjóð okkar í fang sér, til að kenna okkur að lifa sem samfélag á þeim alsnægtum sem auðlindir lands okkar bjóða upp á. Svo mikið framboð er í heiminum af þjóðum sem EIGA RAUNVERULEGA BÁGT, að við komust þar hvergi á verkefnalista.

Þegar vandlega er skoðað, má sjá að hér hefur ekki verið nein raunverulega kreppa. Allir tekjuþættir þjóðfélagsins hafa haldið áfram að afla þjóðinni tekna, ekki minni en fyrir hrun fjármálakerfisins. Já, það varð hrun. Við höfðum hlaðið upp óraunhæfum sýndarveruleika með innstreymi ótrúlega mikils magns af erlendu lánsfé, til neyslu og lífsstíls sem tekjuöflun þjóðarinnar réði ekkert við. Þegar innstreymi erlends lánsfjár, til neyslu og lífsstíls hætti haustið 2008, mátti öllum vera ljóst að umtalsverður samdráttur yrði í þjóðfélaginu.

Þjóðin er því miður ekki enn búin að sætta sig við breytinguna. Þess vegna er mikil reiði, því enn er verið að horfa til sömu viðmiða og erlenda fjármagnið gerði mögulegt. Því fyrr sem þjóðin sættir sig við að sú tálsýn sem þá var, kemur aldrei aftur. Því fyrr nær þjóðin að horfa með skýrri hugsun til möguleika sinna í framtíðinni.                                


Er hræðslu að verða vart hjá LÍÚ ???

Af þeirri frétt sem hér er til grundvallar verður vart annað séð en ótta sé farið að gæta hjá forystu LÍÚ.  Allt í einu virðast þeir eins og auðsveipir þjónar, sem nánast engar kröfur geri aðrar en fá að veiða. Þykjast nú aldrei hafa efast um  forræði íslenska ríkisins á fiskveiðiauðlindinni og rétt ríkisins til að setja reglur um stjórn fiskveiða. Hins vegar sé það náttúrlega ljóst frá þeirra hendi að: Á sama hátt eiga íslenskar útgerðir stjórnarskrárvarinn rétt til afnota að aflahlutdeild sinni.  Hvernig réttur sem hvergi er tilgreindur í lögum, getur verið stjórnarskrárvarinn, hafa þeir aldrei geta skýrt.

Enn fremur segja þeir að: "Ú bendir á að stjórn fiskveiða skipti þá sem byggi afkomu sína á sjávarútvegi með beinum og óbeinum hætti og íslenskt samfélag allt miklu."  Ekki tók LÍÚ það nærri sér, þegar þeir sjálfir voru að ná veiðiheimildunum undir sig, þó þeir rústuðu afkomu fleiri þúsund heimila. Þá voru útvegsmanna ekki að hugsa um afkomu þeirra sem eingöngu, eða að miklu leiti, höfðu byggt afkomu sína af veiðum og vinnslu sjávarafurða.

Augljósasta dæmið um undirgefni og sáttavilja LÍÚ má greina á eftirfarandi: "LÍÚ hefur nú beðið í rúma 4 mánuði eftir fundi með forsætis-, fjármála- og sjávarútvegs-ráðherra til að vinna að útfærslu samningaleiðarinnar." Ölum er ljóst að svonefnd "samningaleið" er runnin undar rifjum LÍÚ. Afar mikil amndstaða er meðal þjóðarinnar með þá leið, líkt og með núverandi fyrirkomulag. Þrátt fyrir að stjórnvöld hafi enga ákvörðun tekið um að fara þá leið við fiskveiðistjórnun, segjast þeir nú hafa "beðið í rúma 4 mánuði eftir fundi með forsætis-, fjármála- og sjávarútvegs-ráðherra til að vinna að útfærslu samningaleiðarinnar.

Þegar grant er skoðað, má glögglega sjá að enginn sáttatónn er í forystu LÍÚ varðandi fiskveiðistjórnun. Þeir virðast hins vegar nokkuð hissa á að fyrirmælum þeirra sé ekki hlýtt án óþarfa tafa, að þeirra mati. Augljóst er að jábræðraher þeirra er kominn af stað, því úr mörgum áttum er nú vegið að sjávarútvegsráðherranum, sem gegnir ekki fyrirmælum þeirra. Og það sem verra er, það virðist eins og einhver óþekktarlýður sé að reyna að koma í veg fyrir sameiginlegt atvinnuvegaráðneyti verði að verileika, og losi þá þannig við óhlýðinn ráðherra.

En hvernig væri að LÍÚ stæði nú fyrir því að þeir útvegsmenn sem selt hafa aflaheimildir á undanförnum árum, skili nú virðisaukaskattinum af þeirri sölu til ríkisins, svo létta megi á niðurskurði í heilbrigðis-, mennta-, og velferðarmálum. Þarna á ríkissjóður umtalsverðar útistandandi skattgreiðslur, sem full þörf er á að innheimta. Ekki liggur lengur neinn vafi á að virðisaukaskatt á að greiða af seldum aflaheimildum. Fyrir því er nú til staðfest uppgjör þar sem virðisaukaskattur af keyptum aflaheimildum var endurgreiddur.           

                       


mbl.is Forsætisráðherra og ASÍ fara með rangt mál
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Auðlindir í eigu þjóðarinnar.

Fundur Reykjavíkurfélaga Samfylkingar og VG, á Grand hóteli var einkar vel heppnaður og kraftmikill fundur. Þar voru afbragðs góðir frummælendur sem opnuðu mörg sjóanrhorn vegna þeirrar framkvæmdar sem nú viðgengst við fiskveiðistjórnun.

Það sem mér finnst þó vanta sárlega, er að farið sé skipulega yfir núverandi framkvæmd og dregið fram í dagsljósið á hvern hátt hefur alla tíð verið farið á skjön við gildandi lög. Reglugerðir eru til þess að útfæra nánar það sem í lögunum er sagt. En, það er ekki nóg að setja einhver ákvæði í reglugerð, ákvæði sem ekki eru tiltekin í lögunum. Slíkt er ekki bindandi.

Í lögum um fiskveiðistjórnun er hvergi ákvæði um að skip eða útgerðir EIGI  ár eftir ár ákveðna hlutdeild í úthlutuðum heiladrafla. Í daglegu tali er þetta kallað "Varanlegur kvóti", sem viðkomandi útgerðir EIGI, og verði ekki af þeim tekinn. Á vissan hátt hafa stjórnvöld ítt undir þessa vitleysu, með því að skipta úthlutuðum aflaheimildum eftir reglu sem á sér enga stoð í lögum.

Útgerðarmenn eru ánægðir með þetta, því þessi ólögmæta framkvæmt stjórnvalda fellur alveg að fullyrðingum útvegsmanna; fullyrðingum sem hvergi er lagabókstafur fyrir. Útgerðarmönnum hefur einnig liðist að selja frá sér "varanlega aflahlutdeild", sem ekki er til sem úthlutunarregla. Einnig hefur þeim verið liðið að selja veiðiheimildir innan ársins, þó ALDREI hafi verið samþykkt á Alþingi heimild til að selja veiðiheimildir eða aflamark.

Þá má geta þess að frá 1. janúar 1994, hefur fiskur verið í 14% flokki virðisaukaskatts (VSK). Því hefur ætíð átt að greiðast VSK af öllum seldum aflahlutdeildum og veiðiheimildum.  Skákað er í skjóli þess að þáverandi Ríkisskattstjóri hafi gefið heimild til að virðisaukaskattur af kvótasölu væri ekki greiddur. Því er til að svara að VSK heyrir undir skattheimtu, og lögum eða reglum um slíka innheimtu verður hvergi breytt nema á Alþingi. Að undanskilja kvótasölu frá greiðslu VSK hefur því alla tíð verið ólöglegt, þar sem slík ákvörðun hefur ekki verið staðfest af Alþingi. Það sannaðist á árinu 2008, er skatturinn endurgreiddi útgerð reiknaðan VSK af kvótakaupum hennar.

Sama ólögmæta aðgerðin er það þegar Ríkisskattstjóri heimilaði útgerðum að færa kvótakaup sín sem eign í efnahagsreikning sinn. Með þeirri heimild margbraut Ríkisskattstjóri lög og starfsskyldur sínar. Aflaheimildirnar voru (og eru) SANNANLEGA eign þjóðarinnar. Þær gátu því ALDREI orðið eignastofn í efnahagsreikning útgerðar. Þó útgerðarmaður hafi greitt annarri útgerð peninga til að fá til sín aflaheimild, var engin lagaforsenda til sem skyldaði Fiskistofu til að færa, þeim sem keypti kvótann, auknar aflaheimildir á komandi árum.

Á árum áður, starfrækti sjávarútvegsráðuneytið Kvótaþing, sem umsjónaaðila með úthlutuðum aflaheimildum. Fljótlega fór Kvótaþing að SELJA kvóta, bæði svokallaðan "varanlegan kvóta" og veiðiheimildir innan ársins. Ég átti þá í miklum bréfaskiptum við Kvótaþing, ríksiskattstjóra og ráðuneyti sjávarútvegsmála.

Endaði það ferli með því að ég lagði fram kæru, vegna ólögmætrar starfsemi Kvótaþings, þar sem það væri að SELJA eign þjóðarinnar án þess að hafa fengið hemildir Alþingis til slíks.  Vegna þessarar kæru var hratt brugðist við. Verið var að afgreiða svokallaðan "bandorm" frá Alþingi, og var í flíti bætt aftan við þann lagabálk, ákvæði um að fella Kvótaþing niður og allri starfsemi þess hætt. Var gengið svo rösklega til verka að skömmu síðar var hvergi hægt að finna vísbendingu um að Kvótaþing hefði verið til, því búið var að fella lögin um Kvótaþing út úr lagasafni Alþingis.

Þegar Kvótaþing var fellt niður og starfsemi þess hætt, voru verkefnin færð yfir til Fiskistofu.  Fljótlega fór þar af stað sambærileg starfsemi, þar sem Fiskistofa hefur haldið skrá yfir allar kvótasölur. Þó Fiskistofa selji ekki sjálf, eins og Kvótaþing gerði, eru þeir þó ábyrgir fyrir því að salan fari fram, þar sem tilfærsla aflaheimilda milli skipa, tekur ekki gildi fyrr en Fiskistofa hefur  staðfest tilfærsluna.

Það er því fyrst og fremst Fiskistofa, undirstofnun sjávarútvegsráðuneytis, sem er ábyrg fyrir því að SALA þjóðareignar á sér stað. Ef Fiskistofa færi að lögum og leyfði ekki sölu þjóðareignarinnar, væri stærsti hluti peningasukksins í kringum kvótakerfið, liðið undir lok.

Eins og hér hefur verið rakið, eru það fyrst og fremst opinberir aðilar, Ríkisskattstjóri og sjávarútvegsráðuneyti, sem bera ábyrgð á  þeirri ólöglegu  framkvæmd fiskveiðistjórnunar, sem hefur í för með sér mesta ranglæti kvótakerfisins. Fjármálaráðuneytið bætist síðan við, ásamt Ríksiskattstjóra, að innheimta ekki VSK af seldum kvóta. Þó telja megi víst að útgerðaraðall LÍÚ séu hönnuðir að þeirri framkvæmd sem viðhöfð er, eru það fyrst og fremst framangreindir opinberu aðilar sem bera meginábyrgð á hinni ólöglegum starfsemi, við framkvæmd fiskveiðistjórnuanr.                 


mbl.is Afnemi kvótakerfið strax í ár
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Var það ferð til fjár ????

Ég varð fyrir óskaplegum vonbrigðum með sjónvarpsþættina "Ferð til fjár", sem sýndir voru á RÚV s.l. tvö mánudagskvöld, í samstarfi við Arion banka.

Fjármálalæsi er afar þýðingarmikið fyrir afkomu fólks í nútíma samfélagi, en ekki síður fyrir heilbrigða og gagnrýna umræðu í þjóðfélaginu um efnahagsmál. Ég vonaði því innilega að þessir þættir væru vel ígrundaðir og skipulega fylgt sterkustu lykilatriðum, til skilnings á fjárhagslegu sjálfstæði hvers einstaklings.

Því miður varð ég fyrir hroðalegum vonbrigðum með báða þættina. Ekki var hægt að sjá að höfundur þáttanna hefði skilning á mikilvægustu undirstöðum í hringrás peninga í lífi fólks. Mætti þar nefna skilning á heiðarlegum og heilbrigðum grundvelli tekjuöflunar til lífsafkomu einstaklinga eða fjölskyldna. Þar fyrir utan var efnið britjað niður í sundurlausa búta, þannig að vonlítið var að nokkur manneskja, sem ólæs væri á fjármál, gæti náð heilstæðu samhengi í því óvandaða efni sem flutt var.

 Seinni þátturinn fannst mér þó keyra um þverbak, þegar ljóst var að handritshöfundur og aðalstjórnandi á uppbyggingu þáttanna gat hvorki útskýrt hvað verðbólga væri, né hafði neinn skilning á því sem í daglegu tali er kallað "verðtrygging". Þar er raunar ekki um eiginlga "verðtryggingu" að ræða, heldur kaupmáttartryggingu lánsfjár. Einskonar viðbótarvexti á lánsfé, til viðbótar við tilgreinda vexti samkvæmt lánasamningi eða skudlabréfi. Verðtrygging er því algjört rangnefni á þessu fyrirbrigði, auk þess sem framkvæmd þess er afar langt frá gildandi löum, og margfallt óhagstæðari lántakanum en lög segja fyrir um.

Ef þetta er það besta í fjármálaviti sem í boði er hjá stærsta banka landsins, er vart von á að fjármálalæsi minnki hér á landi fyrir atbeina frá honum.  Ekki er þó vanþörf á að bæta úr almennum skilningi á sköpun, vörslu, og notkun fjármuna, eftir því sem fram kom í viðtölum við hina almennu borgara í þessum þáttum.

 Spurningin er hvort öll svörin sem leitað var eftir hafi verið á sömu lund, eða hvort vanþekking var af ásetningi gerð svo áberandi sem raunin var. Ég treysti mér ekki til að meta slíkt, því efnistök þáttanna voru frekar sem leikaraskapur, en fræðsluefni um eitt mikilvægasta þekkingarmál nútíma samfélags.        


Þetta hef ég sagt lengi

Ég hef í mörg ár vakið athygli á að loforð og yfirlýsingar ráðherra hafa ekkert skuldbindandi gildi fyrir ríkissjóð, fyrr en Alþingi hefur staðfest yfirlýsinguna. Sé  um að ræða loforð eða skuldbindingu ráðherra um fjárútlát, er slíkt loforð, yfirlýsing eða fyrirheit, eingöngu á persónuábyrgð viðkomandi ráðherra, þar til Alþingi hefur, með meirihlutasamþykki, staðfest viðkomandi yfirlýsingu ráðherrans.

Á þetta t. d. við um Tónlistarhúsið, þar sem ekki er einu sinni búið að afla staðfestingar Alþingis á því að ríkissjóður sé helmings eigandi að Austurhöfn ehf. á móti Reykjavíkurborg, hlutafélaginu sem er að byggja Tónlistarhúsið.  Gögn frá Fyrirtækjaskrá staðfesta að engar samþykktir Alþingis liggja að baki stofnun þess hlutafélags.  Ekki hefur heldur verið tekin formleg ákvörðun á Alþingi um byggingu Tónlistarhússins, eða fjármögnun þess, það sem af er, eða á komandi árum.

Mörg önnur loforð og yfirlýsingar ráðherra er enn algjörlega á persónuábyrgðum ráðherranna sjálfra, því þau hafa aldrei verið staðfest af Alþingi.

Þarna eru dómstólar að opna á mikið af lögbrotum ýmissa núverandi og fyrrverandi ráðherra.                  


mbl.is Yfirlýsingarnar ekki skuldbindandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Röng hugsun, skilar aldrei réttri niðurstöðu.

Eins og við mátti búast virðist samkomulag fjármálastofnana og ríkisstjórnarinnar, verða að afar litlu gagni fyrir heimilin í landinu. Ástæða þess er fyrst og fremst sú, að ríkisstjórnir síðustu ára hafa tekið svo hrikalega vitlaust á málum bankahrunsins. Í stað þess að einangra hrunið við bankakerfið, sem allt var rekið í hlutafélagaformi, fóru stjórnmálamenn út í hrikaleg glæfraverk, í þeim eina tilgangi að forða beinum ákærum á hendur stjórnendum bankanna og helstu leiðtogum óráðsíunnar sem viðgekkst síðustu árin fyrir hrun.

Þegar grant er skoðað, er ljóst að stjórnvöld hafa ekki enn aflað sér lögformlegra heimilda til þeirrar yfirtöku bankakerfisins sem framkvæmd var. Sú framkvæmd, með útfærðum kostnaðarþáttum, hefur aldrei verið lögð fyrir Alþingi til staðfestingar.  Þar með er framkvæmdin ekki lögvarin og því ekki á ábyrð skattgreiðenda.

Sú framkvæmd, sem neyðarlögin svokölluðu gátu gefið heimild til, var að ríkið  yfirtæki innlánsdeildir bankanna í heilu lagi. Því til viðbótar gat ríkið yfirtekið skuldabréfadeildir, með almennum viðksiptalánum og húsnæðislánum, en þó með eftirfarandi skilyrðum. Hvert fasteignatryggt skuldabréf væri ekki yfirtekið á hærri fjárhæð en sem næmi söluandvirði veðtryggingar lánsins. Fjárhæð skuldabréfs, umfram það, yrði eftir í gamla bankanum og afskrifaðist þar. Meðfylgjandi framangreindri yfirtöku ríkisins á innlánum og viðskiptaútlánum, fengi ríkissjóður fasteignir bankanna sem andlag verðmæta, en kröfuhafar fengju skuldabréf frá ríkinu að sömu fjárhæð og yfirtekin skuldabréf væru.

Þegar grant er skoðað, hvað gerst hefur eftir hrunið, kemur í ljós að aldrei hefur verið leitað heimilda hjá Alþingi til að yfirtaka útlán bankanna, sem hvorki voru tryggð með veði eða öðrum raunhæfum tryggingum. Eins og áður sagði voru bankarnir hlutafélög, þar sem stjórnir og stjórnendur voru að fullu ábyrgir fyrir gjörðum sínum. Engin ríkisábyrð var á starfsemi þeirra, hvorki hér á landi eða í öðrum löndum. Þeir stjórnmálamenn sem gefið hafa vilyrði fyrir ótilgreindri yfirtöku gömlu bankanna, eru enn einungis persónulega ábyrgir fyrir gjörðum sínum, því ekkert af því sem gert hefur verið, hefur verið staðfest af Alþingi, með réttum hætti.

Og enn halda stjórnmálamenn árfram vitleysunni. Nú á enn að forða stjórnendum banka og lífeyrissjóða frá þeirra eigin vitleysum, með því að fórna ótilgreindumm fjölda heimila fólks í skudlaþrældóm, gera eignarþátt annars hóps upptækann, til bjragar fjárhættufíklunum, og leggja umtalsverðar birgðar á skattgreiðendur næstu ára, til greiðslu á fíflagangi fjármálafíklanna, sem réðu, og ráða líklega enn, banka- og lífeyrissjóðakerfi okkar. 

Er þjóðin virkilega svo duglaus, sjálfri sér til bjargar, að hún láti setja þvílíkar klifjar á herðar sér, að óþörfu, rétt eins og þrælar fyrri alda þorðu ekki að andmæla, eða rísa upp gegn óréttlætinu sem þeir voru beittir.

Hver er munurinn á þeim og íslensku þjóðinni nú?                      


Skrifað sem athugasemd hjá Lilju Mósesdóttur.

 Eftirfarandi var skrifað vegna lítt hugsaðra ummæla, sem höfð voru um skrif Lilju Mósesdóttur á facebooksíðu sinni. Óskað var eftir að ég setti þetta á minn vegg, svo hér kemur það sem ég sagði:

Það væri nú fróðlegt að fá að vita hvar Axel hefur verið undanfarin 20 ár, meðan verið var að breyta Íslandi í hráefnissala, í stað þess að selja unnar afurðir. Ég er kannski glæeyminn, en ég man ekki eftir honum á ritvelli að gagnrýna margföldun þjónustustarfseminnar á sama tíma og verið var að eyðileggja margar framleiðslugreinar unninna afurða, svo hægt væri að selja auðlindir þjóðarinnar sem hráefni, til fullvinnslu hjá öðrum þjóðum.

Það ber því miður ekki vott um djúpa hugsun, þegar ráðist er að þeirri einu manneskju í þingliðinu, sem hefur þekkingu og kjark til að ráðast gegn eyðileggingaröflum AGS. Þeirra markmið hefur alla tíð verið að gera landið háð erlendu fjármagni, til grunnreksturs þjóðfélagsins, svo þeir hafi trygga greiðendur vaxta, því framlegð auðlinda okkar jaðrar á við olíulindir. Það býr enginn til skyndilausnir í dag og draumarnir um álið nú, eru líkir draumunum um síldarverksmiðjurnar forðum. Þegar verksmiðjurnar voru tilbúnar, var síldin búin.

Innan skamms koma á markaðinn ný efni, sem ryðja álinu úr vegi (er þegar byrjað). Þetta vissu flugvélagverksmiðjurnar í Bandaríkjunum fyrir meira en ári síðan, þegar þær ætluðu ekki að endurnýja langtíma samning um álkaup, frá Alcoa. Viðbótarálver hér verða því líklegast fjárfestingabaggar, sem ekki geta unnið fyrir sér.

Það er hins vegar alveg undarlegt hve ENSÍM vinnsla fær litla athygli. Þar er framleiðsla sem kostar litla fjárfestingu (miðað við álver), þarf engar erlendar afurðir til framleiðslunnar (bara íslenskt) og lítið glas af ensími skilar þjóðinni meiri gjaldeyrir en tonn af áli. En peningum þjóarinnar var rænt. Við þurfum að fá okkar eigið fjármagn til reksturs samfélagsins. Við sökkvum sífellt dýpra ef við höldum áfram erlendum lántökum til slíks reksturs. Eftir svona langan hringlandahátt er fátt annað til ráða en auka fjármagn í umferð með seðlaprentun, til að koma hreyfingu á hingrás hagkerfisins.              


Að loknum kosningum til stjórnlagaþings.

Ég verð að segja að kjörsókn var nokkuð nálægt því sem ég bjóst við. Ástæða þess er sú, að afar fáir landsmenn þekkja í raun stjórnarskrána og eru því ómeðvitaðir um að hve miklu leiti hún er ástæða vandamála okkar.  Hin ástæðan er sú, að landsmenn hafa afar lítið tileinkað sér að fara eftir lögum, í sínu daglega lífi. Líklega væri hægt að segja að heldur meiri athygli væri lögð í að hugsaa út aðferðir eða leiðir til að komast fram hjá lögum samfélagsins, án þess að missa þó af þeim þjónustu og fyrirgreiðsluþáttum sem heilbrigt samfélag ætti að veita, ef farið væri eftir lögum.

Meðan hugarfar þjóðarinnar er jafn sjúkt og raun ber vitni, skiptir ekki nokkru máli hvaða orð eða setningar standa í stjórnarskránni. Hún yrði jafn mikið sniðgengin og sú sem nú er daglega sniðgengin.  Ástæðan er líklega sú, að fæstir kunna nú orðið að hugsa eins og samfélag.  Eftir mikinn áróður, í meira en 20 ár, fyrir frelsi einstaklingsins, er vel merkjanlegt í samfélaginu hve virðing fyrir samferðafólkinu fer minnkandi, og baráttan fyrir gæðum "sér til handa" verður harðari. Viðhorfið "ÉG Á RÉTTT Á ÞESSU" verður stöðugt sjálfhverfara og jafnvel fullfrískt hálaunafólk krefst síns hlutar  úr sjóðum velferðar og sjúkraþjónustu, þó fjöldi fólks, sem ekki er fært um að afla sér lífsviðurværis, þurfi sárlega á því fjármagni að halda, vegna fjárskorts hjá ríkissjóði. Og viðhorfið er.  - Hvað þarf ÉG að taka tillit til þess. ÉG Á MINN RÉTT.

 Við breytum ekki þjóðfélaginu með því að breyta þeim texta sem í lögunum stendur, meðan við hvorki lesum, skiljum eða viljum fara eftir þeim leikreglum sem samfélagi okkar eru sett, með viðkomandi lögum. Takist okkur að breyta viðhorfi okkar og framgöngu, mun verða afar auðvelt að breyta þeim lögum sem nauðsyn reynist að breyta.                        


Eru þetta alvarleg réttarfarsmistök?

Mér virðist mál þetta vera svolítið sérstakt. Ef ég skil hlutina rétt, var skuld þess sem lánið tók, felld niður með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur í nauðasamnngum skuldara í kjölfar greiðsluaðlögunar.

Í þessu máli kemur það fram, að ábyrgðarmennirnir taka að sér ábyrgð á skuld þess er lánið tók. Samkvæmt eðli úrskurðar héraðsdóms Reykjavíkur, þá féll sú skuld niður, með þeim úrskurði, og þar með skuldaði lántakinn lánveitandanum ekki neitt.

Ábyrgðarmennirnir tóku ábyrgð á skuld lántakans. Þegar héraðsdómur hafði fellt skuld lántakans niður, var ekkert eftir af þeirri skuld sem ábyrgðarmennirinr voru í ábyrgð fyrir. Sú skuld var felld niður með dómsúrskurði og því í raun engin skuld lántaka eftir hjá lánveitanda og þar með ekkert eftir af ábyrgð ábyrgðarmanna, gagnvart skuldinni sem felld ahfði verið niður.

Hafi lánveitandinn ekki fallist á að skuldin væri felld niður, átti hann einungis kröfu á hendur þeim dómstól er felldi skuldina niður. Hann átt enga kröfu á hendur ábyrgðarmönnum, því skuld lántakans sem þeir voru í ábyrgð fyrir, var felld niður með dómi. Hún var ekki í vanskilum og hún vaer ekki til innheimtu, þar sem hún hafði verið felld niður með dómi.

Mér er óskiljanlegt hvernig menn tengja eignarréttarákvæði stjórnarskrár, gagnvart ábyrgðarmönnum, við það sem er niðurfelld eign lánveitanda, samkvæmt dómsúrskurði. Það er tvímælalaust nálægt hámarki skýjaglópsku og hrein misnotkun á stjórnarskránni. Sorglegt að Hæstiréttur skuli láta glepja sig út í slíka ófæru, sem sýnir best alvarlegan raunveruleikaskort hjá dómurum málsins.                       


mbl.is Bentu þingmönnum á veiluna í lögunum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Enn einu sinni virðist Hæstiréttur misstíga sig.

Ég skal viðurkenna að ég hef ekki lesið gögn þessa máls. En eins og það hefur verið kynnt í fjölmiðlum, virðist aðili hafa fengið skuld fellda niður, á grundvelli lagaákvæðis, sem sett var af Alþingi.  Málið virðist felast í því að lánveitandinn treysti sér ekki til að mótmæla hinni lögskipuðu niðurfellingu. Hins vegar telur hann sig eiga kröfurétt á hendur ábyrðarmönnum lánsins.

Raunveruleikinn er sá, að ábyrðarmennirnir eru ábyrðarmenn á skuld lántakandans. Ef skuld lántakandans hefur verið felld niður, er ekki lengur um neina ábyrð að  ræða, á skuld lántakandans, því hún hefur verið felld niður. Hún er því ekki í vanskilum, í réttarfarslegum skilningi þess orðs. Því á lánveitandinn í raun ekki kröfurétt á hendur ábyrðarmönnum, þar sem ábyrð þeirra verður einungis virk, þegar um vanskil skuldar er að ræða.

Svo er að sjá sem bæði héraðsdómur Suðurlands og Hæstiréttur misstigi sig alvarlega í þessu máli. Á þessa þætti reyndi oft, á þeim árum sem ég var í ráðgjöfinni. Bankar treystu sér aldrei í málssóknir á móti þessum rökum; enda vonlaust mál þar sem skuldin var ekki lengur til, búið að fella hana niður. 

Ábyrðarmenn eru ekki sjálfstætt í skuld við lánveitandann. Því miður misnota margar lánastofnanir aðfararlögin, á þann hátt að lýsa kröfu fyrst á hendur ábyrðarmanni, ef hann er talinn líklegastur til að greiða, eða eiga eignir sem hægt er að  skrá fjárnám á. Að vísu er hægt að fara þessa leið, ef skuld er enn til staðar á skuldara lánsins. En þegar búið er að fella skuldina niður, þó með dómmsúrskurði sé, er ábyrð ábyrðarmanna einnig fallin niður, því skuldin sem þeir ábyrgðust er ekki lengur til.  Lánveitandinn gæti hins vera hugsanlega átt kröfurétt á hendur dómstólnum eða ríkissjóði, vegna laga frá Alþingi, en á það hefur ekki reynt enn.

 Einhvern veginn virðist mér vaxandi dómgreindarskortur lýsa sér í meðferð ýmissa mála, bæði fyrir héraðsdómi og Hæstarétti. Það er í sjálfu sér graf-alvarlegt, sé sú raunin. Óvandaðar úrlausnir dómsmála eru heldur á engan hátt ásættanlegar. Það verður því greinilega að gera auknar kröfur til þeirra um vönduð vinnubrögð, og forðast, að óþörfu, að halla niðurstöðum á þann sem í veikari stöðu stendur.          


mbl.is Löggjafinn fari yfir dóm Hæstaréttar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Guðbjörn Jónsson
Guðbjörn Jónsson
F.v. ráðgjafi

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 5
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 4
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband