Bloggfærslur mánaðarins, maí 2009

Tónlistarhúsið mistök frá upphafi ?

Það er afar merkilegt að skoða fyrirætlanir og markmið þess að byggja þetta tónlistarhús sem nú er að rísa. Í fyrsta lagi var gert þarna skipulag af stóru hóleli og höfuðstöðvum Landsbankans. Í skipulagsáætlun er talað um að, í tengslum við hótelið, skuli byggja tónlista og ráðstefnuhús.

Þegar eitthvað hús er byggt í tenglsum við eitthvað annað hús, er venjan að húsið sem á að tengjast - eins og í þessu tilfelli - að hótelið komi á undan, þar sem byggja á tónlistarhúsið í tengslum við hótelið.

Ein af meginforsendum nýtingar á ráðstefnusölum tónlistarhússins, var að erlendir ráðstefnugestir gætu gist á hótelinu og nýtt ráðstefnusalina. Ekki eru miklar líkur á að arsemismat verði jákvætt fyrir byggingu hótels á þessum stað, eftir að alþjóðlegt veisluborð ábyrgðarleysis í fjármálum hrundi á síðasta ári.

Nú þegar, er til staðar í mörgum núverandi hótelum borgarinnar, nægt salarrými fyrir þær ráðstefnur sem hingað gætu komið. Þeir sem skipuleggja slíkar ráðstefnur, munu varla fara að bóka ráðstefnusali fjarri aðsetursstað ráðstefnugesta; allra síst að hausti eða vetri. Tekjuforsendur tónlistarhússins - næstu áratugina - eru því verulega skertar og ekki fyrirsjáanlegur rekstrargrundvöllur fyrir því á komandi áratugum.

En það sem vekur mér enn alvarlegri spurninga en að rekstrargrundvöll vanti, er það hvernig var staðið að ákvarðanatöku um byggingu tónlistarhúsins. Hvergi er finnanlegt í gögnum Alþingis, að Alþingi hafi heimilað stofnun hlutafélagsins Austurhafnar ehf. sem sagt er vera í eigu ríkis og borgar, og sér um byggingu tónlistarhússins. Í skráningu Austurhafnar ehf. hjá fyrirtækjaskrá, er engin staðfesting þess að Alþingi hafi heimilað skráningu þess félags sem að hluta eign ríkisins á móti hlut borgarinnar.

Sagt er að gerður hafi verið samningur af hálfu ríkisins um greiðslu hárrar fjárhæðar á hverju ári, í nokkra áratugi, til stuðnings tónlistarhúsinu. Ekki verður séð í gögnum Alþingis að þessi samningur hafi verið lagður fyrir þingið. Þar af leiðir að ríkið er ekki enn orðið skuldbundið til neinnar greiðslu til tónlistarhússins, því Alþingi er eini aðilinn sem hefur heimild til að skuldbinda ríkissjóð.

Það er svo spursmál út af fyrir sig, hvor Alþingi, sem einungis er kjörið til fjögurra ára í senn, eigi að hafa heimild til að skuldbinda ríkissjóð út fyrir það kjörtímabil sem sitjandi þingmenn hafa umboð þjóðarinnar til ákvarðanatöku. Er það eðlilegt að sitjandi Alþingi, geti bundið komandi ríkisstjórnum næstu kjörtímabila, skyldur til að greiða háar fjárhæðir, vegna ákvarðana sem kannski hefur aldrei verið formlega afgreitt eða samþykkt á Alþingi.

Ég held að fólk ætti nú þegar að stöðva þá óábyrgu vitleysu sem felst í byggingu þessa húss, því sú ákvörðun var ekki tekin af yfirvegun, heldur í vímu hins ímyndaða góðæris.            


mbl.is Vill að áform um tónlistarhús verði endurskoðuð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Meira um erlendu lánin

Nokkuð hefur verið leitað eftir frekari rökstuðningi mínum fyrir því að nýju ríkisbankarnir hafi ekki heimild til yfirtöku erlendra fasteignalána, umfram þá fjárhæð sem nemur ætluðu söluverði veðandlagsins (íbúðarinnar), á þeim tíma sem lánið er yfirtekið.

Í því sambandi er mikilvægt að hafa í huga, hvað þetta varðar.

Sú staðreynd óhrekjanleg, að stjórnendur nýju bankanna hafa ekki heimild til að skuldsetja ríkisbankana, gagnvart gömlu bönkunum, með fjárhæðum sem eru hærri en fullgilt veð er fyrir. Til heimildar fyrir slíku dugar ekki ríkisstjórnar eða ráðherraákvörðun, því ríkisstjórn og ráðherrar hafa ekki heimildir til að skuldsetja ríkissjóð. Slík heimild er einungis hjá Alþingi og þarf til slíks sérstök lög, samaber fjárlög og önnur lög um fjármögnun framkvæmda.

Nokkuð skýr mörk um sjálfstæða valdheimild ráðherra, voru dregin fram þegar - með dómi - var hafnað heimild þáverandi menntamálaráðherra til að flytja lögheimili og aðsetur Landmælinga Íslands frá Reykjavík til Akraness, án samþykkis til slíks frá Alþingi. Slíkt var sagt utan valdheimilda ráðherra, nema með samþykki Alþingis.

Ef nýju ríkisbankarnir yfirtaka hærri fjárhæðir á hverju skuldabréfi, frá gömlu hlutafélagabönkunum, en nemur raunvirði þeirra veða sem eru til tryggingar lánum, eru þeir farnir að ráðstafa ríkisfjármálum, því engin trygging er frá hendi skuldara fyrir þeirri upphæð sem er umfram raunverðmæti veðtryggingarinnar.

Hver á að bera tjónið af gengisfallinu?

Almenna regla skaðabótaréttar er sú að  sá sem veldur tjóni á að bera skaðan eða bæta tjónið sem hann veldur.

Í því tilfelli að erlend húsnæðislán hækkuðu verulega í íslenskum krónum, í framhaldi af hruni gömlu bankanna, ber að líta á hvað það var sem olli hruninu. Það voru ekki íslenskir lántakendurnir húsnæðislánanna sem ollu hruninu. Hrunið varð vegna þess að bankarnir sjálfir, gátu ekki fjármagnað rekstur sinn og voru settir í skilaferli og skilanefnd sett til að stjórna því uppgjöri.

Það voru því gömlu bankarnir sjálfir, sem voru valdir að því mikla hruni sem varð á verðgildi íslenskrar krónu. Lántakendurnir áttu engan þátt í því hruni, því vanskil þeirra á þessum lánum voru svo lítil að slíkt gat ekki valdið hruni.

Í ljósi grundvallarreglu skaðabótaréttar eru það því gömlu bankarnir sem eiga að bera tjónið af eigin gjörðum (eða misgjörðum). Þeir verða að taka á sig tjónið sem þeir voru valir að.

Það er ævinlega svo, við yfirtöku á verðmætum hjá aðilum í nauðungarstöðu, að yfirtaka skulda er aldrei jafnhá verðgildi veðtrygginga. Yfirtaka skuldar er ævinlega einhverjum hlutföllum lægri en verðgildi tryggingar eða eignar, þannig að hinn nýi eignaraðili skuldarinnar sitji ekki uppi með hærri skuld til innheimtu en nemur raunvirði tryggingar eða eigna.

Af öllu þessu er ljóst að yfirfærsla erlendra húsnæðislána, frá gömlu hlutafélagabönkunum yfir til nýju ríkisbankana virðist utan lögformlegra réttarheimilda. Enn er ekki farið að leggja hreina yfirtökuskýrlsu fyrir Alþingi, til ákvörðunar um hvort ríkissjóður vilji greiða allar þær fjárhæðir fyrir gömlu bankana, sem þar virðast vera um að ræða.

Ef rétt er að núverandi staða flestra þessara lána sé tvöfalt verðmæti þeirra fasteigna sem til tryggingar eru fyrir lánunum, virðist sjálfgefið, miðað við reynslu síðastliðinna áratuga, að u.þ.b. 65 - 70% af heildarskuldum erlendra húsnæðislána lendi á skattgreiðsndum, því nauðungarsölur hafa yfirleitt ekki skilað nema 30 - 35% af höfuðstól skuldar.

Af öllu þessu er ljóst að brýna nauðsyn ber til að taka þessi mál föstum tökum, með raunverulega verðmætamyndun í forgrunni; en ekki reyna að innheimta hjá lántakendum það tjón sem gömlu bankarnir voru valdir að.

Er fólkið í forystu stjórnmálanna virkilega búið að tapa dómgreind og skynjun fyrir réttlæti?  Spyr sá sem ekki veit, en er óneitanlega orðinn frekar vonlítill um vitrænt ferli í þessum málum.        


Yfirtaka erlendra húsnæðislána

Ég hef í nokkuri undran fylgst með umræðunni um erlendu húsnæðislánin sem fólk tók hjá gömlu bönkunum. Sagt er að nú, eftir yfirtöku þessara lána til nýju bankanna, séu þessi lán allt að tvöföldu verðmæti þeirra fasteigna sem þau eru tryggð í.

Öll vitum við að gömlu bankarnir voru hlutafélög og öll vitum við væntanlega að nýju bankarnir eru í eigu ríkisins. Ég spyr mig því þeirrar spurningar. Hvaða tryggingar höfu hinir nýju ríkisbankar, fyrir yfirtöku mikið hærri skuldafjárhæðar frá hlutafélagabönkunum, en nemur raunverulegu söluverðmæti hinnar veðsettu eignar?

Gera menn sér ekki ljóst að óheimilt er að yfirtaka skuld til ríkisbanka, sem er hærri en söluandvirði veðtryggingar, nema slíkt sé sérstaklega samþykkt af meirihluta Alþingis, samanber fjárreiðulög og fleiri lög?

Eru þeir aðilar sem þessi verk vinna, svo vankunnandi um hvaða heimildir þeira hafa til skuldbindingar gagnvart ríkissjóði og ríkisfyrirtæki, að þeir yfirtaki frá hlutafélagabanka, lán sem er hátt í tvöfallt hærra en sú veðtrygging sem fyrir láninu er?  Hafa þeir leitað heimilda til slíkrar áhættu gagnvart ríkissjóði?

Ég hef verið að bíða eftir að ábyrgir aðilar veki athygli á þessari vitleysu, en er farinn að halda að slíkt muni ekki gerast.

Öll sú framvinda sem verið hefur í þessum erlendu húsnæðislánum er rugl, sem brýna nausðyn ber til að leiðrétta sem allra fyrst.                     


mbl.is FME veitir aukinn frest
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Smáralind vonlaust dæmi frá upphafi

Hugmyndafræðin um Smáralind var vonlaus frá upphafi, því engin leið var að slík fjárfesting gæti borið sig hér á okkar litla landi. Fleiri verslunarhallir munu verða gjaldþrota áður en jafnvægi næst, því þjóðin getur ekki borið alla þessa fjárfestingu og það byrgðahald sem svona mörgum stórverslunum fylgir.

Þjóðin verður að fara að átta sig á, að gjaldeyrir kemur ekki til landsins á annan veg en gegnum sölu okkar á vörum eða þjónustu, til anarra landa. Endalaust innstreymi lánsfjár er liðin tíð og komið að því að lifa af þeim tekjum sem við búum til sjálf, með hugviti okkar og atorku.

Margir lifa í þeim falsdraumi að lífið verði eins og fyrir bankahrun ef við göngum í ESB eða töku upp evru. Þetta er sama villan og hjá vímuefnaneytandanum sem telur sér trú um að heimurinn sé svo mikið betri þegar hann er undir áhrifum vímu, en þegar hann þarf að upplifa veruleikann.

Í samlíkingunni við vímuefnaneytandann, má segja að þjóðin sé enn í afeytrun og sé að verða tilbúin til að fara í meðferð til endurhæfingar að venjulegu og eðlilegu lífi, í venjulegu og eðlilegu samfélagi. Þegar því endurbatastigi er náð, fer þjóðin að undrast hve illa við höfum farið með gjaldeyristekjur okkar og hvernig í ósköpunum við höfum látið okkur detta í hug að borga alla þá peninga (álagningu) sem þarf til að halda öllum þessum verslunum gangandi.              


mbl.is Fall Saxbygg fleytir Smáralind í fang ríkisins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lánveitingar lífeyrissjóðanna

Í Morgunblaðinu í dag, laugardaginn 16. maí 2009, er frétt á bls. 26, sem greinir frá því að Bakkavör Group geti ekki greitt skuldabréf sem var á gjalddaga í gær (15. maí) að fjárhæð sem næst 20 milljörðum króna.  Meðal kaupenda þessara skuldabréfa voru lífeyrissjóðir "sem nú fá lán sín ekki endurgreidd" eins og segir í fréttinni.

Í fréttinni er lýst hinni lögformlegu innheimtuleið, með fjárnámi og síðar kröfu um gjaldþrotaskipti. Síðan segir í fréttinni:

"Þetta er ekki borðleggjandi ákvörðun fyrir þessa kröfuhafa. Bakkavör Group á engar eignir sem hægt er að ganga að. Stórir lánveitendur eru með veð í rekstrarfélögunum, sem eru undir Bakkavör Group. Lífeyrissjóðir og aðrir sem keyptu skuldabréfin halda því á bréfum án nokkurar trygginga eða veða."   (leturbreyting er mín)

Það vekur athygli mína að lífeyrissjóðir hafi keypt skuldabréf sem ekki höfðu trygg veð.  Ég veit ekki betur en að slík meðferð fjár hjá lífeyrissjóðunum sé með öllu bönnuð, enda eru lífeyrissjóðirnir ekki áhættusjóðir og stjórnendum þeirra ber skylda til að ávaxta höfuðstól sjóðanna á tryggan máta, þar sem höfuðstóllinn er undirstaða lífeyris sjóðsfélaga.

Í ljósi þess sem þarna kemur fram, sem og mörgum fyrri fréttum af gífurlega tapi lífeyrissjóða í bankahruninu, virðist augljóst að stjórnendur þessara sjóða hafi farið æði frjálslega með starfsumboð sitt. Þeir ættu því að sjá sóma sinn í að víkja sjálfviljugir úr starfi NÚ ÞEGAR, svo ekki þurfi að safna liði til að reka þá. Þeir hafa augljóslega nú þegar fyrirgert öllu trausti sjóðsfélaga, til gæslu hagsmuna þeirra. Áframhaldandi seta þessara manna við stjórnun og við rekstur þessara sjóða, er því  augljós yfirgangur gagnvart eigendum þessara sjóða og blind frekja til að halda þeim völdum sem þeir telja sig hafa, í skjóli eigna sjóðsfélaga.

Betra er seint en aldrei, að gripið sé í taumana og hreinsað út úr sukkhreiðri lífeyrissjóðanna. 

       


mbl.is Bakkavör í vanskilum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Opinberum fyrirtækjum er óheimil viðskiptaleynd um verð seldrar þjónustu

Opinberum fyrirtækjum er óheimilt að sveipa leynd eða trúnaði um söluverð þjónustu sinnar eða afurða. Það ætti ekki að þurfa að rökstyðja slíkt fyrir heilbrigt hugsandi fólki; en kannski er heilbrigð hugsun orðin fátíð eða í útrýmingarhættu.

Trúnaðarupplýsingar eiga fullan rétt á sér milli einkafyrirtækja, en vegna jafnræðisreglu stjórnarskrár er opinberu fyrirtæki óheimilt að vera með óopinberar verðskrár yfir þjónustu sína eða söluafurðir.

Málið er í raun ekki flóknara en þetta. Viðskiptaaðilar OR og Landsvirkjunar vita að þeir eru að kaupa af opinberu fyrirtæki og EIGA því að vita að leynd yfir meginefni slíkra samninga stenst ekki grundvallarreglur um upplýsingaskyldu opinberra fyrirtækja.

Það hefur hins vegar lengi verið þekkt að spillingaröflin snúa gjarnan baki við þeim sem þau eiga að vernda, þegar þau telja sig komast á slóð þeirra sem dreifa seðlum eða flottræfilshætti.                    

 


mbl.is Verður að virða umsaminn trúnað
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mjólkaði LÍÚ kúna okkar?

Það er undarlegt að framkvæmdastjóri LÍÚ skuli tala um "að gera aflaheimildir upptækar", þegar engin lög fyrirfinnast um að útvegsmenn eigi nokkra einustu aflahlutdeild. Ríkið (þjóðin) á allar aflaheimildir og úthlutar heimildum til nýtingar þeirra einu sinni á ári. Við úthlutun hafa Stjórnvöld aðeins eina lagaskyldu við framkvæmd úthlutunar; sem einungis hefur verið notuð einu sinni, við fyrstu úthlutunina.

Hugtakið "varanleg aflahlutdeild" hefur ALDREI verið staðfest af Alþingi. Af þeirri ástæðu hefur svonefndur VARANLEGUR KVÓTI aldrei verið lögformlega til. Hann á sér því enga lögvarða réttarstöðu og engin útgerð getur sótt neina réttarstöðu á grundvelli þess að hún eigi varanlega aflahlutdeild.

Fyrir tíma kvótakerfisins, var hlutdeild útgerðarfélaga í heildarverðmæti útfluttra sjávarafurða, rétt um 46% útflutningsverðmæta, en hlutdeild landvinnslu og byggðanna 54%. Þá var fjármagnskostnaður sjávarútvegsins örfá prósent af heildarverðmæti útflutnings og skuldir lægri en raunverulegt söluverðmæti lögformlegra eigna.

Nú er staðan sú að útgerðarfyrirtækin eru búin að sölsa undir sig meginhlutann af söluverðmæti sjávarafurða inn í sitt rekstrarumhverfi. Skuldir sjávarútvegsins eru tvöfallt eða jafnvel þrefallt raunverðmæti lögformlegra eigna. Og fjármagnskostnaður líklega kominn yfir 20% af heildar útflutningsverði sjávarafurða.

Þessa framþróun kalla "spekingar LÍÚ" hagkvæmni og hagræðingu í sjávarútvegi og tala um jákvæðan árangur af kvótakerfinu.

Nýlega var í Kastljósi fjallað um könnun á FJÁRMÁLALÆSI Íslendinga. Þar kom fram að þjóðin fékk algjöra falleinkun í fjármálalæsi. Sé litið til þess sem hér að framan er rakið um árangur kvótakerfisins, virðist mér að fjármálalæsi hjá LÍÚ sé innan við 1 í einkunn.

Í ljósi þess að kvótagreifar hafa selt þjóðareignir fyrir mörg hungruð milljarða - og stungið andvirðinu í eigin vasa, án þess að greiða af því virðisaukaskatt - er skiljanlegt að framkvæmdastjóra LÍÚ finnist sárt að horfa fram á að það eigi að taka af þeim stærstu mjólkurkúna. Ljóst er að engin útgerð hefur getað skilað þeim rekstrarhagnaði sem útvegsmenn hafa krafist sem söluverð - í sinn vasa - fyrir þær aflaheimildir sem þeir fengu úthlutað ókeypis.

Í ljósi þess fjármálalega ólæsis sem greinilega er fyrir hendi hjá LÍÚ,  er engin undur þó framkvæmdastjóri þeirra skilji ekki þá hugsun sem felst í því að sjávarútvegurinn verði aftur sú undirstaða atvinnulífs í hinum dreifðu byggðum landsins, sem hann var fyrir hagræðingu LÍÚ "spekinganna" og auðlindaþjófnað þeirra.                


mbl.is Ekki hyggindi að slátra mjólkurkúnni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Undarleg viðbrögð ráðherra í kastljósi

Ég varð verulega undrandi á ýmsum ummælum viðskiptaráðherra í kastljósi kvöldsins. Ekki var hægt að merkja á orðum hans að hann skildi þá stöðu sem mikill fjöldi fólks er í. Þegar svo er, er lítil von til úrbóta að varanlegu gagni, undir leiðsögn stjórnvalda.

Einnig talaði ráðherra eins og að allar skuldir sem ekki yrðu greiddar, lentu á ríkinu.  Þetta kom mér verulega á óvart, í ljósi þess að skuldir þessar voru  yfirfærðar frá bönkum sem voru hlutafélög með sjálfstæðan fjárhag og sjálfstæða ábyrgð á öllum sínum lántökum og útlánum. Engar ríkisábyergðir voru á lántökum þeirra.

Í ljósi þessa er algjörlega augljóst að nýju ríkisbankarnir hafa ekki heimild til yfirtöku hærri lána en sem nemur raunvirði (í íslenskum krónum) þeirra veða sem fyrir lánunum eru. Aðrar upphæðir lánsfjár geta einungis verið til innheimtu hjá ríkisbönkunum, en ekki yfirteknar af þeim. Slík innheimtulán munu aldrei lenda á ríkissjóði, heldur lenda í afskriftarhluta við uppgjör gömlu bankanna, greiðist þau ekki af lántakanum.

Dæmið sem nefnt var, um maninn sem tók lán í japönskum jenum, er glöggt dæmi um þetta.  Hann keypti íbúð fyrir 39 milljónir. Hann átti 11 milljónir en tók 28 milljónir að láni í japönskum jenum. Nú stæði lánið í 70 milljónum, hann fengi líklega 30 milljónir fyrir íbúðina, þannig að núna skuldaði hann 40 milljónum meira en væri verðmæti íbúðarinnar.

Tap þessa manns er þó meira. Hann hefur tapað þeim 11 milljónum sem hann lagði í upphaflegu kaupin. Hann hefur einnig tapað verðbótum af þessu fé, sem áætla má 1,6 - 1,7 milljónir. Beint tap þessa manns má því áætla sem 52 - 53 milljónir á einu ári.

Þessi maður skuldar einhverjum gömlu bankanna þessar 70 milljónir sem lánið er sagt vera núna. Nýju bönkunum væri heimilt að yfirtaka - sem næmi raunvirði íbúðarinnar nú - sem sagt er vera 30 milljónir. 40 milljónirnar gæti nýji bankinn einungis yfirtekið til innheimtu, því ekkert veð væri til tryggingar á greiðslu þeirra milljóna. Þær 40 milljónir væru því í raun í efnahagsreikning gömlu bankanna og færu þar í afskriftapakkann með öðrum lánum sem engir veðþættir stæðu fyrir.

Ástæður þessara breytinga eru ekki lántakanum að kenna. Þar af leiðandi ber honum ekki að bæta þann skaða sem lánveitandinn verður fyrir. Skaði lánveitandans er að öllu leiti til kominn vegna hans eigin aðgerða. Hann verður því sjálfur að bera skaðann sem af þeim hlaust.

Þar sem lánveitandinn (gamli bankinn sem lánaði fyrir íbúðinni) tók féð að láni hjá erlendum lántaka í eigin nafni og endurlánaði til íbúðarkaupandans, ber þessi gamli banki alfarið ábyrgð gagnvart erlenda lánveitandanum, en ekki íbúðarkaupandinn. Íbúðarkaupandinn gerði ekkert sem olli hruninu eða verðfalli krónunnar, þess vegna skuldar hann að hámarki þær 28 milljónir sem upphaflega lánveitingin var. Hærri fjárhæð hefur Nýi bankinn ekki heimild til að yfirfæra í efnahagsreikning sinn sem fulla veðsetningu á hans íbúð, og yfirtöku til sín sem eignastöðu í efnahagsreikning.                  


Að örþrifaráðum kemur þegar of lítið er gert til verndar heimilunum.

Á s.l. hausti, skömmu eftir hrun bankanna, ritaði ég forsætis- og viðskiptaráðherrum bréf, þar sem ég varaði við þeirri stöðu sem nú er upp komin. Í þessu bréfi benti ég á hugmyndafræði og leiðir, sem þróuðust í gjaldþrotahrinunni á tíunda áratug síðustu aldar.

Hvað þarf að gera:

Grípa hefði átt strax til lagasetningar, þar sem íbúðarhúsnæði væri verndað fyrir aðför vegna annarra lána en þeirra sem beinlínis voru tekin til fjárfestingar í íbúðinni. Þetta hefði algjörlega afmarkað vanda sem stafaði frá öðrum skuldum en húsnlæðiskaupum.

Setja hefði átt lög um lausafjárviðskipti, á þá leið að óheimilt væri að leita tryggingar í öðrun en því sem selt væri, fyrir þeim lánum sem veitt væru til kaupanna. Þetta hefði tryggt að lánveitendur væru vel meðvitaðir um áhættuna sem þeir væru að taka, í stað þess að oft eru lánin veitt í skjóli þess að viðkomandi lántaki eigi íbúð fyrir fjölskyldu sína.

 Þegar í stað hefði átt leiðrétta vitleysu sem er í útreikniforsendum svokallaðrar "verðtryggingar", þar sem heildarhöfuðstóll lánanna er stöðugt hækkaður, án þess að lánveitandinn greiði út verðbótahækkunina til lántakans. Réttur útreikningur verðbóta á lánsfé felst í því að gjalddagi hverju sinni, er verðbættur með mismun vísitölu frá lántökudegi, til greiðsludags hverrar afborgunar. Þannig var aðferðarfræðin hugsuð í upphafi, enda segir í svokölluðum "Ólafslögum" - að verðbæta skuli greiðslu lánsins - en framkvæmdin hefur alla tíð verið vitlaus.

Þegar búið væri að leiðrétta vitleysurnar í útreikningum "verðtryggingar", væri horfinn á braut stærsti hvatinn til verðbólguvaxtar. Lánin lækkuðu jafnt og þétt við hvern gjalddaga sem greiddur væri, svo engra hækkana væri þörf vegna vitlausra höfuðstólshækkana lána.

Að ráðamenn þjóðarinnar skuli bæði undir rós og beinlínis ódulið, ógna fólki sem beðið hefur vitrænna úrlausna í marga mánuði, er næsta grátlegt. Það - eitt og sér - sýnir glögglega hve lítið ráðamenn hafa lagt á sig til að skilja til hlýtar þann vanda sem að fólkinu steðjar.

Myndrænt er hægt að segja að skuldarinn sé í öðrum enda snörunnar, en tilli enn blátánum á klettabrúnina, en í hinum endanum sé lánveitandinn - en sá endi sé fyrir utan brúnina; yfir hyldýpinu. Skeri skuldarinn sig niður úr snörunni, mun hann geta staðið í fæturna, en lánveitandinn fellur í hyldýpið.

Það var mikið reynt hér í fyrri gjaldþrotahrynunni að beita innheimtulögfræðingum. Lánastofnanir fengu þeim kröfur til innheimtu. Þeir keyrðu ferlið áfram til uppboðs eigna, sem oftast skilaði því að lánastofnunin keypti eignina á uppboðinu. Skuldarinn gat ekkert borgað og var oftast gerður gjaldþrota. Lögfræðikostnaður af þessum hráskinnaleik var gífurlegar, en hann var - að stórum hluta - greiddur af lánveitandanum, sem réði lögfræðinginn til starfans.

Þessi vinnubrögð sýndu sig að því að skila lánveitendum einungis umtalsverðum kostnaði; jafnframt því að skila þeim umtalsvert lægri fjárhæðum til greiðslu hinna veittu lána, því þeir fengu einungis það sem eftir var, þegar lögfræðingurinn var búinn að taka sín laun og útlagðan kostnað.

Ef menn ætla að fara slíka innheimtuleið nú, með allan þennan fjölda sem nú er í erfiðleikum, eru menn ótvírætt að búa sér til illvígan ófrið og jafnvel hatursumhverfi, sem við höfum þó verið blessunarlega laus við fram til þessa.

Það er ekki nóg að vera vinstri maður. Menn verða að hafa vit og kjark til að  ráðast að rótum vandamálanna, ef ætlunin er að leysa þau farsællega til frambúðar. Slíkt er ekki farið að sjást í farveginum ennþá, þó margir mánuðir séu liðnir frá því að vandamálið var í sjónmáli.              


mbl.is Varar við örþrifaráðum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kjánaleg rökfræði

Þessi rökfræði Friðriks kemur mér ekki á óvart. Hún sýnir hins vegar hve LÍÚ er fátækt af rökum fyrir núverandi fyrirkomulagi - að þeir skuli ekki finna eina einustu rökfærslu innan eigin atvinnugreinar.

Ég er ekki fylgjandi því að teknar sé af núverandi fyrirtækjum þær aflaheimildir sem þeir eru að fiska sjálfir, á eigin skipum. Slíkt væri óþörf inngrip í atvinnuveg sem er undirstaða þjóðartekna.

Ég er einnig mótfallinn því að aflaheimildir verði settar á uppboð, því slíkt er afar erfitt í framkvæmd - svo ekki komi þar inní milliliðir í hagnaðarskyni. 

Ég tel hagkvæmustu leiðina vera þá að stjórnvöld deili aflaheimildum út eftir veiðireynslu skipa, en allir greiði - sem auðlindagjald - á bilinu 5 - 15% af löndunarverði afla; allar útgerðir sömu prósentutölu.  Það hlutfall greiddist beint til ríkisins, frá fiskkaupanda, en færi aldrei til útgerðarinnar.

Þessi aðferð er einföld, skilvirk og setur allar útgerðir við sama borð.         


mbl.is Líkir uppboði afla við byggingastarfsemi í Grafarholti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða

Höfundur

Guðbjörn Jónsson
Guðbjörn Jónsson
F.v. ráðgjafi

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (28.3.): 2
  • Sl. sólarhring: 5
  • Sl. viku: 11
  • Frá upphafi: 164725

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 8
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband