Bloggfærslur mánaðarins, október 2008
29.10.2008 | 15:51
Alls engin sjálfgefin fylgni á milli stýrivaxta Seðlabanka og útlánavaxta bankanna
Hvernig væri að alþingismenn og þjóðin öll færi að átta sig á að vextir á útlánum í þjóðfélaginu þurfa alls ekki að vera í neinni tenginu við stýrivexti.
Útlánavextir bankanna eru ákveðnir af þeim sjálfum, samanber 10. gr. laga um vexti og verðtryggingu, en þar segir svo í 1. málsgrein.
Lánastofnunum ber að tilkynna Seðlabanka Íslands um öll vaxtakjör og breytingar á þeim í því formi og með þeim fyrirvara sem Seðlabankinn krefst.
Hvergi er um það getið í lögunum að Seðlabanka sé heimilt að hafa afskipti af vaxtaákvörðun bankanna, en samkvæmt upphafi 2. málsgreinar 10. gr. áðurgreindra laga, er Seðlabanka skylt, fyrir lok hvers mánaðar, að birta í Lögbirtingarblaði, vexti af útlánum; þ. e. þá vexti sem bankarnir tilkynna til Seðlabankans.
Ákvörðun Seðlabanka um stýrivexti er af allt öðrum toga en vengjuleg útlán bankanna. Þar er um að ræða vexti af skammtímalánum Seðlabanka til lánastofnana, 7 daga peningalán, eða skammtíma verðbréfakaup Seðlabanka af bönkunum. Upphæð þessara lána er svo hverfandi lítið brot af útlánum bankanna, að engin þörf er á að útlánavextir elti stýrivexti.
Í þjóðfélagi, þar sem sérstök þörf er á að beita háum stýrivöxtum, hafa lánastofnanir gengið út fyrir þau mörk sem hagkerfi þjóðarinnar þolir. Við slíkar aðstæður eiga stýrivextir að vera verulega mikið hærri en venjulegir útlánavextir, því þeir eiga að virka fælandi á bankana að þurfa að nota lán frá Seðlabanka, því hann geymir fyrst og fremst gjaldeyrisforða þjóðarinnar, sem ekki á að vera í stöðugu útláni hjá lánastofnunum.
Mikilvægt er nú, þegar ríkið á alla stærstu bankana, að rjúfa nú þann vítahring sem einkavæddu bankarnir sköpuðu, með því er þeir hækkuðu stöðugt útlánavexti sína í takt við hækkun stýrivaxta. Nú er lag að pressa á viðskiptaráðherra að rjúfa þessa tengingu og lækka útlánavexti til mótvægis, vegna aukinnar verðbólgu.
Svo þurfum við líka að nota tækifæri ríkisbankavæðingarinnar og koma okkur út úr þessu rugli verðtryggingar lánsfjár.
Ljóst að þyrfti hækka vexti | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt 30.10.2008 kl. 21:25 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
29.10.2008 | 15:00
Er ekki hægt að stoppa kjánaskapinn frá þessum mönum????
Ekki hvarflaði nú að mér annað en greiningadeild Glitnis hefði verið lögð niður við yfirtöku ríkisins á bankanum. Svo mikið rugl hafði nú borist frá þessari deild, að ég taldi víst að nú mundi því linna, þegar yfirtakan varð.
En því miður virðist svo ekki vera. Enn birtist frá þessari deild rugl sem sýnir afskaplega takmarkaðan þroska og hæfni til samanburða á aðstæðum og væntanlegum árangi út frá því.
Þeir jafna saman takmörkuðum þrengingum nokkurra banka í Skandinavíu, við það fjármálahrun sem nú er að ganga yfir heimsbyggðina. Slíkt er ótrúlegur kjánaskapur, auk þess sem ekki er enn séð fyrir afleiðingar núverandi hruns, og EKKERT svæði í heiminum er utan þessara þrenginga. Enginn veit því enn hvar niðursveiflunni líkur, hvað þá að einhver sjái raunverulega jákvæðni og vöxt vera á næsta leiti.
Að vænta sömu áhrifa frá yfirlýsingu okkar nú, um umsókn til aðildar að ESB og upptöku evru, eins og varð þegar Svíar og Finnar tilkynntu um aðildarumsókn, sýnir enn betur vanhæfni greiningadeildar Glitnis til lestrar í aðstæður.
Þegar Svíar og Finnar tilkynntu um aðildarumsókn, voru allir heimshlutar, utan Skandinavíu, með fjármálastarfsemi sína á fullu. Verðbréfamarkaðir í uppgangi, fjárfestingabankar unguðu út skuldabréfum í allar áttir til að búa til verðmæti sem greidd yrðu síðar, og fjárfestar í stöðugri leit að tækifærum til að koma peningum sínum í vinnu og ávöxtun.
Í dag er Íslenska þjóðin rúin trausti. Stærstu bankar þjóðarinnar komnir í þrot, hugsanlega að einhverju leiti vegna trúar stjórnenda þeirra á ruglið frá greiningadeildunum. Alla vega gátu þær ekki sýnt nauðsynlega varúð til að forðast þrengingar sem skapað gætu það hrun sem nú er staðreynd.
Í ljósi þessa, sem og þess að nú eru fjárfestar fyrst og fremst að huga að tapi sínu og hve miklu þeir ná aftur til baka af þeim fjármunum sem útistandandi eru, er engin leið að setja samnefnara viðbragða við tilkynningu Svía og Finna fyrir hart nær 20 árum, við þá tilkynningu sem við myndum senda nú.
Við erum yfirlýstir á kafi í skuldafeni, sem við erum að greiða úr með hjálp Alþjóða gjaldeyrissjóðsins. Margir bankar og fjárfestar munu tapa verulegu fé hér í bankahruninu. Við höfum hvergi lánshæfi, en fáum væntanlega einhver lán til endurreisnar, með atbeina vinveittra ríkisstjórna. En beinar lánveitingar til okkar verða áreiðanlega af skornum skammti næstu árin.
Ef ég væri stjórnandi Glitnis, mundi ég loka þessari deild tímabundið og senda starfsmenn hennar í endurhæfingu, frá þeim gjaldþrota hugmyndum sem lesa má úr skrifum þeirra, því sú hugmyndafræði er þegar viðurkennd sem ein af meginástæðum fyrir þeim ógöngum sem heimurinn er nú í.
Yfirlýsing um aðildarumsókn myndi hafa víðtæk áhrif | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt 30.10.2008 kl. 21:33 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
29.10.2008 | 12:17
Ekkert verður til úr engu
Sá óvitagangur sem viðhafður hefur verið í peningamálastefnu okkar undanfarin ár, er með ólíkindum. Allir sem beita heilbrigðri hugsun, vita að vöxtur verður ekki til úr engu. Það er líka löngu þekkt, að engin gjaldmiðill getur staðið einn og óstuddur; ekki einu sinni hin viðurkennda heimsviðskiptamynt, Bandaríski (USA) dollarinn.
Hvaðan sú kjánahugsun er upp runnin að krónan okkar, ein af minnstu mynteiningum veraldar, gæti staðið ein og óstudd í ólgusjó heimsviðskiptanna, verður sennilega aldrei opinberað. Enda er það kjánaheimska liðins tíma, sem við höfum nú í höndum áþreifanlegan árangur af; og eigum að læra af.
Við ættum að vita, að fyrst USA getur ekki (og hefur ekki í áratugi getað) tryggt verðgildi dollarsins, án utanaðkomandi stuðnings, jaðrar það líklega við hámark heimskunnar að ætla krónunni okkar að geta ein og óstudd haldið verðgildi sínu.
Þegar hugsuðir frjálshyggjunnar skilgreindu hugtakið "Markaðshagkerfi", gleymdu þeir mikilvægasta grundvallarþætti alls vaxtar, sem er uppruni vaxtarins, uppruni verðmætanna. Allskonar villandi hugtök urðu ríkjandi, s. s. að veltuaukning, þó hún væri framkvæmd með utanað komandi lánsfé, fékk nafnið "hagvöxtur" eða "þjóðarframleiðsla", eftir því í hvaða samhengi var rætt um hina auknu veltu. Ýmis fleiri gildi voru afvegaleidd til að fela raunveruleikann í orðagjálfri talnaleikja. Árangurinn varð sífellt minnkandi ábyrgð fyrir hinum raunverulegu sannindum, og meira að segja dregið í efa hugtakið "rétt". Afleiðingin varð stöðugt vaxandi óöryggi um raunveruleg gildi viðfangsefna.
Hinn kaldi raunveruleiki vaxtar hefur ævinlega verið einn. Líkt og að tréð vex upp frá fræinu sem sett er í jörðina, og allur vöxtur trésins kemur síðan frá gjafara vaxtarins og uppruna verðmæta hans, kemur raunverulegur vöxtur hagkerfis ævinlega frá uppsprettu sköpunar raunverulegra verðmæta, sem eiga upptök sín innan hagkerfisins. Það er hægt að stækka blöðru með því að blása meira lofti í hana, svo hún stækki, en hið raunverulega efni í blöðrunni eykst ekkert við það. Hins vegar eykst álagið á hið raunverulega efni og hætta vex á því að blaðran springi. Svo er og með hagkerfi sem þanið er út með lánsfé, án raunverulegs innri vaxtar.
Ef við gefum okkur tækifæri til að setjast niður og íhuga það sem gerðist, og afleiðingar þess fyrir hagkerfi okkar, sjáum við vonandi sem flest, hve frjálshyggjan hefur rangtúlkað hugtakið "frelsi" og misbeitt því alvarlega í gróðahugsjón fyrir þá frekustu. Gróða sem í mörgum tilfellum var einungis sýndarveruleiki, sem nú er horfinn, eftir að blaðran sprakk, sem þessi sýndarveruleiki var byggður á.
Við uppbygginguna sem farmundan er, teldi ég afar mikilvægt fyrir þjóðina að forðast "markaðshagkerfi" að hætti hugsuða þeirra kerfa sem nú hafa keyrt heimsfjármálin í strand. Förum varlega og hugum vandlega að rótum og innri vexti þeirra auknu umsvifa sem fæðast munu í þjóðfélagi okkar á komandi árum. Með þeim hætti tryggjum við afkomu og hamingju komandi kynslóða hér á Íslandi.
Peningamálastefnan verði endurskoðuð strax | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt 30.10.2008 kl. 21:44 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
27.10.2008 | 17:23
Ætli þeir hafi misskilið eitthvað í Seðlabankanum ???
Ég velti fyrir mér hvort stjórar Seðlabankans hafi haldið að þeir væru Seðlabanki Bretlands. Dálítið skrítið að geta ekki lánað Landsbankanum vegna erfiðleika í íslensku útibúi bankans í London, en lána svo Kaupþingi meira en tvöfallt hærri fjárhæð vegna erfiðleika þeirra í Bresku fyrirtæki þeirra í London.
Ég hefði haldið að skyldur Seðlabankans væri fyrst og fremst ríkar gagnvart starfsemi íslenskra fyrirtækja, þó útibú sé erlendis, sem væru með bótaábyrgð íslenska ríkisins. Sú skylda væri alla vegar fremri skyldu þeirra til að lána Bresku fyrirtæki í London, þó eigendur þess fyrirtækis væru Íslendingar.
Ef þetta er röksemdagrunnur í verkum Seðlabankans, er kannski skiljanlegt hvernig komið er.
Seðlabanki andmælir Björgólfi | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 17:25 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
27.10.2008 | 13:23
Niðurstöður þessarar fréttar eru blekking.
Þarna er ekki um FRÉTT að ræða heldur áróðurblekkingar af ófyrirleitnari gerðinni. Ef álíka sannleiksvilji er í öllum fréttum Fréttablaðsins er í raun tímaeyðsla að vera að lesa það.
En af hverju segi ég að þetta sé blekking? Ástæðan er aftirfarandi.
Spurt er: VILTU GANGA Í EVRÓPUSAMBANDIÐ?
Spurðir eru 800 einstaklingar = 100%
Spurningum svöruðu 647, eða 80,88%
Já sögðu 445, eða 55,63%
Nei sögðu 202, eða 25,25%
Óákveðnir voru 153, eða 19,12%
Spurt er: VILTU TAKA UPP EVRU Á ÍSLANDI?
Spurðir eru 800 einstaklingar =100%
Spurningu svara 647, eða 80,88%
Já sögðu 469, eða 58,63%
Nei sögðu 178, eða 22,25%
Óákveðnir voru 153, eða 19,12%
Hvort er mikilvægara að segja þjóðinni satt, eða beita hana enn einum blekkingunum til stuðnings hópi íslendinga sem ekki treystir sér til að stýra efnahagsmálum okkar án erlendrar íhlutunar?
Stuðningur við ESB-aðild og evru eykst | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
26.10.2008 | 15:43
Þeir sem gelta eins og þeim er sigað, eiga von á klappi.
Það er sorglegt að sjá svona ályktun frá kjördæmisráði flokks sem er að staðsetja sig sem stærsti stjórnmálaflokkur landsins. Greinilega er þarna verið að gelta í sömu átt og forystan, án þess að kanna til hlýtar hvað er verið að boða.
Ekki þarf að kafa djúpt til að sjá greinilega hrörnunar og upplausnareinkenni á Evrópusambandinu. Stjórnendum þess hefur ekki tekist að vinna bug á skuldasöfnun og því síður geta gengið þannig frá óreiðuskuldum undangengins áratugs að endurskoðendur fáist til að skrifa upp á ársuppgjörin.
Evrópusambandið er ekki hlutafélag eða einstefnu styrkveitingasjóður. Það er einskonar sameignarfélag, þar sem allar aðildarþjóðir þess bera sameiginlega ábyrgð á rekstri þess og skuldum. Ef við gengjum þar inn nú á næstunni, myndum við að öllum líkindum fljótlega fá í fangið skuldapakka sem væri nægt viðfangsefni fyrir komandi kynslóðir Íslendinga í nokkuð marga áratugi.
En er þetta ekki bara rugl manns sem er á mót ESB?
Mikið væri gefandi fyrir að svo væri, en raunveruleikinn mun heimsækja okkur að þessu leiti, líkt og hann hefur gert varðandi gengdarlausa skuldsetningu okkar eigin þjóðar.
Tekjur ESB hafa ekki dugað fyrir útgjöldum og stöðug fjölgun fátækra ríkja, sem þarfnast mun meiri framlaga fjármagns en þau greiða fyrir aðild, hefur aukið verulega á þennan hallarekstur á undanförnum árum. Þekkt er, að stærstu ESB þjóðirnar hafa undanfarin ár ekki viljað auka framlög sín í hina sameiginlegu sjóði. Ekki mun núverandi ástand heimsfjármálanna bæta úr þeirri stöðu, samhliða því sem fjárþörf ESB mun aukast.
Helstu máttarstólpar ESB reyndu að stilla saman strengi sína vegna bankakreppunnar, með yfirlýsingu um samstilltar aðgerðir. Þau fóru síðan hvert heim til sín og gerðu allt annað en þau höfðu samþykkt, því þarfir landa þeirra voru svo mismunandi.
Fyrirsjáanlegur er mikill samdráttur athafnalífs á evru-svæðinu. Í ágúst s.l. var atvinnuleysi ungs fólks sagt vera 14,9% og miðað við aðstæður eru líkur á að það hafi aukist síðan. Þá hefur komið fram að Alþjóða gjaldeyrissjóðurinn (IMF) segir útlitið einna verst í löndum innan Evrópusambandsins.
Innan ESB er einnig komin af stað togstreyta varðandi gengi evrunnar og sagt að farið sé að hafna evrum sem hafi raðnúmer prentunnar í sumum löndum ESB. Gengi evrunnar er mikilli óvissu háð, ekki síst vegna þess að Seðlabanki evrunnar (ECB) virðist ekki hafa nægt fjármagn í sjóðum sínum til að styðja evruna í þeim hamförum sem nú ganga yfir.
Eins og heimsmálunum er nú háttað, teldi ég það algjört óráð að fara að tengjast ESB við núverandi aðstæður. Hvað evruna varðar, tel ég þverrandi líkur á að hún verði til sem sameiginleg mynt, að þremur árum liðnum og verulegar líkur á alvarlegum áföllum hennar á næsta ári.
Mestar líkur eru einnig á að þeir erfiðleikar sem núverandi bankakreppa framkallar, muni einnig valda sundrun ESB á árunum 2010 til 2011.
Aðildarviðræður við ESB strax | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
26.10.2008 | 14:12
Er Sjálfstæðisflokkurinn trúarbrögð, en ekki stjórnmálahreyfing ???
Þetta er afar athyglisverð niðurstaða. Annað hvort eru tæp 30% þjóðarinnar sem er alveg sama hvernig farið er með hagsmuni þjóðfélagsins, eða að Sjálfstæðisflokkurinn er trúarbrögð, sem eru að öllu leiti óháð athöfnum á stjórnamálasviði.
Yfirgnæfandi meirihluti kapítalískra hugsuða í hinum siðvædda heimshluta, hafa látið í ljós fullkomna vantrú á þeirri hugmyndafræði sem hefur verið meginstofn stjórnmálastefnu Sjálfstæðisflokksins undanfarna tvo áratugi. Þrátt fyrir þessa staðreynd, til viðbótar við gjöreyðileggingu á uppbyggingu síðustu kynslóða í íslensku viðskipta- og athafnalífi, virðist þriðjungur þjóðarinnar enn tilbúinn til að hjálpa Sjálfstæðismönnum að eyðileggja meira.
Það eru miklar líkur á að svona skoðanakönnun veki umtalsverða athygli, því hún er afar glöggt vitni um hörmulega siðferðisvitund; að þriðjungi þjóðarinnar sé sama um þær hörmungar sem yfir þjóðina hafa verið leiddar.
Miðað við það sem fram er komið, hefði verið eðlilegt að Sjálfstæðisflokkurinn fengi svoa 5% í þessari könnun, en ynni sig á næstu tveimur árum upp í svona 15%, stæðu þeir sig vel í endurbyggingu lífsgæða þjóðarinnar.
Minnihluti styður stjórnina | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
26.10.2008 | 13:15
Krónan á enga sök á ástandinu
Mig langar að þakka Björgólfi fyrir frásögn sína í Morgunblaðinu í dag, sunnudaginn 26. október 2008. Viðtalið er um margt fróðlegt, þó spyrjandinn hefði að ósekju mátt vera víðsýnni og huga að fleiri þáttum þess er olli hruni bankana.
Ég er ekki sammála Björgólfi um að krónan hafi verið helsta vandamálið í íslensku efnahagslífi.Krónan er einungis verkfæri okkar til verðmætaskipta, bæði innanlands og gagnvart öðrum myntkerfum. Ef við segjum að krónan okkar sé ónýt, eða einskis virði, erum við um leið að segja að við séum ekki að skapa nein verðmæti sem aðrir hafi áhuga á að eignast og að við sjáum ekki fram á að skapa þau verðmæti sem þurfi til að afla meiri erlendra peninga en við notum jafn harðan. Sé staðan sú, fáum við vart margar Evrur til ráðstöfunar, þó skipt væri um mynt.
Allir vita að þetta er ekki rétt. Fiskurinn okkar hefur um langa hríð verið einn sá verðmætasti í heimi og færri fengið en vildu. Orkan í fallvötnum okkar og jarðhitinn í jörðinni er einnig umtalsverð verðmæti, sem við höfum, því miður, ekki enn lært að nýta nógu vel þjóðinni til hagsbóta. Hingað til höfum við selt þessa gullmola okkar á einskonar rýmingarsöluverði til erlendra stórfyrirtækja, sem selja sjálfu sér aðföngin og stýra því sjálf afkomu sinni og hagnaði af rekstrinum hér. Á sama tíma sinnum við ekki þeim þáttum sem eru mun kostnaðarminni í stofnfjárfestingum en líkur eru á að skili þjóðfélaginu margföldu því verðmæti sem álbræðslur skila til verðmætasköpunar hér. Þá er enn ótalið hugvitið sem býr í mörgum ungum og efnilegum snillingum okkar, sem þegar er farið að afla umtalsverðs gjaldeyris.
Við hugsum um og umgöngumst krónuna okkar líkt og þær þjóðir gera við sinn gjaldmiðil, sem styðst við dygra sjóði Seðlabanka þeirra landa. Sjóði sem hafa orðið til á hundruðum, ef ekki þúsundum ára. Þessar þjóðir þurfa ekki að hafa vakandi auga með þeirri verðmætasköpun sem viðheldur verðgildi gjaldmiðilsins, því það verðgildi tryggist frá þessum sjóðum, þannig að daghverfur breytileiki viðskiptakjara breytir ekki grunngildi verðmætis myntarinnar.
Líkja má þessu við atriði sem við ættum að þekkja vel, en það eru uppistöðulón virkjana okkar. Ef við byggðum raforkuframleiðsluna á daglegu rennslu þeirra fallvatna sem notuð eru til raforkuframleiðslu, væri orkumagnið sem við fengjum ansi sveiflukennt. Þannig er umhverfi krónunnar okkar; ansi sveiflukennt eftir innstreymi dagsins, eða mánuðarins.
Til að tryggja stöðugleika í orkuframleiðslu söfnum við upp stórum lónum af vatni, einskonar sveiflusjóðum, til að tryggja jafna framleiðslu, sambærilegt við að tryggja verðgildi krónunnar með uppsöfnun eignarsjóða.
Það er afar óraunsær barnaskapur að telja okkur, sem einungis höfum u.þ.b. 60 ára sögu peningamyndunar í landinu, og allan þann tíma höfum við eytt öllu sem við höfum aflað okkur, og meira til, í uppbyggingu þjóðfélagsins, að við getum allt í einu tekið stökk og stillt okkur upp í lífsstíl og hugsun, við hliðina á þjóðfélögum sem hafa hundruða, ef ekki þúsunda ára venjuhefðir í umgengni við verðmæti, sem þar að auki eru baktryggð í miklum sjóðum Seðlabanka þeirra.
Í raun erum við í nákvæmlega sömu stöðu og daglaunamaðurinn, sem verður að fá launin sín greidd reglulega til að geta borgað heimilisreksturinn og afborganir lána sinna. Við höfum enga sveiflujöfnunarsjóði (engin uppistöðulón) til að tryggja jafnt og eðlilegt streymi fjármagns að og frá landinu. Lánastofnanir hafa að vísu falið þessa staðreynd nokkuð fyrir almenningi, með stöðugu innstreymi lánsfjár (sem kallað var góðæri).
En, öll ættum við að vita að ef við búum okkur til lífsumgjörð með lánsfé, sem raunverulegar tekjur okkar geta ekki staðið undir, er óhjákvæmilegt að slíkt ævintýri taki enda, þegar allar lántökuleiðir eru tæmdar.
Segja má að almenningi hafi verið haldið svolítið ómeðvituðum um alvarleika stöðunnar, með því að flagga þeirri haldlausu stöðu að ríkissjóður væri skuldlaus, þó erlendar skuldir þjóðfélagsins, sem heildar, væru stöðugt að aukast.
Áður hef ég vikið að, á þessari síðu, ástæðum þess að krónan okkar sé svona verðlítil, en það stafar fyrst og fremst af því hve mikið vantar á að við framleiðum nægan gjaldeyri til greiðslu alls innflutnings, ásamt afborgunum og vöxtum af erlendum lánum. Það sem verið er að segja með því að erlendir aðilar telji krónuna okkar verðlausa, er það að þeir trúa ekki á að við getum neitt á næstunni, skapað krónunni okkar aðfengið verðmæti. Þess vegna verði hún verðlaus utan Íslands, líkt og Matadorpeningar eru utan spilsins.
Sama staða mun verða þó við skiptum yfir í Evru. Allar lánaleiðir okkar eru fullnýttar, þannig að við fáum ekki meiri eyðslulán. Við munum því ekki fá til okkar fleiri Evrur en við framleiðum fyrir. Það þýðir í raun að tekjur þjóðarinnar verða að duga okkur, hvort sem það verður mælt í krónum eða Evrum.
Krónan stærsta vandamálið | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
24.10.2008 | 18:07
Hugsunarháttur okkar er lykillinn að árangrinum
Ég tel mig þekkja hvernig Paul Thomsen hefur liðið þegar hann var að tilkynna þjóðinni í hve alvarlegri stöðu fármál hennar eru. Hér áður fyrr þurfti ég oft að tilkynna stoltu og dálítið sjálfbirgingslegu fólki að það væri búið að skuldsetja sig svo mikið að tekjur þeirra dygðu ekki til framfærslu og greiðslu afborgana.
Flestir sem hafa ábyrga hugsun, telja stóran hluta af sjálfsvirðingu sinni felast í fullu fjárhagslegu sjálfstæði; og skilja þá hugtakið "sjálfstæði" þannig að allir séu að sjálfsögðu tilbúnir til að lána þeim vörur eða önnur verðmæti, gegn því að þau greiði það síðar. Þeir hafi óskert traust og áreiðanleika.
Þeir sem af einhverri tegund ábyrgðarleysis, lenda utan við þetta umhverfi trausts og áreiðanleika, upplifa mikla höfnun. Viðbrögð flestra við slíku er líka höfnun. Þeir hafna þeim aðstæðum sem þeir höfðu sjálfir skapað sér með einhverskonar ábyrgðarleysi, og fá oft útrás í því að vera ósanngjörn eða ókurteis við þann sem er að hjálpa.
Líkt og við greiðsluerfiðleika einstaklings, er hugarfarið lykillinn að markvissri lausn úr þeim aðstæðum sem uppi eru. Afneitun þess raunveruleika sem skapaður var, er einungis flótti frá ábyrgð á eigin athöfnum eða athafnaleysi og skortur á hurekki til að takast á við þann raunveruleika sem lífið leggur að fótum manns. Raunveruleika sem búinn var til með fyrri athöfnum eða athafnaleysi.
Þegar við, hvert fyrir sig, höfum skilgreint stöðu okkar og skapað okkur hugrekki til að leita skilmerkilegra lausna, til að komast úr þeim vanda sem við erum í, er alltaf hægt að finna lausn sem skapar leið til bjartari framtíðar.
Þegar við, hvert um sig, finnum lausnir á vanda okkar og vinnum okkur markvisst frá þeim erfliðleikum sem við skópum, öðlumst við í leiðinni afar dýrmætan þroska og fáum um leið nýjan skilning á þeim mikilvægu gildum í lífinu sem byggja upp hina raunverulegu lífshamingju.
Mig langar að biðja fólk að hafa hemil á hroka og hleipidómum, því slíkt lýsir fyrst og fremst innri líðan þess sem slíkt sýnir. Við munum geta náð árangri gagnvart þeim sem misnotað hafa aðstæður í þjóðfélagi okkar, þó við spörum heift og reiði. Auk þess er slíkt eyðsla á dýrmætri orku og tíma, því þeir sem eru hugarfarslega fastir í heift eða reiði, hafa ekki eðlilega dómgreind til úrlausnar aðsteðjandi viðfangsefna.
Mjög erfiðir tímar framundan | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
24.10.2008 | 16:43
Mér finnst flokkspólitískur fnykur af þessu hjá Steingrími
Því miður finnst mér Steingrímur ekki trúverðugur í þessum upphrópunum sínum. Ég er ekki enn farinn að heyra hann nefna neitt af þeim pólitísku atriðum sem heyra undir löggjafarþingið okkar, sem eru veigamikill þáttur í að þjóðfélag okkar er komið í þá stöðu sem það er nú í. Er hugsanlegt að hann sé ekki enn farinn að átta sig á þessum mikilvægu atriðum?
Það er afar merkilegt að heyra forystumann stjórnmálahreyfingar, tjá sig með þeim hætti sem Steingrímur hefur stundað. Athyglisvert er, ef það hefur alveg farið fram hjá honum að Seðlabanki og stjórnvöld voru, áður en til bankahrunsins kom, búin að leita víða fanga um lánafyrirgreiðslu, en verið hafnað vegna mikillar skuldastöðu bankana.
Er hugsanlegt að Steingrímur átti sig ekki á hve lengi alþjóðleg vantrú er búin að vera til staðar á hina gífurlegu skuldasöfnun bankanna? Hefur virkilega farið fram hjá honum, líkt og fór fram hjá ráðamönnum þjóðarinnar, allar þær aðvaranir sem virtir fræðimenn, víða að úr heiminum, og alþjóðlegar stofnanir, komu á framfæri við okkur, með mismunandi hætti?
Gerir hann sér ekki grein fyrir að allir þeir aðilar í veröldinni sem fylgjast með þróun fjármagnsmarkaða, hafa látið þýða fyrir sig ákveðna þætti úr umræðum á Alþingi, sem fjalla um efnahags- og fjármál, til að átta sig á hvort sinnuleysi í ábyrgðarhugsun sé eingöngu bundið við stjórnarflokkana, eða hvort stjórnarandstaðan standi sig í hlutverki sínu að vekja athygli á lykilþáttum efnahags- og fjármála, sem greinilega stefna í ógöngur.
Ég verð að segja að mér finnst Steingrímur, eins góður ræðumaður og hann nú er, setja verulega niður í tilraunum sínum til að nota þessar neyðarlegu aðstæður sem þjóðin er nú stödd í, til flokkspólitískra átaka og atkvæðaveiða. Steingrímur á margt gott skilið, en ef fólk læsi nú ræðurnar hans á Alþingi, svona 8 ár aftur í tímann, tel ég víst að það yrði hissa á hve fáar beinar tilvísanir er þar að finna í þau atriði sem valdið hafa þeirri óheillaþróun sem við erum nú að fást við.
Það er einmitt þetta beina varnaðarhlutverk sem stjórnarandstaðan okkar hefur ekki sýnt í verki, og ég hef gagnrýnt nokkuð harkalega í meira en áratug. Stjórnarandstaðan á því sinn hluta af ábyrgðinni af því hvernig komið er, vegna þess að þeir stóðu ekki í fæturna á vaktinni sem stjórnarandstaða þjóðarinnar.
Ábyrgðin er ríkisstjórnarinnar | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Nýjustu færslur
- EES samningur og ætlað vald ESB
- Efnahags og viðskiptanefnd Alþingis 2021 / Hver er þekking ál...
- Þjóð án fyrirhyggju og dómgreindar: Fyrirlestur saminn og flu...
- Þetta jaðrar við hættulegt ábyrðarleysi hjá fomanni stærsta s...
- BREYTING ER NAUÐSYN TIL BETRA LÍFS
- YFIRSTJÓRN SEÐLABANKANS Lög 2019
- EES samningur og ætlað vald ESB
- ÓSAMRÆMI MILLI LAGA UM STJÓRN FISKVEIÐA OG FRAMKVÆMDA ...
Eldri færslur
2024
2023
2022
2021
2020
2019
2018
2017
2016
2015
2014
2013
2012
2011
2010
2009
2008
2007
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (15.11.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 3
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 3
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bloggvinir
- alla
- framtid
- mammzan
- hallgrimurg
- huldumenn
- jaxlinn
- johanneliasson
- maggij
- photo
- haukurn
- runar-karvel
- sigrunsigur
- skodunmin
- svarthamar
- vestskafttenor
- athb
- thjodarsalin
- seiken
- skinogskurir
- bjarkitryggva
- bjarnimax
- brahim
- gattin
- einarhardarson
- einarorneinars
- bofs
- dramb
- haddi9001
- heimssyn
- tofraljos
- don
- hordurvald
- fun
- visaskvisa
- huxa
- jonasphreinsson
- jonl
- jobbi1
- jonvalurjensson
- jonthorolafsson
- josefsmari
- juliusbearsson
- ksh
- kolbrunerin
- kristbjorg
- liu
- skrafarinn
- maggiraggi
- markusth
- os
- raksig
- rosaadalsteinsdottir
- fullvalda
- siggileelewis
- duddi9
- siggith
- saemi7
- tryggvigunnarhansen
- vga
- thjodarheidur