Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2008

Er krónan hindrun í Íslensku efnahagslífi???

Að kenna krónunni um erfiðleika hjá fjármálastofnunum okkar, er álíka gáfulegt og kenna veðurstofunni um að veðrið sé vont. Í raun hefur krónan ekkert að gera með trú eða vantrú erlendra fjárfesta á samskiptum við viðskiptalíf okkar. Það er hreyfiaflið í hugsun þeirra sem keyra viðskiptalífið áfram sem ræður viðhorfi erlendra aðila. Þeir fleyta yfirleitt ekki kerlingar ofaná yfirborðinu, vitandi það að steinninn sekkur þegar frumkrafturinn sem ítti honum af stað drífur ekki lengur. Þeir líta eftir því hvernig fræin blómstra sem sáð var til með því fjármagni sem tekið var að láni. Skapi hið endurlánaða lánsfé enga tekjuaukningu, segir það öllum alvöru fjármálamönnum að illa hafi verið farið með fjármuni sem að láni voru teknir.

Það er fullt af alvöru fjármálamönnum víða í útlöndum, sem sjá hvernig lánastofnanir okkar hafa farið með lánsféð. Þess vegna vilja þeir halda sig til hlés.

Íslenska krónan getur aldrei verið orsök erfiðleika í viðskiptum við aðra, vegna þess að hún er einungis spegill þeirra afla sem keyra áfram viðskiptalífið hjá okkur. Raunar speglar hún líka hvernig stjórnvöldum tekst að halda viðskiptalífinu innan ramma sem þróar þjóðfélagið áfram, við hlið annara þjóða sem við þurfum að hafa viðskipti við. Takist stjórnvöldum ekki að hafa hemil á viðskiptalífinu, þannig að það yfirspili ekki starfsemina atvinnu til tekjuöflunar þjóðfélagsins, verður til ástand þar sem krónan tekur verðbreytingum gagnvart myntum annarra landa, sem betur hafa hemil á viðskipta-, tekjuöflunar- og atvinnulífi sínu.

Áberandi er hve lítið er fjallað um þessa grundvallarþætti efnahagslífs okkar, við þær aðstæður sem nú eru uppi. Getur verið að við höfum einungis á að skipa "fleytandi kerlingum", en skorti grunnþekkinguna sem býr til raunverulegan vöxt þjóðfélagsins?

Það er hættulegur misskilningur ef forystumenn lánastofnana halda að frumkvæðið að lækkun stýrivaxta eigi að koma frá Seðlabankanum. Frumkvæðið og forsendur lækkunar eiga að verða til í lánastofnunum sjálfum. Þar getum við sagt að mikilvægast sé að lánastofnanir sýni fram á að þær dragi VERULEGA úr lánveitingum til einkaneyslu, en leggi þess í stað fjármunina í að byggja upp gjaldeyristekjuskapandi starfsemi, sem geri þjóðlífinu kleift að standa undir þeirri útþenslu sem þegar er orðin staðreynd. Gerist það ekki, verður óhjákvæmilega um verulegan samdrátt að ræða, því nú er ekki lengur hægt að taka lán fyrri veislunni. Peningarnir eru búnir.

Þeir sem telja að Seðlabankinn eigi að ganga á undan lánastofnunum í lækkun vaxta, upplýsa fyrst og fremst um vanþekkingu sína á viðfangsefninu sem til úrlausnar er.                     


mbl.is Vandi hve illa gengur að laða að erlenda fjárfesta
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þeir hljóta að breyta þorskkvótanum líka

Fyrst nú er orðið svona augljóst hve veiðibann Hafró byggist á léttvægum og litlum upplýsingum, hljóta þeir hjá Hafró að fara túr núna til að mæla allan þann þorsk sem er utan við þessa gömlu punkta sem þeir hafa haldið sig við að toga á. Það er gífurlegt magn af þorski víðast hvar, nema á þessum auðnarpunktum sem sem þorskurinn er flúinn af.

Fyrst þeir hleyptu loðnuveiðum aftur af stað vegna loðnu sem var á öðrum stað en þeim sem þeir mældu, á líka að auka þorskkvótann vegna þorsksins sem er á öðrum stöðum en þeir mældu. Annað er þeim ekki stætt á, vegna jafnræðis innan atvinnugreinarinnar.

 Einar: Reglugerð á morgun um auknar þorskveiðar.        


mbl.is Einar: „Mjög ánægjulegt“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skilja menn ekki eðli og tilgang stýrivaxta?

Með nokkurri undrun velti ég því fyrir mér hvort það geti verið að stjórnendur lánastofnana og það fjölmiðlafólk sem skrifar um fjármál, skilji ekki eðli og tilgang stýrivaxta. Er það hugsanlegt að þetta fólk haldi að stýrivextir eigi að segja til um útlánavexti lánastofnana? Því miður virðist umræðan benda til slíks og meðan svo er, mun eðlilegt fjármunaumhverfi vera utan sjóndeildarhrings þessarar þjóðar.

Í lögum um Seðlabanka er afar skýrt kveðið á um hvaða takmarkanir eru á lánveitingum Seðlabanka. Í afmörkuðum tilvikum má hann veita lán til lánastofnana, sem samkv. lögum hafa heimild til vörslu og ávöxtunar innlána. Seðlabankinn ákvarðar einungis vexti af eigin útlánum, auk þess sem hann ákvarðar hámark dráttarvaxta.

Þegar ég var í hagdeild banka, voru vextir Seðlabanka í daglegu tali nefndir REFSIVEXTIR. Hvers vegna skildi það hafa verið. Jú ástæðan var einföld. Það þótti nefnilega ILLA rekin lánastofnun sem þurfti á miklum lánveitingum að halda frá Seðlabanka og höfuðatriði stýringar á flæði fjármuna gegnum bankann fólust í að haga útlánum með þeim hætti að engra slíkra lána væri þörf.

Í áraraðir hafa stjórnendur lánastofnana fengið aðvaranir fyrir ofþenslu útlána, án þess að skeyta neitt um þær aðvaranir. Í stað þess að hægja ferðina og styðja við aukna tekjumyndun í þjóðfélaginu, juku þeir stöðugt skuldsetningu sína og veittu því fjármagni að mestu leiti í DAUÐAR fjárfestingar, sem og í ójarðbundna draumóra um fjarlægar hagnaðarvonir einhvers starðar langt inni í framtíðinni. Þetta getur ekki talist ábyrg fjármálastjórnun í litlu hagkerfi, sem lifir á veikum undirstöðum, miðað við það sem ofaná hefur verið byggt. Þegar litið er til þess að það er einungis hálfur annar áratugur síðan þessar sömu lánastofnanir (þó sumar bæru önnur nöfn þá) voru hastalega gagnrýndar fyrir óábyrga útlánastarfsemi, sem olli því að þær töpuðu á skömmum tíma meira fjármagni en nam heildartekjum þeirra á sama tíma. Lærðu menn ekkert af því?? Eða skilja menn EKKERT hvað þarf til að halda fjármálum þjóðfélags  í jafnvægi og stigvaxandi flæði?

Þegar maður horfir til þess sem hér hefur verið sagt, er ekki óeðlilegt að spurt sé hvort fjölmiðlar okkar hafi ekkert fólk á sínum snærum sem geti af yfirsýn og skynsemi skrifað eða rætt um heildarmynd fjármálaumhverfis þjóðarinnar. Er það ástæðan fyrir því að engin heilbrigð umræða eða gagnrýni hefur komið fram í fjölmiðlum vegna þeirrar yfirspennu sem  aukin hefur verið jafnt og þétt, eða eru aðrar ástæður fyrir þögn eða atkvæðalítilli umræðu um þessi grundvallarmál fjárhagslegs sjálfstæðis þjóðarinnar?

Er ekki kominn tími til að taka niður hin skynvillandi sólgleraugu sem fólk virðist bera, og horfa djörfum augum  á raunveruleikann og taka stefnuna út úr vitleysunni.                           


mbl.is Aðstæður að skapast fyrir lækkun stýrivaxta
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er enginn við stýrið á þjóðarskútunni sem kann að sigla?

Eins og margt annað í þjóðfélagi okkar, eru svokallaðir "stýrivextir Seðlabankans" allt annað en látið er í veðri vaka. Af umræðunni mætti ætla að Seðlabankinn beinlínis STÝRÐI vaxtastigi útlána hér á landi. Að sjálfsögðu á það ekki að vera svo, því vaxtaákvarðanir voru gefnar frjálsar fyrir aldarfjórðungi síðan.  Samkvæmt lögum um Seðlabanka, hefur hann einungis heimild til að ákvarða vexti á sínum eigin lánsviðskiptum, sem einungis mega vera við lánastofnanir sem heimild hafa, smkv. lögum, til að taka við innlánum til ávöxtunar og að stunda útlán. Auk þessa ákvarðar Seðlabankinn einnig dráttarvexti. Viðskipti Seðlabankans við lánastofnanir eru afar takmörkuð og þokkalega vel útskýrð og skýr í lögunum um Seðlabankann. Önnur lánaviðskipti má hann ekki stunda og t. d. má hann EKKI veita ríkissjóði, ríkisstofnunum eða sveitarfélögum lán. En hvert er þá meginverkefni Seðlabankans? Engri lánastofnun er eðlilegt eða skylt að haga vöxtum sínum eftir ákvörðunum Seðlabanka, geti þeir hagað starfsemi sinni á þann veg að þeir þurfi ekki lánafyrirgreiðslu frá honum.

Samkv. 3. gr. laga um Seðlabanka Íslands, er meginverkefni hans að stuðla að stöðugu verðlagi og stuðla að framgangi stefnu ríkisstjórnarinnar í efnahagsmálum. Auk þess sér hann um  útgáfu myntar, viðhalda tilteknum gjaldeyrisforða og annast yfirumsjón með starfsemi lánastofnana í landinu, t. d. varðandi eiginfjárstöðu og stöðu lausafjár, þannig að þær geti greitt út þau innlán sem hjá þeim eru vistuð. Hann skal einnig stuðla að virku og öruggu fjármálakerfi, þ. m. t. greiðslukerfi í landinu og við útlönd.  Ýmis fleiri verkefni tilheyra Seðlabankanum en þetta gætu talist helstu verkefnin. Eins og sjá má af þessu, er hlutverk Seðlabankans afar þýðingarmikið fyrir heilbrigði þjóðlífsins, því heilbrigði þess fer afar mikið eftir skynsamlegri stjórnun á flæði fjármagns um lífæðar þess.

Í opnu hagkerfi má líkja fjármunum við blóðið í líkama okkar. Heilstætt heilbrigði okkar er ekki til staðar nema blóðið flæði í stöðugri hringrás um alla kima líkamans. Verði einhverstaðar hindrun á, blóðið stöðvist á einhverjum einum stað, eða gat komi á æð og blóðið flæði út, sveltur það svæði sem missir blóðflæðið. Við getum svo sem sagt: - Hvað, þetta er svo lítið að það skiptir engu máli fyrir heildina.- Það er hins vegar alls ekki rétt, því ef ekki er bætt úr, er hætt við að það komi drep í svæðið sem missti blóðflæðið og það drep geti haft áhrif á önnur svæði sem annars væru heilbrigð. Ef þið notið skynsamlega, fullkomnustu tölvu veraldar, sem hvert og eitt ykkar hefur í kollinum, eigið þið að geta myndgert þessa samlíkingu með streymi fjármagns um þjóðlífið okkar.

Síðastliðna þrjá áratugi hefur ekkert stjórnmálaafl á Alþingi sýnt í orði eða verki að það skilji nauðsyn þess að reglubundið og jafnt flæði fjármagns fari um allar æðar þjóðlífs okkar. Engin breyting er á því hjá núverandi þingmönnum, ráðherrum eða stjórnendum lánastofnana. Þess vegna stefnum við hraðfari að alvarlegri kreppu í þjóðlífi okkar.

Undanfarna tvo áratugi höfum við stigið mikinn Hruna-dans, þar sem haldið hefur verið uppi mikilli skuldasöfnun þjóðfélagsins, með erlendum lántökum lánastofnana og fyrirtækja. Þessir fjármunir hafa ekki verið notaðir til eflingar atvinnu sem gæfi af sér aukna fjármuni. Þeir hafa fyrst og fremst verið notaðir til fjárfestinga sem engri blóðrás skilaði til þjóðlífsins. Lánastofnanir hafa mokað þessu fjármagni út til bygginga á ónauðsynlegu húsnæði sem engan lífskraft gefur þjóðlífinu, auk þess sem verulegir fjármunir hafa verið settir í afar grunnhyggnar væntingar um óútskýrðar hagnaðarvonir, einhverstaðar langt inni í framtíðinni. Þessar hagnaðarvonir hafa gengið kaupum og sölum hjá fjárhættuspilurum nútímans. Flestir þessara aðila hafa opnað æðar þjóðlífsins og tappað af því umtalsverðu magni lífsvökvans, án þess að eftirlitsaðilarnir í Seðlabankanum láti á því bera að þeir skilji hættuna sem af því skapast.

Í tengslum við heilbrigði líkama okkar, gerum við okkur stöðugt meiri grein fyrir því hve forvarnir gegn hverskonar vanheilsu eru mikilvægar. Sama á raunar við um mikilvægi forvarna gegn mistökum við stjórnun á flæði fjármagns um alla þætti þjóðlífs okkar. Mikilvægt er að tala hreinskilnislega og fljótt um þau frávik sem verða í þjóðlífi okkar, og hverfa frá því sem viðgengist hefur undanfarna  áratugi, að bregðast ekki við fyrr en frávikin hafa skapað neyð sem ekki verður komist framhjá. Seðlabankinn þarf nauðsynlega að segja fljótt frá því er hann sér breytignar á flæði fjármagns um þjóðlífið, sem valdið geti samfélagslegum skaða ef leiðrétting fari ekki fram. Til þess að svo geti orðið, verða Seðlabankastjórar fyrst og fremst að vera fagmenn í heilsufræði þjóðlífs, en ekki uppgefnir stjórnmálamenn sem eytt hafa meginþorra starfsævi sinna í að búa til mein í þjóðarlíkmann.

Hvað hef ég fyrir mér í því að tala um mein í þjóðarlíkamanum?

Flestir sem lifa ekki eins og ungar í hreiðri, sem bíða með opinn gogginn eftir að vera mataðir, vita að þeir þurfa að afla tekna inn í umhverfi sitt til að geta veitt sér nauðsynlegar þarfir. Margir átta sig líka á því að verðmæti, þ. e. peningar, verða ekki til af sjálfu sér, heldur fyrir tilstuðlan af sköpun verðmæta sem aðrir, utan heimilis eða svæðisins kaupa. Þannig koma tekjur inn á heimilin með því að starfað sé utan þeirra; tekjur sveitarfélaga koma fyrir seldar vörur eða þjónustu út fyrir svæðið og tekjur þjóðfélagsins koma fyrir þær vörur eða þjónustu sem við getum selt öðrum þjóðum. Við höfum enga sjálfrennandi auðsuppsprettu þannig að við verðum að haga lífi okkar í takt við það sem við öflum.

Fyrir rúmum tveimur áratugum eða árið 1986, voru flest öll sjávarþorp á landsbyggðinni að búa til mun meiri þjóðartekjur en þeir notuðu sjálfir. Þetta var afar nauðsynlegt vegna þess að höfuðborgarsvæðið, sem þá var 55% landsmanna, var ekki að búa til nema 6,8% af tekjum þjóðfélagsins. Meginhluti atvinnulífs á höfuðborgarsvæðinu snerist um þjónustu við svæðið sjálft sem og við landsbyggðina.

Við þessar aðstæður taka stjórnvöld og Alþingi ákvörðun um að rústa atvinnuvegum landsbyggðarinnar, sem að meirihluta til voru tengdar fisk- veiðum og vinnslu. Hlutur fiskveiðanna var þá um 52,5% af verðmætum útflutts sjávarafla en er nú snöggt um meiri, enda þarf útgerðin mun meira af heildarverðmætunum til sín nú, vegna gífurlegrar skuldasöfnunar. Með aðgerðum sínum má segja að stjórnvöld og Alþingi hafi tekið blóðrásina af stórum hluta þjóðarlíkamans og flutta hana til fáeinna fyrirtækja sem engan áhuga höfðu fyrir þjóðarlíkamanum, hugsuðu einungis um sitt eigið ágæti.

Afleiðingar þess að blóðrásinni (verðmætasköpun og peningastreymi) var kippt burtu frá þessum stóru hlutum þjóðarlíkamans fóru fljótlega að koma í ljós. Lífskrafturinn, lífsgleðin og hugmyndakrafturinn fjaraði út og nú er meginhluti þjóðarlíkamans lamaður og er að visna. Samt örlar ekki á skilning á vandamálinu hjá stórnvöldum, Alþingi eða þeim sem gæta eiga jafnræðis í streymi fjármuna um þjóðarlíkamann, þ. e. Seðlabankastjórum.

Ætli það sé enginn á Alþingi sem kann eitthvað fyrir sér í stjórnun þjóðfélagsins?       

 

      
 

                       


Af hverju hækkar skuldatryggingaálagið hjá bönkunum?

Líklega hugsum við Íslendingar ekki mjög ígrundað í peningamálum og líklega nánast ekkert um það hvernig peningaleg verðmæti verði til í upprunanum. Margt í umræðu undanfarinna ára bendir sterklega til þess. Við tölum mikið um okkur sem ríka þjóð, þó fáar þjóðir séu skuldum vafðari en við, samhliða því að möguleikar okkar til að greiða skuldir hefur sífellt verið að versna. Við tölum um gróða bankanna, þó vöxtur þeirra á undanförnum árum hafi að mestu leiti verið með aukinni skuldsetningu og blekkingum verðbréfavísitölu, sem nú er að miklu leiti gengin til baka og það sem fólk talaði um sem "eign" er nú fokið út í buskann.

Ef við reynum nú að vakna og líta á raunveruleikann sem blasir við hugsandi fólki, gætum við séð eitthvað þessu líkt.

Lánastofnanir okkar hafa fengið mikið af lánum erlendis, m. a. á þeim grundvelli að þær eigi tryggt veð í aflaheimildum á Íslandsmiðum. Fyrir skömmu kom fram álit Mannréttindanefndar Sameinuðu Þjóðanna um að fiskveiðistjórnunarkerfi okkar stæðist ekki mannréttindi og því yrði að breyta úthlutunarreglum aflaheimilda. Þessi úrskurður þýðir einungis eitt, fyrir þá erlendu aðila sem héldu að þeir ættu bakveð í aflaheimidunum; að þeir fengu staðfestingu Mannréttindanefndarinnar fyrir því að þeir höfðu verið blekktir. Þeir áttu ekki það veð, sem þeir héldu, fyrir þeim útlánum sem þegar höfðu verið veitt. Þetta þýddi einnig fyrir þá, að eignastaða bankanna okkar var mun veikari en þeir héldu, þrátt fyrir lækkun vísitölunnar, þar sem ljóst var að þeir áttu ekki jafn trygg veð fyrir útlánum sínum og þeir höfðu gefið upp, vegna þess að bankarnir okkar áttu ekki heldur neinn rétt í aflaheimildunum.

Þegar svona þættir eru komnir á kreik, fara lánveitendur að skoða nánar hvernig endurlánun bankanna hafi verið á því lánsfé sem þeir voru að taka. Þá balsir við þeim að meghluti þessa fjármagns hefur verið lánaður út í það sem á fjármálamarkaði eru kallaðar "dauðar fjárfestingar". Það eru fjárfestingar sem skila engri peningamyndun inn í fjármálaumhverfið en kalla einungis á aukinn kostnað. Í þessum flokki eru t. d. byggingaframkvæmdir og húsnæðiskaup, skipulags og þjónustuframkvæmdir sveitarfélaga og almenn neyslulán almennings. Öll þessi lán skila engri aukinni getu til endurgreiðslu þeirra lána sem bankarnir tók til þess að endurlána; og verka því einungis sem veiking á stöðu þeirra á lánamarkaði.

En hvers vegna erum við að lenda í þessu núna, þegar allt virtist vera í blóma og okkur talin trú um að við værum svo rík?

Ástæðan er sú, að þegar við lifum í þeirri blekkingu, að trúa órökstuddu rugli úr fólki sem beitir blekkingum til að auka veg sinn og efnahag, kemur óhjákvæmilega að því að við stöndum frammi fyrir raunveruleikanum, sem þá er ævinlega nokkuð bitur. Svo er um okkur nú.  Í fréttum fjölmiðla undanfarin ár, hafa verið glöggar fregnir af því hvernig lausafé heimsbyggðarinnar hefur verið sólundað í svokallaðar "EINSTEFNU FJÁRFESTINGAR"  sem eru kostnaðarliðir sem engum verðmætaauka skila því svæði sem kostnaðinum var beint að. Marga þætti mætti nefna innan þessa ramma en stærsti einstaki liðurinn er stríðsrekstur og sá kostnaður sem hann veldur, bæði í beinum kostnaði vegna átakanna, en svo einnig vegna uppbyggingar til að átakasvæðið nái sömu möguleikum til fjármunamyndunar og var áður en stríðsrekstur hófst.

Ástæður þessa má fyrsts og fermst rekja til æskudýrkunar vestrænnar menningar. Hún varð þess valdandi að ungmenni með óþroskaða heilastarfsemi, vegna ungs aldurs, urðu ráðandi í hagfræðikenningum, sem flestir þroskaðir hagfræðingar hafa jafnan kallað "hagfræði heimskunnar" vegna þess að forsendur þessarar hagfræði hafði enga raunhæfa tenginu við uppruna fjármagnisns.

Af öllu þessu erum við að byrja að súpa seiðið nú, og getum einungis vonað að það verði ekki of súrt eða beiskt. Takist okkur það, eru sterkar líkur á að við lærum að þekkja rauverulega uppsprettu fjármuna og njóta kyrrlátrar hamingju.              


mbl.is Álagið í hæstu hæðum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skelfileg staða ef rétt er.

Þetta árið virðast lífsskilyrði loðnunnar vera annars staðar en á venjubundnum stað, við landið hjá okkur. Nokkur byggðarlög hafa afmarkað svo mjög atvinnuvegi í byggðum sínum að voði virðist blasa við, ef loðnan finnst ekki. Vantar ekki eitthvað í svona uppbyggingu til að hún gefi nothæfa heildarmynd?

Þekkt er, og engir vísindamenn hafa mótmælt því, að loðnan er burðarþáttur í fæðuframboði fiskistofna hér á miðunum. Síðan loðnuveiðar hófust, hefur verið nánast árviss fæðuskortur í hafsvæðinu kringum landið, sem fram hefur komið í sífellt horaðari fiski, smækkuðum vexti og endurteknum viðkomubresti; sem talist getur eðlilegur vegna þess að horaður og hungraður fiskur gefur varla af sér hraust afkvæmi.

Þegar viðkomubresturinn, sem líklega varð mest vegna loðnuveiða, fór að valda verulegum samdrætti í botnfiskveiðum, var lífsafkomu fólksins í sjávarbyggðum landsins fórnað, svo fólkið í loðnubræðslubyggðunum gæti brosað út í bæði. Ég minnist þess ekki að þar hafi verið mikið fjallað um hörmungarnar sem leiddar voru yfir meginhluta sjávarbyggðanna vegna þess að þessar byggðir fengu að breyta nauðsynlegri fæðu botnfiskanna í peningaleg verðmæti fyrir sig. Man einhver eftir því að byggðarlög hafi mótmælt loðnuveiðum vegna þess að það væri verið að taka ætið frá botnfiskunum?

Ég er ekki að segja þetta til að áfellast fólkið í þeim byggðum sem nú verða fyrir búsifjum vegna brests á loðnugöngu. Ég er að segja að það er AFAR NAUÐSYNLEGT fyrir það fólk sem tekur að sér að veita byggðarlögum eða jafnvel landinu öllu, stjórnunarlega forystu, að hafa skýra heildarsýn á langtíma afkomugrundvöll byggðarinnar, og/eða landsins alls. Ef þetta fólk hefur ekki skýra framtíðarsýn, 10 - 30 ára, lendum við í stöðugu flóttaferli, líkt og nánast allar aðgerðir stjórnvalda hafa verið undanfarna áratugi. Stöðug viðbrögð við því sem þegar er orðið.

Þetta á t. d. við um það sem stjórnvöld í barnaskap sínum kalla mótvægisaðgerðir vegna skerðingar á þorskveiðum. Það er búið að vera ljóst í meira en áratug að styrkja þarf tekjuöflun þjóðarinnar vegna samdráttar í tekjum af sjávarafurðum. Ekkert er hugað að raunverulegum aðgerðum þar sem kreppti að atvinnulífinu, áður en samdrátturinn lamaði byggðirnar, og svo nú, eftir að margar byggðir eru komnar í þrot, líta stjórnvöld út úr fílabeinsturninum og sjá hvað?

Fílabeinsturn þeirra er á höfuðborgarsvæðinu og ekki það hár að úr honum sjáist út fyrir það svæði. Þeir sjá að sjálfsögðu ekki að samdrátturinn bitnar fyrst og fremst á atvinnugreinum sem skapa gjaldeyrir, sem raunar hefur verið mikill skortur á undanfarna áratugi, með tilheyrandi skuldasöfnun. Þess vegna sjá þeir enga aðra leið til mótvægisaðgerða en að deila út nýjum leikjum í leikfangalandi, þó það skapi fyrst og fremst mikil peningaútlát (aukna skuldasöfnun) sem engan eða sáralítinn hagnað hafi í för með sér fyrir þjóðina. Það gæti hins vegar hugsanlega bjargað tveimur til þremur verktökum frá gjaldþroti.

Vegna allra þessara atriða, velti ég aðeins vöngum  yfir einu: Erum við vel menntuð þjóð?      


mbl.is Gerbreyttar aðstæður víða
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Dómgreindin virðist betri utanlands

Mér finnst það fyrst og fremst lýsa því hve fólk hefur lítið fylgst með raunveruleikanum undanfarin ár, að vera nú hissa á hækkandi skuldatryggingu lánastofnana. Við getum ekki ætlast til þess að hag- og rekstrarfræðingar annarra þjóða gangi burt frá skynsemi sinni og dómgreind, þó menn hér á landi hafi gert það án þess að blikna.

Enginn, sem á annað borð hugsar heilstætt um afkomu þjóðfélagsins, ætti að undrast þessa stöðu. Frekar má undrast hve seint hún kemur fram, sem á sér hugsanlega skýringar í hinum svikulu skuldabréfavafningum, sem svo eru kallaðir. 

Vöxtur erlendra lána sem lánastofnanir hafa tekið á undanförnum árum hefur verið ævíntýralega mikill. Flestum sem fylgjast með er vel sýnilegt hvernig bruðlað hefur verið með þetta lánsfé til að framkalla sýndarmennskuríkidæmi og til að halda uppi ónauðsynlegri byggingastarfsemi og annarri lítt nauðsynlegri þjónustustarfsemi, aðallega mannaðri útlendingum sem lítið virðast hafa greitt af tekjum sínum til samfélagsins, enda margir hverjir beinlínis ráðnir til sniðgöngu við slíkt.

Við horfumst í augu við að þurfa að endurgreiða alla þessa milljarðatugi, þó hverfandi lítill hluti þeirra hafi farið til uppbyggingar á tekjuskapandi starfsemi. Skýjaborgin sem óvitarnir á verðbréfamarkaðnum byggðu upp er að mestu gufuð upp og mun ekki skila tekjum til ríkissjóðs eins og óvitagangurinn var að reikna með. Líklegra er að ríkissjóður þurfi að leggja út fjármuni til að tryggja innistæður almennings í lánastofnunum, þegar við nálgumst enn frekar raunveruleikann í efnahagslífi heimsbyggðarinnar, og þar á meðal okkar. Það er sorglegt að horfa enn einu sinni á gott tækifæri okkar til að tryggja tekjugrundvöll þjóðarinnar líða hjá, vegna grunnhyggni og jarðsambandslausra skýjaborga. Ljúkum þessu á einu smábroti úr viðskiptalífi okkar á undanförnum áratug.

Fyrirtækin A:  B:  og C:  tengjast innbyrðis vegna blöndunar sömu manna í stjórnum. Forstjóri B: er stjórnarformaður í A: - A: er að fara í fjárfestingu og þarf að auka eignastöðu sína um 1.200 milljónir til þess að geta fengið þá erlendu lánafyrirgreiðslu sem fjárfestingin þarfnast. Forstjóri B: er slingur með reiknistokkinn.  Sem stjórnarformaður A: boðar hann, snemma árs, stjórnar- og síðan hluthafafundar þar sem samþykkt er að auka hlutafé félagsins um 600 milljónir og að allir hluthafa falli frá forkaupsrétti sínum. Þetta er samþykkt og útboðið fer fram. Stjórnarformaðurinn lætur fyritækið B: sem hann er forstjóri fyrir, kaupa 300 milljónir. Vinur hans og flokksbróðir er forstjóri C:, sem einnig var með frekar lága eignastöðu í efnahagsreikningi. Hann fær þennan vin sinn til að skrá C: fyrir kaupum á 300 milljónum. Hvorutveggja viðskiptin eru færð til bókar á viðskiptareikning.  Þrem mánuðum síðar er boðaður stjórnar- og síðan hluthafafundur hjá B: þar sem ákveðið er að fara í hlutafjárútboð upp á 600 milljónir og að hluthafar falli frá forkaupsrétti; sem var samþykkt og útboðið fór fram.  Þarna keypti A: 300 milljónir og C: keypti hinar 300 milljónirnar og viðskiptin færð á viðskiptareikning. Undir árslok er svo haldinn stjórnar- og svo hluthafafundur í C: Þar gerist sama sagan. Ákveðið að fara í 600 milljóna hlutafjáraukningu og allt eins. Þarna kaupa A:  og B: sínar 300 milljónirnar hvort og allt viðskiptafært.  Við áramót voru allir þessir viðskiptareikningar í jafnvægi, engin skuld, en öll fyrirtækin höfðu hækkað eiginfjárstöðu sína um 1200 milljónir.

Það er ekki flókið að verða stóreignamaður með Villu, Hömmer og einkaþotu þegar maður þekkir rétta aðila.            


mbl.is Skuldatryggingarálagið hækkar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kvótakerfið snýst ekki um fiskifræði heldur EIGNARRÉTT á auðlindinni

Mér finnst kominn tími til að við sem  barist höfum gegn  því ráns- og ranglætiskerfi sem kvótakerfið í sjávarútvegi er, förum að snúa bökum saman og tala sem mest einum rómi um grundvallaratriðin. Því miður fyrir okkur, en sem betur fer fyrir útvegsmenn og stjórnvöld, höfum við verið svo sundraðir i málflutningi okkar að afl andstöðu okkar hefur varla hreyft hár á höfði andstæðinga okkar. Árangurinn af baráttu okkar er líka í beinu samræmi við það
 
Það varð fljótt ljóst við takmarkanir á heildarafla á Ísalndsmiðum að raunverulegur áhugi fyrir uppbyggingu fiskistofnanna var ekki fyrir hendi. Þó veiðitakmörkun hafi nú staðið yfir í hart nær aldarfjórðung, eru menn engu nær um vistkerfi hafsvæðisins; fæðuframboð eða fjölda þeirra einstaklinga og tegunda sem þurfa að draga fram lífið á fæðuframboði hafsvæðisins. Þrátt fyrir margítrekaðar fyrirspurnir til fræðimanna og stjórnvalda um þessi atriði, þ. e. fæðuframboðið og lífsskilyrðin í hafinu, hefur það ALDREI verið sett framarlega í verkefnaskrá fræðinganna. Hvers vegna skildi það vera?
 
Þeir sem til þekkja, vita að LÍÚ-veldið heldur um stjórnartauma Hafrannsóknarstofnunar. Þeirra langtímahagsmunir felast ekki í því að auka fiskigengd á Íslandsmiðum. Þvert á móti, felast langtímahagsmunir þeirra í því að draga svo mikið úr veiðum að sem flestir hinna smærri útgerðarmanna leggi upp laupana, svo heildaraflinn skiptist á færri aðila. Hægt en afar markvisst hafa þessir aðilar hert sókn sína til þess endanlega marks, að ALLAR aflaheimildir á Íslandsmiðum verði formlega viðurkendar sem eign þeirra. Þeir nálgast þetta endamark af einstakri elju og ákveðni, með sívaxandi þrýstingi á að aflaheimildirnar séu að sjálfsögðu þeirra eign.
 
Fyrstu leikfléttuna lögðu þeir út strax í upphafi, þegar þeir komu þeirri villukenningu inn í framkvæmdina að það væru einungis þeir sem hefðu gert út skip á árabillinu 1980 - 1983 sem ættu RÉTT á að fá úthlutaðan kvóta. Þessi staðhæfing hefur aldrei verið í lögum um fiskveiðistjórnun.  Næsta skref þeirra var að gera tilraun til að fá að selja þær aflaheimildir sem þeim væri úthlutað, en slíkt mætti gífurlegri andspyrnu. Þá sættust þeir á þá leið að þeir mættu færa heimildirnar á milli skipa og að í lögunum yrði það kallað, að þeir mættu FRAMSELJA heimildirnar. Það var einstaklga slægleg útsjónarsemi fólgin í því að nota orðið FRAMSELJA. Í raun þýðir þetta orð að afhenda. En þar sem í því er seinni hlutinn SELJA, var auðvelt að blekkja almenning með því að heimilað hafi verið að SELJA aflaheimildirnar. En slík heimild hefur ALDREI verið samþykkt á Alþingi.
 
Þegar þessum áfanga var náð, byrjuðu bein söluviðskipti, en í fyrstu afar afar hógværlega. Byrjunin var að aflaheimilir voru seldar samhliða sölu á skipi. Þegar stjórnvöld og skattayfirvöld gerðu ekki athugasemdir við þetta, var farið að auka þessi umsvif, samhliða því sem talið fór að berast að peningalegu verðmæti aflaheimildanna.  
 
Á þessum tímapunkti töldu útvegsmenn sig nánast vera búna að sigra í glímunni um fiksimiðin og gerðu kröfu um að mega veðsetja aflaheimildirnar. Enn reis þjóðin upp til andmæla og urðu útvegsmenn að sveigja svolítið af leið. En með góðri aðstoð ráðamanna í lánastofnunum, fundu þeir þá leið að skrá aflaheimildirnar í bókhald útgerðarfyrirtækjanna, á því verðgildi sem þegar hafði myndast. Ríkisskattstjóri veitti þeim heimildi til slíkrar skráningar, án þess að hafa lagaheimild til slíkra verka. En þrátt fyrir það, er þessari ólöglegu eignfærslu aflaheimilda í bókhald útgerðarfyrirtækja enn haldið áfram.
 
Fljótlega eftir að útvegsmenn höfðu náð því skrefi sínu,  að kvóti sem þeir höfðu,  væri skráður í bókhald þeirra, fór verð aflaheimilda afar hratt hækkandi. Það þurftu þeir að gera til þess að auka sem mest eignastöðu fyrirtækja sinna, til þess að geta fengið hærri lán hjá lánastofnunum. Gagnrýni á hátt kvótaverð svöruðu þeir með því að það skipti í raun engu máli, því þetta væri aðallega á skiptimarkaði, þannig að þegar þetta væri reiknað í þorskígildum kæmi þetta út á núlli. Þetta var að vísu tómt bull, en dugði þeim samt því fjölmiðlar voru sofandi fyrir hættunni. Þegar ólgan vegna þessarar umræðu hafði lækkað, fóru beinar kvótasölur að verða að veruleika, án þess að samhliða væri verið að kaupa skip.
 
Öll þessi skref, og mörg smærri inn á milli, hafa útvegsmenn stigið í átt til þess að ná  varanlegu eignarhaldi á aflaheimildum Íslandsmiða.  Þeir litu á það sem endanlegan sigur, í ferlinu að sölu aflaheimildanna, þegar Fiskistofa fór að sinna því ólögmæta verkefni að skrá hjá sér söluverð og söluvirði aflaheimildanna. Þá litu þeir svo á að málið væri næstum komið í höfn og hófu framkvæmd lokabaráttunnar, að fá viðurkenningu stjórnvalda fyrir því að aflaheimildirnar væru þeirra lögmæta eign, sem ekki yrði af þeim tekin. Hver og einn þeirra ætti ákveðinn hundraðshluta leyfilegs heildarafla á íslandsmiðum. Til þessa verks voru ráðnir fræðimenn við háskóla, bæði hagfræðingur og lögfræðingur, sem róið hafa ötullega að því að ræna þjóðina eignarréttinum yfir auðlindum fiksimiðanna. Þessi lokaorusta er hafin. Einungis er spurning um hvenær þeir  telja sér óhætt að leggja lokapressuna á hina lítt þroskuðu stjórnmálamenn, sem ævinlega hafa lokað augunum, eða litið undan gagnvart ÖLLUM þeim lögbrotum sem framin eru við fiksveiðistjórun okkar.
 
Eitt skulu menn hafa hugfast. Það verða ekki liðin mörg ár frá því útvegsmenn fá eignarhald sitt staðfest, þar til aflaheimildir, t. d. í þorski, verða tvöfaldaðar, eða jafnvel meir. Þá verður nægur fiskur í sjónum, því þá rennur andvirði aflaheimildanna beint í vasa hinna NÝJU eigenda auðlindarinnar i hafinu kringum landið. Þá er of seint að vakna.         

Á flótta frá spillingu og rugli

Maður er einhvern veginn kominn með upp í kok af öllu þessu rugli og áberandi skorti á virðingu stjórnmálamanna fyrir því fólki sem þeir eru að vinna fyrir. Ég ætla því að hoppa c. a. 40 ár aftur í tímann og rifja upp atvik þegar ég var eitt sumar að vinna á jarðítu við jarðabætur í sveitum Vestfjarða.

Ég var á bæ einum í Arnarfirði, þar sem bjuggu systkin sem voru frændfólk mitt. Eftir hádegi, einn daginn vorum ég og frændi að vinna í flagi ekki langt frá bænum. Þegar kom að kaffi, löbbuðum við heim í bæ til að drekka. Þegar við komum í dyrnar sat frænka á stól á miðju gólfi, með fat eitt mikið á milli hnjánna og var að hræra deig í fatinu með heljarmikilli sleif. Frændi hnippir í mig, bendir á hana og segir.

Hér situr mærin sveitt og rær,

sú er nú fær að vinna.

Stautnum hún hrærir alveg ær,

innan læra sinna.

Við áttum fótum okkar fjör að launa en fengum nú samt kaffi þegar við þorðum aftur inn í bæ.         


Blekkingum beitt til að eigna sér kvótann

Í síðasta psitli var sýnt fram á hvað hafði verið sett í lög varðandi stjórnun fiskveiða. Þar kom glöggt fram að ALDREI hafði verið sett í lög að einungis útgerðir sem gert hefðu út skip eða báta á einhverju ákveðnu árabili, ættu einir rétt á úthlutun kvóta. Rétt er að geta þess að þessi fyrstu lög um kvótasetningu giltu einungis í eitt ár, eða til 31.12.1984 og féllu þá úr gildi. Þau fólu einungis í sér ákvörðun Alþingis að fela sjávarútvegsráðherra að ákvarða hámarksveiði ýmissa fiskistofna innan fiskveiðilögsögunnar og honum falið að skipta þeim hámarksafla milli einstakra veiðarfæra og skipa með hliðsjón af fyrri veiðum þeirra. Engin ártöl tiltekin. En hvaðan koma þá þessi ártöl, þ. e. ártölin 1980 - 1983? Þau koma úr reglugerð.

Reglugerðir eru oft settar við lög til að auðvelda innri stjórnun þess ákvörðunarramma sem Alþingi setti með lagasetningunni. Reglugerð verður ævinlega að vera innan ramma þeirra laga sem hún er sett við og má ekki breyta þeim yrti ramma sem settur var með lagasetningunni.

Í því tillviki sem hér er til umfjöllunar, var ráðherra falin nánari útfærsla þeirra ytri marka sem Alþingi hafði sett, um stjórnun fiskveiða árið 1984. Eins og vikið var að í síðasta pistli, var fyrlgiskjal með lagafrumvarpinu að þessum fyrstu lögum um fiskveiðistjórnun, sem grundvöllur að þeim texta sem í frumvarpinu var. Á þessu fyrlgiskjali var tilgreind niðurstaða Fiskiþings varðandi samkomulagsþætti að grundvallarreglu fyrir úthlutun aflakvóta, sem varð sú; að ævinlega skildi við úthlutun miðað við veiðireynslu næstliðin þrjú ár fyrir úthlutun. Þetta var sá rammi sem ráðherra hafði til afmörkunar í reglugerð sína. Lögin giltu aðeins fyrir árið 1984, þannig að þrjú næstlinin ár þar á undan voru árin 1980 - 1983.  Þess vegna var það, að þegar tiltaka átti tímabilið sem leita átti viðmiðunar um meðalafla, kom eftirfarandi setning fram í 6. gr. reglugerðar nr. 44/1984, um stjórn fiskveiða á árinu 1984.

"Skiptingu heildarafla á hverri fisktegund skv. 1. gr. á tímabilinu 1. nóvember 1980 til 31. oktober 1983, samkvæmt skýrslum Fiskifélags Íslands......."

Þarna kemur fram þessi þýðingarmikla dagsetning, í reglugerð sem EINUNGIS tekur til stjórnunar fiksveiðar á árinu 1984. Lögin sem þessi reglugerð er sett við, féllu úr gildi 31.12.1984 og á sama tíma féll reglugerðin einnig úr gildi AÐ ÖLLU LEITI. Ekkert sem í þessari reglugerð var, gat færst á milli ára eða yfir í aðra reglugerð eða lög, nema það væri skráð þar að nýju, annað hvort sami textinn eða sama efnið með annarri textafærslu.

Þetta umtalaða dagsetningartímabil hefur ekki ratað aftur inn í lög eða reglugerðir, enda ekki von þar sem það tímabil sem þar um ræðir, kemur aldrei aftur. Hins vegar hafa hagsmunaaðilar verið fyrirferðamiklir í að túlka framhaldið með þeim hætti að allar síðari reglur hafi verið setta með það að grundvelli að EINUNGIS þeir sem stunduðu útgerð á þessum tilteknu árum, ættu ALLAN rétt á úthlutun aflakvóta. Gallinn er bara sá að fyrir þessari fullyrðingu sinni hafa þeir ALDREI geta fært fram nein haldbær rök. En á hvaða forsendum halda þeir þá fram þessari vitleysu, sem flestir virtðast ekki þora að mótmæla?

Þeir halda þessu fram á þeirri forsendu að í reglum um úthlutun aflakvóta, sem komu í framhaldi af þessu fyrsta ári, var ekki tillgreint árabilið sem viðmiðun veiðireynslu byggði á, heldur var vísað til þeirrar REGLU sem viðhöfð hafði verið við úthlutun aflakvóta fyrir fyrsta árið, þ. e. árið 1984. Þegar spurt var hvaða regla það væri, voru útvegsmenn afar háværir að benda á þetta tiltekna árabil 1980 - 1983. Það væri reglan. Og með dyggum stuðningi Halldórs Ásgrímssonar þáverandi sjávarútvegsráðherra, sem sjálfur ásamt fjölskyldu sinni, átti verulegra hagsmuna að gæta að skilningur útvegsmanna yrði ríkjandi skipulag, varð engum rökum komið við. Hvorki í fjölmiðlum, á fundum eða hægt að fá stjórnarandstöðuna á Alþingi til að andmæla og halda uppi eðlilegum vörnum. Skilningur útvegsmanna varð því ríkjandi fyrirkomulag, að það væru einungis þeir sem gerðu út skip á árunum 1980 - 1983, sem áttu rétt til úthlutunar aflakvóta. Fyrir þessu finnast bara ekki neinar ákvarðanir Alþingis. Hins vegar stendur enn óhögguð fyrsta ákvörðun Alþingis um að úthluta skuli aflakvóta hverju sinni á grundvelli veiðireynslu næstliðinna þriggja ára. Hvers vegna menn þora ekki að sameinast um að lögum um fiskveiðistjórnun verði framfylgt og hætt framkvæmd sem á sér enga stoð í neinum lögum Alþingis? Það er spurning sem vert er að íhuga.

Við Íslendingar erum ekki í vafa um hvað eigi að gera við einræðisherra og aðra ráðamenn annarra þjóða, sem stela þjóðarauði og auðlindum. Það á skilyrðislaust að gera allar eigur þeirra upptækar til ríkisins og hneppa þá í ævilangt fangelsi. Hvers vegna eru íslenskir jafningar þeirra öðruvísi eða eiga skilið að fá aðra meðferð?

Ég bara spyr?               


Næsta síða »

Höfundur

Guðbjörn Jónsson
Guðbjörn Jónsson
F.v. ráðgjafi

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (20.1.): 3
  • Sl. sólarhring: 10
  • Sl. viku: 151
  • Frá upphafi: 165757

Annað

  • Innlit í dag: 3
  • Innlit sl. viku: 141
  • Gestir í dag: 3
  • IP-tölur í dag: 3

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband